24.03.1938
Sameinað þing: 8. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 262 í D-deild Alþingistíðinda. (3026)

55. mál, sjúkrasamlög

*Haraldur Guðmundsson:

Þessari till. er í sjálfu sér ekki lengur beint að mér, og ég hefði kosið, að núv. hæstv. atvmrh. hefði svarað því, sem að henni lýtur, en hann er ekki viðstaddur í deildinni sem stendur. Ég get að sjálfsögðu gefið nokkrar upplýsingar í þessu máli, sem ég tel rétt, að komi fram.

Út af formi till. vildi ég segja það, að ég tel ákaflega varhugaverða braut, ef Alþingi gengur inn á að samþ. till. sem þessa. Eftir því, sem hv. flm. mælti fyrir till., er hér um lögskýringaratriði að ræða, þ. e. a. s., hvort ráðh. sé bundinn við það eftir lögum að fara eftir tilnefningu tryggingarráðs eða ekki, — þ. e., hvort hann sé skyldugur að skipa þann mann sem formann sjúkrasamlaganna, sem tryggingarráð tilnefnir, og það þegar við fyrstu uppástungu. Ég álít, að hér sé um að ræða mál, sem eðlilegast væri, að dómstólarnir útkljáðu, ef vafi leikur á, en ekki það þing, sem setti lögin. Ég held, að lagaskýring í þál.formi sé ákaflegu hættuleg braut. — Þetta er nú um málið almennt. Annars get ég ekki stillt mig um að drepa á það, sem fram hefir komið viðvíkjandi formönnum sjúkrasamlaga, og kom allt fram nokkurnveginn á sama tíma. Þar rak sig eitt á annars horn. því að ég ætla, að daginn, sem þáltill. var útbýtt, væri lögð fram í Ed. fyrirspurn frá hv. þm. Vestm. um svipað efni. Þar var spurt, hvernig á því stæði, að ráðh. hefði ekki skipað formenn í sjúkrasamlögunum í Vestmannaeyjum og Siglufirði, þar sem vitað sé, að hann skipaði formann í öðrum kaupstöðum samkv. till. tryggingarráðs, eins og lög standa til. Í þáltill., sem var borin fram í Sþ., segir — og réttilega —, að þá sé ekki búið að skipa formenn sjúkrasamlaganna nema í Reykjavík. En ég ætla, að í Nýja dagbl. sama dag hafi verið birt grein, þar sem fullyrt er, að ráðh. sé búinn að skipa formenn alstaðar nema í sjúkrasamlaginu á Siglufirði og Vestmannaeyjum. (SK: Það er rétt í till.). Merkilegt nok. En þessir samherjar hafa gleymt, að undanteknum hv. flm., að bera saman og kynna sér, hvernig málið er vaxið. Þetta nefni ég aðeins til að benda á, hversu ýtarlega þessi mál eru rannsökuð áður en við þeim er hreyft. Í lögunum, eins og þeim var breytt á síðasta Alþingi, er svo ákveðið, að ráðh. skipi formenn sjúkrasamlaganna eftir till. tryggingarráðs. Ég lít svo á, að ef það er tilætlunin, að ráðh. væri bundinn við að skipa formenn sjúkrasamlaganna eftir fyrstu till. frá tryggingarstjórn, þá væri það í raun og veru það sama og skipunarvaldið væri í höndum tryggingarstjórnar sjálfrar. Það væri þá eðlilegra, að það væri skýrt sagt í lögunum. Þegar það er ekki gert, þá liggur það í augum uppi, að minni hyggju, að ráðh. er ekki bundinn við till., a. m. k. ekki fyrstu till. frá tryggingarráði. Þegar þessar till. voru afgr. frá tryggingarráði, þá var það þann veg skipað, að það voru ekki allir aðalmenn í sæti, heldur einn varamaður. Og mér er ekki grunlaust — ég segi það alveg frómt —, að nokkrar líkur séu til þess, að svo hefði ekki fallið till., ef tryggingarráð hefði verið fullskipað þegar málið var afgr. Eftir að ég hafði fengið bréf tryggingarstjórnar, voru það þrjár till., sem ég gat ekki fallizt á; þær voru um formenn sjúkrasamlaganna á Siglufirði, Vestmannaeyjum og Ísafirði. Og til alls þess lágu góðar og gildar ástæður, að minni hyggju. Um sjúkrasamlögin á Siglufirði og í Vestmannaeyjum er það að segja, að þeirra fjárhagur er þannig, að það er fullkomin þörf á, að til þeirrar forstöðu sé valinn maður með sérstöku tilliti til þeirra mistaka, sem orðið hafa, og að úr þeim verði bætt undir þeirri nýju stjórn samlaganna. Með þeim till., sem fram komu frá tryggingarráði, þótti mér enganveginn tryggt, að þetta yrði gert, og vil ég biðja þá hv. þm., sem draga mál mitt í efa, að leita upplýsinga hjá forstöðu trygginganna um það, hversu fjárhag þessara sjúkrasamlaga var varið og hvorir þessara manna séu líklegri til að fá úr þeim örðugleikum bætt. Um sjúkrasamiagið á Ísafirði er það yfir höfuð að segja, að þar lagði minni hl. tryggingarráðs það til, að sami formaður yrði þar áfram. Ég ætla, að öllum, sem til þekkja, beri saman um, að það hafi verið rækt með prýði. Og ég ætla, að í engu sjúkrasamlagi hafi verið gætt jafngóðra skila og þar, og jafnmiklu áorkað til umbóta. Því fór fjarri, að tryggingarráð væri sammála um till.; ég ætla, að tveir hafi verið í meiri hl., en einn í minni hl. Að þessu athuguðu skrifaði ég tryggingarstj. á ný og skýrði henni frá, að ég gæti ekki fallizt á tilnefningu þeirra á fundinum, og óskaði ég eftir tilnefningu á ný hvað snerti þessa þrjá staði. Svar við þessu var ekki komið þegar afgr. var skipun formanna sjúkrasamlaganna, sem enginn ágreiningur var um milli tryggingarstjórnar og ráðh. Ég ætla, að það hafi verið afgr. 17. þ. m., ef ég man rétt, en ég þori ekki að fullyrða það. En þar sem ekki hafði borizt svar fyrir þann tíma, þá var af ráðuneytinu skipaður formaður sjúkrasamlagsins á Ísafirði, sem hafði þá sérstöðu, að hann hafði rækt það starf af mikilli prýði, og var því sízt ástæða til að ætla, að þar yrðu umbætur á, þó að mannaskipti yrðu. En ég skal játa, að það var meðfram gert til þess að fá úr því skorið, hvort minn skilningur á þessu atriði eða sá skilningur, sem komið hefir fram hjá hv. flm. þessarar till., væri réttur. En það er ekki þingsins að skera úr um þetta í ályktunarformi. Að minni hyggju er það afarhæpin og hættuleg leið að fara út á, að þingið fari að gefa lögskýringar í slíkum efnum sem þessum. Það er dómstóla landsins að skera úr um það, hvort lögin séu brotin eða ekki.