24.03.1938
Sameinað þing: 8. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 264 í D-deild Alþingistíðinda. (3027)

55. mál, sjúkrasamlög

*Jónas Jónsson:

Ég hefði gjarnan getað unnað hv. þm. Seyðf. að hafa dálitið stærra og merkilegra mál heldur en þetta til að tala um, fyrst eftir að hann kemur í þingmannasætin til okkar. En þetta er ekki stórt mál, og verður sennilega ekki tekið á því sem slíku, en þetta er leiðinlegt mál fyrir hann, og á kannske eftir að verða enn leiðinlegra heldur en honum sjálfum er ljóst nú.

Ég get ekki komizt hjá því að fara nokkrum orðum um þetta mál, af því að framkoma þessa fyrrv. ráðh. við mig persónulega í því sambandi hefir verið af fullkominni óvináttu, svo að ég ekki segi meira.

Til þess að rekja gang þessa máls, vil ég byrja á því, að Alþfl. lagði, sem kunnugt er, á það mikla áherzlu að koma sjúkratryggingunum á, og var það samningamál milli Framsfl. og Alþfl., þar sem þetta var hans áhugamál, eins og við höfðum okkar. Nú stóðum við auðvitað við þennan samning, að fylgja málinu fram, þó að við jafnframt bentum fyrrv. atvmrh. á, að eins og þá stóð á, mundi vera hyggilegra fyrir hann sjálfan og hans flokk að fara hægar í þetta heldur en hann vildi, og hafði sú mótstaða okkar nokkur áhrif, m. a. hvað snertir atvinnuleysistryggingarnar, sem hefðu vafalaust orðið til hinnar mestu ógæfu í því ógætilega formi, sem hann lagði til, og hefðu að sjálfsögðu ekki bætt hans stjórnarferil.

Þegar þetta mál var sett á, var Sjálfstfl. því mjög mótfallinn. Skal ég ekki fara langt út í það, því að það er þeirra mál. En ef þessi framkvæmd Alþfl. var svo nauðsynleg, að það þurfti að gera sjálfstæðismenn — sem mynduðu meiri hl. í sumum kaupstöðum landsins og eru alstaðar stór flokkur — sáluhólpna á móti þeirra eigin vilja, eins og stundum er gert, þá er það alveg gefið, að það var skylda Alþfl., ef nokkur vitglóra var í þeim manni, sem fyrir þessu stóð, að taka þetta stóra fyrirtæki í sínar hendur, eða a. m. k. þeirra bandamanna, sem hann hafði þá. Þetta gerðum við framsóknarmenn, þar sem við reyndum að gera okkar andstæðinga sáluhólpna í vissum málum, t. d. í kjötmálinn. Við unnum þeim að hafa fulltrúa í kjötverðlagsnefnd, en ekki meiri hl. Aftur á móti leggur Alþfl. á slíkt áherzlu, af því að allt á að vera svo demokratískt og eftir réttum lýðræðisreglum, rétt eins og þegar kommúnistar eru að tala um þingræði og lýðræði. Þannig fór hv. þm. Seyðf. að þessu. Hann leggur út í þetta afskaplega hitamál á þeim grundvelli, að yfirstjórn þess er í höndum hans eigin flokks, en aftur á móti var lýðræðið þannig, að í kaupstöðunum voru sjúkratryggingarnar lagðar í hendur meiri hl. Þar, sem sjálfstæðismenn voru í meiri hl., tóku þeir þetta í sínar hendur, og hefi ég áður lýst því, að þeim hafi ekki farizt það að öllu leyti hyggilega, en það er mál hv. þm. Seyðf. við þá.

Nú er skemmst af því að segja, að þar, sem Alþfl. réð, datt honum ekki annað í hug en að bola framsóknarmönnum út úr öllu, sem kom þessu máli við. En á Siglufirði og Akureyri virðist hafa orðið samkomulag í bæjarstj. um það, að framsóknarmenn fengju formannssæti á báðum þessum stöðum. Sem sagt, á þessum tveim stöðum fengu framsóknarmenn aðstöðu til að ráða. Annarsstaðar tóku sjálfstæðismenn þetta allt í sínar hendur og alþýðuflokksmenn þar, sem þeir réðu.

En þegar þetta var allt um garð gengið, sá Alþfl., og ekki sízt hv. þm. Seyðf., hversu mjög honum hafði skjöplazt í þessum efnum. Það var m. a. álitið, að í Reykjavík hefðu sjálfstæðismenn upp úr þessu áhugamáli hv. þm. Seyðf. skapað sér hina fínustu kosningaskrifstofu, með þeim ábyggilegustu upplýsingum, sem hægt var að hafa. Og þetta hafði hv. þm. Seyðf. lagt upp í hendur sinna góðu vina, sem geta þakkað honum þau þúsund atkv., sem Alþfl. tapaði við kosningarnar síðustu, því að alþýða manna fékk óbeit á þessari ráðsmennsku hv. þm. Seyðf. og fannst það vafasamur gróði að þurfa, eins og þá áraði, að bæta á sig þessum nýju sköttum, jafnframt því, sem heill hópur af læknum bæjarins fékk 13–20 þús. kr. á ári í beinhörðum peningum frá sjúkrasamlaginu, fyrir utan það, sem þeir hafa fyrir uppskurði o. þ. h. Mér skilst jafnvel, að einn læknir hér í bænum hafi 3o þús. kr. frá þessu ágæta fyrirtæki, sem ekki hefir verið stjórnað betur af þessum tveim prýðilegu flokkum, sem að því hafa staðið, heldur en raun hefir borið vitni um.

Nú í vetur, þegar sjúkrasamlögunum var breytt að ýmsu leyti, þá var það mála sannast, að við framsóknarmenn kröfðumst þess, að stjórnarfyrirkomulagi þeirra yrði breytt. Það var eingöngu fyrir okkar áhrif, að sú skipun var sett á, að í tryggingarráði væru menn af öllum flokkum, því að við álitum, þegar við sáum, hvernig stj. á þessu ætlaði að ganga, að ekki væri verra, að við hefðum hönd í bagga með fyrirtækinu. Í stuttu máli sagt: við vorum hvorki hrifnir af mannvali Sjálfstfl. á skrifstofu samlagsins í Reykjavík né heldur af þeim mörgu ráðstöfunum, sem yfirstjórnin, er var í höndum Alþfl., hafði gert í þessum málum. — Þar að auki höfðum við á ýmsan hátt reynt að koma því lagi á, að í sem flestum fyrirtækjum af svipuðu tægi væru sem mest menn af öllum flokkum, og höfðum við fengið harða krítik fyrir það frá andstæðingum okkar. Ég hefi fengið mjög harða krítik frá alþýðuflokksmönnum fyrir að hafa unnið að því, að sjálfstæðismenn hefðu fulltrúa í stjórn síldarbræðslunnar, og hefi ég átt í útistöðum við hv. þm. Seyðf. um það, þar sem fyrir honum vakti að beita flokksofbeldi og hafa verksmiðjurnar undir sér og sínum mönnum. Svipað getur orðið með landsbankanefndina. Það lítur út fyrir, eins og hún er skipuð nú, að mögulegt sé fyrir okkur framsóknarmenn að hremma þar sæti, sem eftir okkar sjónarmiði á að tilfalla Alþfl. Það sæti í bankaráðinu tók Bændafl. af Alþfl., þegar hann hafði til þess vald hér á árunum. Við gætum tekið það nú, en ef hægt væri að fá viðunandi mann úr Alþfl., þá væri ég hlynntur því, að hann yrði fyrir valinu, af því að ég fyrirlít þá stefnu, sem fram kemur hjá hv. þm. Seyðf., samhliða því sem flokkur hans hefir veikzt og hann sjálfur veikzt í áliti. Ég álít, að við séum ekki svo heilagir í neinum flokki, að ástæða sé fyrir okkur að taka ekkert tillit hver til annars, og að einn flokkur eigi að vera ofan á og annar undir og svo látið kné fylgja kviði. En á þessari skoðun er hv. þm. Seyðf. og hefir framfylgt henni út í yztu æsar, nema þegar hann í ógáti var að búa andstæðingum sínum til fínasta hvílurúm, eins og hann bjó sjálfstæðismönnum með sjúkratryggingunum.

Þannig stendur þá málið nú, að í janúar síðastl., þegar þessi nýju lög komu í gildi, að yfirstjórn trygginganna, sem áður hafði verið í höndum hv. þm. Seyðf. og hans trúustu þegna, kemst í hendur þessarar nýju nefndar. Nú var engum blöðum um það að fletta, eins og komið hefir fram hér í umr., að flokkarnir áttu að ráða mönnum í nefndina. Það var beinlínis gert ráð fyrir því, eins og líka orðalag l. ber með sér, að ráðh. átti engu um þetta að ráða. Það var sem sagt ekkert fyrir ráðh. að gera annað en að skipa þá menn, sem tryggingarráð mælti með. En í viðbót við þetta er til dómur, sem þessi hv. þm. þekkir kannske ekki, dómur, sem gekk milli hæstv. forsrh. og Jóns heitins Þorlákssonar borgarstjóra. Þeir mætu menn höfðu ekki getað komið sér saman um, hver ætti að skipa lögregluþjóna í Reykjavík. Í l. stóð — alveg hliðstætt því, sem er um formenn sjúkrasamlaga —, að þá ætti að skipa eftir tillögu lögreglustjóra. Jón heitinn Þorláksson leit þannig á, að hann þyrfti ekki að fylgja þessu, og réð nokkra menn ofan í ákvörðun laganna. Út af þessu risu málaferli, og tapaði borgarstjórinn fyrir undirrétti, en að hann ekki áfrýjaði til hæstaréttar, var ekki vegna þess, að hann væri ekki nægilega mikill kappsmaður til þess að halda málinu til streitu, heldur vegna þess, að hann var skynsamari heldur en hv. þm. Seyðf., sem hefði getað haft þetta dæmi fyrir sér. Það er því engum blöðum um það að fletta, eftir orðanna hljóðan og þeim dómi, sem um þetta hefir gengið, að hv. þm. Seyðf. hefir framið augljóst og visvítandi lögbrot, í viðbót við annað verra, sem sé framkomu hans við samstarfsmenn sína í þessu máli. Þannig stóð á í vetur, að hv. 2. þm. Rang., sem er aðalfulltrúi framsóknarmanna í þessari nefnd, gat ekki af vissum ástæðum — vegna snjóalaga og erfiðleika á að hafa lækni fyrir sig — mætt fyrr en er til þings kom. Mætti ég þá fyrir hann sem varafulltrúi. Tek ég þetta fram til þess að sýna, hve óendanlegur barnaskapur kemur fram hjá hv. þm. Seyðf., þegar hann heldur, að það, sem varafulltrúi gerir í slíkum nefndum hafi ekki alveg sama gildi og það, sem aðalfulltrúi gerir. Og vil ég í því sambandi benda hv. þm. á, að hér á Alþ. er nú alltaf varafulltrúi borgarstjórans í Reykjavík, og vænti ég„ að enginn, nema þá hv. þm. Seyðf., sé svo lítt greindur og menntunarsnauður, að honum detti í hug, að hægt sé að rífa upp lög, sem Alþ. samþ. með atkv. þessa varamanns, og ónýta þau með þeim forsendum, að það hafi verið borgarstjórinn sjálfur, sem átti að greiða atkv., enda þótt hann sé kannske úti í Amsterdam, En þennan hluta af lögspeki hv. þm. Seyðf. ætla ég að láta liggja milli hluta, og kem þá að því, sem ég vildi nefna manndómspartinn eða réttara sagt mannleysispartinn í frammistöðu hv. þm. Seyðf. Og hann er sá, að hann og hans félagar berja málið fram af alveg ótilhlýðilegu þroskaleysi á þeim tíma, sem þeim sjálfum var afaróhagstæður, og í öðru lagi afhenda þeir það í hendur manna, sem fyrirfram voru á móti málinu, og sem þannig hefir farizt stjórn þess, að nauðsynlegt var að gera á því breyt. En þá aðstöðu, að hafa þarna einhver áhrif, gat Alþfl. aðeins fengið á tvennan hátt, og í bæði skiptin með aðstoð Framsfl. og með minni persónulegri aðstoð. Þess vegna er frammistaða hv. þm. Seyðf. gagnvart mér því minna honum til sóma sem ég hafði þarna með góðri samvizku — og sé ekkert eftir því — skorið hann niður úr hengingarólinni í því máli, sem hann var margsinnis búinn að forklúðra fyrir sér og sínum flokki. Þannig var mál með vexti, að á fyrsta bæjarstjórnarfundinum, sem ég mætti þar sem fulltrúi, var veik von til þess, að Alþfl. gæti fengið 2 menn úr sínum flokki í sjúkratryggingarnar, sem sé ef hann stillti þannig upp, að ég gæti kastað atkv. á þá. Ég tilkynnti Stef. Jóh. Stefánssyni, að ég myndi kasta atkv. mínu á lista, sem hann bæri fram, ef þar væru alþýðuflokksmenn, en skila auðu, ef annar maðurinn væri kommúnisti. Nú fór það þannig, að þessir tveir menn, sem Alþfl. stillti upp, fengu atkv. allra andstæðinga Sjálfstfl., sem þar áttu sæti, og síðar með hlutkesti vann neðri maður Alþfl. á móti þriðja manni Sjálfstfl., og á þann hátt hafði Alþfl. fengið tvo fulltrúa á móti tveimur frá Sjálfstfl. Og eins og ég tók fram við Stefán Jóh. á þessum sama fundi, þá fannst mér alveg sjálfsagt og var fús til — án allrar verzlunar — að kjósa fulltrúa Alþfl., af þeim ástæðum, að það var sá flokkur, sem hafði borið þetta mál fram og barizt fyrir því réttilega eða ranglega. Og þess vegna hjálpaði ég Alþfl. til þess að fá meiri hl. í alþýðutryggingarnar, sem Alþfl. fyrir andlegan vanmátt og þroskaleysi hafði afhent sínum andstæðingum hálfu öðru ári áður. Það er því persónulega mér að þakka, að Alþfl. getur reist höfuðið frá koddanum í þessu höfuðmáli sínu. Svo um viku seinna er fundur í tryggingarráðinu. Þá datt engum okkar þriggja, sem þar áttum að ráða fram úr, Stefáni Jóh. Stefánssyni, Jakobi Möller eða mér, og að sjálfsögðu alls ekki lögfræðingnum, sem þar átti sæti, í hug það, sem fyrrv. ráðh. hefir haldið fram í þessu, að sú ákvörðun, sem þar væri gerð, væri ekki alveg jafnfyllilega gild eins og þó aðalmenn allir hefðu verið mættir á fundinum.

Ég talaði við þessa menn báða, sem ég nefndi, og lýsti yfir, að ég mundi greiða atkv. þannig, að Alþfl. hefði helming af þessum 8 fulltrúum, en hinir flokkarnir skipuðu í sín 2 sæti hvor. Framsfl. og Sjálfstfl. Þetta er byggt á réttlætisgrundvelli, sem allt of mikið hefir verið barizt á móti af Alþfl., ef ætti að dæma hann eftir hv. fyrrv. atvmrh., því að með þeirri frammistöðu, sem hv. fyrrv. ráðh. hefir haft í þessu máli, er réttara að kjósa í öllum kringumstæðum á móti fyrrv. ráðh. En ég vil ekki byrja á ranglætinu, láta heldur aðra gera það. Því vildi ég fara að í þessu eins og mér virtist rétt, heldur en að reka þann mann, sem þarna átti hlut að máli, sem er vandaður maður. Án þess það hefði áhrif á atkvgr. mína, spurði ég Stefán Jóh. Stefánsson, hvort hann fyrir sitt leyti vildi ekki unna Framsfl. þess að hafa þau 2 sæti. sem hann hafði áður haft. Kvað hann nei við því. Ekki nema annan manninn. Ég álít, að það sé gott, að það standi í Þingtíðindunum sem full sönnun fyrir því, hvað mikið Alþfl. vantar yfirleitt í það að kunna að hegða sér í svona málum, að jafnvel núv. form. hans hefir ekki meiri skilning á því, hvernig á að búa að þeim, sem þeir vinna með, heldur en kom fram í þessu. Því að fulltrúi Alþfl. er ekki réttlátari en það í þessu máli, að hann ætlar að útiloka framsóknarmenn frá því að kjósa mann í það sæti, sem hann hafði fengið áður mann kosinn í, bæði af sínum eigin flokksmönnum og sjálfstæðismönnum. Þó að Stefán Jóh. Stefánsson hefði viljað kjósa með mér, en ekki viljað byrja á þeirri ofbeldisstefnu gagnvart Framsfl., sem alþýðuflokksmenn sýndu í þessu máli, og látið atkv. sitt falla á báða framsóknarmennina, þá hefði ég engu síður greitt atkv. eins og ég gerði, af því að ég áleit, að það ætti alls ekki að byrja þar á sama hátt og sjálfstæðismenn gerðu í Reykjavík, þar sem þeir útilokuðu Alþfl. og ekki aðeins Framsfl. frá ráðum í tryggingunum. Það álít ég, að eigi að vera stefna framsóknarmanna að reyna að stilla svo í hóf, að það sé ekki brúkað til hins ýtrasta ofbeldi í skiptum milli flokkanna á hverjum stað og tíma. Ég verð að segja, að í því máli, sem varð til þess að hv. þm. Seyðf. var dreginn út úr stj., eins og hann sjálfur komst að orði, þar hafði Framsfl. þessi áhrif móti ósveigjanlegum múrvegg hinna flokkanna. Þar tókst honum að fá þá réttingu mála, að það er hafin vinna á þessum skipum, sem sú deila snerti, sem annars hefðu fengið að liggja hér í höfn, eins og áður en það mál var til lykta leitt.

Þá kem ég að því, hvers vegna mér fannst eðlilegt, að sjálfstæðismaður væri skipaður formaður sjúkrasamlagsins á Ísafirði. Mér voru persónulega ókunnugir báðir þessir menn, sem þar komu til greina. Ég treysti þessum mönnum jafnvel, Stefáni Jóh. Stefánssyni og Jakobi Möller, að þeir mundu ekki mæla með nema hæfum mönnum. En það er sérstök ástæða, sem ég hefi til þess að álita, að Alþfl. ætti einmitt að tapa fyrst sæti á Ísafirði, ef hann tapar einhverju sæti. Þar sem gengið var á móti meiri hl. í Reykjavík í þessum sökum, álít ég, að á Ísafirði, þar sem Sjálfstfl. er í minni hl., mætti hann mjög gjarnan fá meiri hl. þar í þessari nefnd.

Svo var gengið alveg rétt og löglega frá þessu. Þarna á þessum 2 fundum var búið að gera algerlega glögga grein fyrir málinu, nema að því er snertir Norðfjörð. Þaðan höfðu ekki komið nein skilríki. En ég áleit, að Alþfl. ætti að hafa formann þar. Þá var hann búinn að fá 4 formannssæti af 8. Úr því að Alþfl. hafði afhent að miklu leyti tryggingar þessar í hendur andstöðufl. með löggjöf árið áður, þá var undarlegt, að ekki mátti þola það, að Sjálfstfl og Framsfl. fengju neinn formann kosinn í þessar nefndir. Og eftir því sem má búast við, að Alþfl. hafi á bak við sig af landsfólkinu, hygg ég að það, sem ég gaf honum sem gömlum og góðum félaga, hafi verið fullt svo rausnarlegt og þetta.

Svo frétti ég eina smekkleysu úr herbúðum hv. þm. Seyðf., sem kom mér til að brosa góðlátlega og skilja fyrirfram, að það gæti ekki verið mjög langur tími, sem þessi sami hv. þm. ætti eftir að sitja í ráðherrastóli. Það var það, að þessum fyrrv. ráðh. datt í hug sú fjarstæða að senda þessi plögg aftur til tryggingarráðs, þegar Helgi Jónasson væri kominn, til þess að láta hann ómerkja kosningu mína þar. Ég veit ekki, hvernig á að lýsa þessu atferli eða þessum skoðunarhætti, sem kom þarna fram hjá hv. þm. Seyðf., fyrst og fremst heimskunni, að láta sér eiginlega detta í hug, að þetta væri yfir höfuð ráð. Í öðru lagi ódrengskapnum gagnvart mér, sem yfirleitt var búinn að bjarga honum, eftir því sem hægt var, úr þeirri klípu, sem hann var búinn að setja sig í hér í Reykjavík með sínu atferli. Í þriðja lagi andstyggðinni, sem kom fram í þessu gagnvart Framsfl., að gera ráð fyrir því yfirleitt, að þingmenn Framsfl. væru þannig, að þeir sætu á svikráðum hver við annan og gerðu hver annan ómerkan fyrir andstæðinga sína og öfundarmenn.

Nú hafði hv. þm. Seyðf. ekkert upp úr þessu. Tryggingarráðið vildi ekki taka þátt í þessum pörum hans. Hann beið svo með þetta; m. a. lágu þessi plögg hjá honum æðilengi. Hann hafðist ekkert að, svo að það varð til stóróþæginda fyrir sjúkrasamlögin úti um landið. Svo þegar það var ekki engill lífsins, heldur engill dauðans, sem kom til hans í hvíta húsið við Lækjartorg, tók hann sig til og skrifaði undir sum af þessum plöggum.

Ég gat nú ekki fylgzt með ýmsu í ræðu hv. þm. Seyðf., enda skiptir það ekki máli. Það stendur fast, að þetta voru lögbrot, sem hv. fyrrv. atvmrh. framdi með þessu. En ég álít, að það sé mjög heppilegt, að þetta mál kom hér til umr. nú, vegna þess að það var óhjákvæmilegt, að hv. þm. Seyðf. fengi dóm sinn í þessu máli. Hann er nú að biðja um, að þetta verði ónýtt með dómi. Og hann á ekki eingöngu að fá dóm Alþ. og dómstólanna, heldur á hann einnig að fá þyngri dóm, dóm sögunnar, að það síðasta, sem hann gerði í atvmrh.-stóli, var í fyrsta lagi lögbrot og síðan bæði heimskulegt og ódrengilegt.