03.05.1938
Neðri deild: 60. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 369 í B-deild Alþingistíðinda. (305)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Frsm. (Sveinbjörn Högnason):

Ég viðurkenni, að það stendur ekki í frv., að sjómenn eða verkamenn þurfi að stofna samvinnufélög um útgerð til þess að fá þennan styrk. En mér skilst, að það muni verða erfitt fyrir einstaklinga, sem ekki hafa yfir fé að ráða, að mynda með sér félög um útgerð á annan hátt en með samvinnuformi. Og það er gert ráð fyrir því í frv. þessu, að sjómenn og verkamenn sjálfir geri samtökin til þess að verða þessa styrks aðnjótandi. Þess vegna sé ég ekki, hvaða leið þeir geta aðra farið en samvinnuleiðina. Það getur verið, að þetta sé ekki rétt álitið hjá mér, og að það séu til aðrar leiðir fyrir þá. Og ef til eru aðrar heppilegri leiðir, þá hefi ég vitanlega ekkert á móti því, að þær verði farnar.

En þeim hugleiðingum hv. Í. landsk. hinsvegar um það, að óheppilegasta fyrirkomulagið í þessu tilliti sé samvinnufélagsskapurinn, er því að svara, að hér á landi er engin reynsla tengin um það viðvíkjandi sjávarútgerð. Og að útgerð sé fjárfrek, þá er hún það því aðeins. að árferði sé erfitt. En ef útgerðarfélög sjómanna og verkamanna hefðu verið byrjuð að starfa hér á landi fyrir árið 1920 á samvinnugrundvelli, þá mundu þau nú standa jafnföstum fótum og samvinnufélög verzlunarmanna gera nú. En að hin síðarnefndu standa nú föstum fótum, er af því að þau hafa fengið sæmileg ár á meðan þau voru að vaxa upp, og þar af leiðandi hafa þau getað staðið storminn af sér betur, þegar lakar hefir árað. Það er því alveg skakkt að miða ályktanir um samvinnuútgerð eingöngu við þá erfiðu tíma, sem ganga yfir sjávarútveginn nú, og segja, að ekki sé hægt að reka atvinnu með öðru móti en því, að hafa fjársterkari aðilja á bak við. Þeir, sem eiga að fá að hafa fjársterkari aðilja á bak við útgerðarfélögin nú, eru orðnir svo, að þeir eiga ekki neitt til. Hvaða meiri trygging fylgir því að lána h/f Kveldúlfi nú heldur en bara skipshöfn á skipi? Ég sé ekki, að neitt meiri trygging fylgi því. Það er aðeins lánsfé, sem er eign þjóðarinnar, sem útgerðarfyrirtækin eru rekin með. Ég skil ekki, að vilji þjóðarinnar yrði nokkuð mínni á því að lána fé til útgerðarinnar, þó að það væru verkamenn og sjómenn sjálfir, sem stæðu á bak við úfgerðina og bæru ábyrgð á henni; heldur álít ég þvert á móti, að það væri öruggara fyrir þjóðfélagið að leggja fram lánsféð með því móti heldur en eins og nú er, því að togaraútgerðin hér á landi er nú orðin svo fjárvana, að hún lifir eingöngu á því fé, sem þjóðin lánar henni. Ég er alveg sannfærður um, að það eru engir meiri erfiðleikar í sambandi við samvinnufélagsskap um útgerð heldur en í sambandi við samvinnufélagsskap um verzlun. Það var fyrir aldamótin síðustu talið af mörgum alveg óhugsanlegt fyrir fátæka bændur að leggja út í verzlun með samvinnufélagsskap, sem þeir þó gerðu. Það er satt, að byrjunarerfiðieikarnir voru miklir. En fyrir atorku manna og þrautseigju, sem að þeim félagsskap hafa staðið, ásamt því, að árferði hefir oft verið sæmilegt, er það nú svo að samvinnufélagsskapurinn stendur nú fastari fótum en nokkur önnur verzlunaraðferð hér á landi. — Það þarf að finna bezta grundvöllinn undir rekstur atvinnuveganna, og þá verður á eftir auðveldara að sigrast á erfiðleikunum.

Það sem hv. 2. þm. Reykv. var að tala um, að ríkið gengi lengra í þjóðnýtingu en Reykjavíkurbær, skal ég ekki um deila. Má vel vera, að svo sé. En það hefir yfirleitt af öllum flokkum verið talið nauðsynlegt að þjóðnýta sumt. Ég sé ekki mikinn mun á að láta bæjarfélag reka útgerð og hinu, að láta bæjarfélag reka stórt bú til þess að framleiða mjólk fyrir bæjarbúa, eins og Jón heitinn Þorláksson vildi á sínum tíma láta Reykjavíkurbæ gera. Hann vildi láta Reykjavíkurbæ framleiða alla þá mjólk, sem bæjarbúar þyrftu á að halda. Ég sé ekki annað en að það sé svipuð tegund af þjóðnýtingu og bæjarútgerð. Ég sé engan eðlismun þar á. Það er sannast um þetta að segja, að allir flokkar hafa meir og mínna hallazt að því, að í vissum kringumstæðum sé það líklegust leið og hentugust til úrlausnar málum, að láta þjóðfélagið eða bæjarfélag taka að sér vissar tegundir atvinnurekstrar. Enginn flokkur er frí af því, hvorki þeir, sem kenna sig við einstaklingsframtak, samvinnu eða aðrar stefnur í atvinnnmálum.

Hv. 9. landsk. talaði hér alllangt mál og taldi það óráð mikið að fara þá leið um lagningu Suðurlandsbrautarinnar, gegn áliti vegamálastjóra, sem valin hefir verið, yfir Reykjanesið. En ég hygg, að Alþ. vildi aldrei hafa þá menn í trúnaðarstöðum, sem ættu að vera einráðir um ýms efni sem þetta, heldur vill Alþ. hafa sinn ákvörðunarrétt um það, hvað heppilegt sé að gera. Enda hygg ég að undir ýmsum kringumstæðum hafi þm. betri aðstöðu til að dæma heldur en ýmsir, sem eru forstjórar í þann og þann svipinn. Um það, að ein leið eigi að vera milli suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur, hygg ég svo fjarri lagi sem hugsazt getur. Sumarleiðin er vitanlega stytzta leiðin, og þá sjálfsagt að halda við þeirri leið, sem nú er. En reynslan er búin að sýna, að ógerningur er að halda henni öruggri; t. d. hefir verið gerð tilraun með að leggja veginn um hæstu staði á heiðinni, sem alltaf voru taldir snjóléttir. En í vetur var þessi afleggjari gersamlega ófær um tíma, vegna þess, að hún er svo hátt yfir sjávarmál. Það verður að vinna að því að gerðar verði 3 leiðir milli Suðurlandsundirlendisins og Reykjavíkur, er komi innan fárra ára: Sogsleiðin, innan við Þingvallavatn, og Krísuvíkurleiðin og Hellisheiðarleiðin. Ef leiðirnar eru þrjár, skapar það miklu meira öryggi heldur en hægt væri að tryggja með einni leið, hversu vel sem hún væri gerð. Enda er satt að segja þörf á öllum þessum leiðum, ekki aðeins fyrir Suðurlandsundirlendið, heldur og sveitirnar með sjónum og Ölfusið, og Þingvallasveitin og Grafningurinn þurfa engu að síður sín sambönd en aðrir. Og því þarf að velja leiðina sem undirstöðu undir öruggar samgöngur milli þessara landshluta. — Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta að þessu sinni, og sérstaklega þar sem hv. 9. landsk. er ekki viðstaddur til að taka við andsvari gegn því, sem hann hélt hér fram.