11.05.1938
Efri deild: 75. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 292 í D-deild Alþingistíðinda. (3086)

114. mál, síldarverksmiðja á Raufarhöfn

*Fyrirspyrjandi (Jóhann Jósefsson):

Ég get þakkað hæstv. atvmrh. fyrir upplýsingarnar, sem sannast að segja voru mér engin nýjung, því allt það, er hann tók fram, var ég búinn að fá að vita áður hjá hæstv. fyrrv. atvmrh. En ég vildi benda hv. þm. á, að stjórn síldarverksmiðja ríkisins hefir lagt ríka áherzlu á það í erindi því, er hún sendi hv. fjvn. Alþ., að það mundi greiða fyrir öllum framkvæmdum á byggingu verksmiðjunnar, að reynt yrði að koma af dýpkun hafnarinnar áður en farið yrði að byggja sjálfa verksmiðjuna. Ég vil ekki vera að lesa upp þetta erindi, sem legið hefir fyrir fjvn., en ég vil beina þessu til hæstv. ráðh.: Ég veit, að það er hægt fyrir ríkisstj. að komast að hagkvæmum samningum um, að þessi dýpkun sé unnin í sumar, og allar skynsamlegar ástæður mæla með því, að það sé unnið sem fyrst, en sé það dregið, gæti það orðið til þess, að það lenti í höndum útlendinga, ef hæstvirt ríkisstjórn vill ekki neitt gera til þess að notfæra sér dýpkunarskip Vestmannaeyja í Sumar.

Ég skal að lokum bæta því við, að ég tel það mikilsvert, að bygging þessarar verksmiðju dragist ekki fram yfir þann tíma, sem síðasta Alþ. taldi hæfilegan til að koma verkinu í framkvæmd, ekki fram yfir 1939. Það, sem ég hefi viljað benda hæstv. ráðh. á. er það, að byrjunarframkvæmdir eru allar í hendi hans, og það stendur í hans valdi að koma þeim af stað, t. d. með dýpkuninni, ef hann telur þess þörf. Hann ræður einnig, hvernig framkvæmdunum verður hagað og með hvaða tækjum þær gerast.