11.05.1938
Efri deild: 73. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 373 í B-deild Alþingistíðinda. (313)

3. mál, bráðabirgðatekjuöflun ríkissjóðs og jöfnunarsjóðs bæjar- og sveitarfélaga

*Magnús Jónsson:

Hv. frsm. n. hefir leiðrétt þann misskilning, sem brtt. á þskj. 553 kann að hafa gefið tilefni til, sem sé að n. stæði öll bak við þessa till., sem flutt er í hennar nafni. Ég lýsti því strax yfir á fundinum, að ég væri þessu ekki sammála hvað viðvikur 3. till., og skal ég ekki tala meira um það, þar sem hv. frsm. hefir þegar skýrt frá þessum ágreiningi.

Um fyrstu till. er ég sömu skoðunar og n. að því leyti, að ég er því andvígur, að farið sé inn á þá braut að skipta benzínfénu í marga staði, svo að sami reipdráttur byrji um það og um vegafé í fjárl. Ef setja á um það reglur hér, tel ég mjög heilbrigt að haga því eins og í frv. er gert, að veita það til ákveðinna vega, eða þá að það renni allt inn í ríkissjóð og verði svo veitt þaðan aftur. En til þess að fá um þetta heillegri till., hefi ég borið fram till. um, að þessu fé verði varið til tveggja aðaltengibrauta landsins, fyrst og fremst vegarins á milli Reykjavíkur og Akureyrar og svo til Suðurlandsbrautar, sem tengir Reykjavík við meginhluta Suðurlands austanfjalls. Í samræmi við þetta hefi ég borið fram brtt., sem ekki er alveg samhljóða brtt., sem borin var upp í hv. Nd.

Ég vil benda á, að eins og frv. hefir verið prentað upp og er nú komið til okkar, hefir það verið leiðrétt, sem ég veit ekki um heimild til. Eins og hv. frsm. gat um, var till. óskapnaður eins og hún var afgr. frá Nd., en nú sé ég, að búið er að koma henni í sómasamlegt form. Það er búið að fella niður þau orð, sem stóðu eins og óskiljanlegt rúnaletur. Eins og frv. er nú komið til okkar, skal verja þessum 5000 kr., sem framyfir eru, til brautarinnar milli Norður- og Suðurlands, og ég hefi haldið þeirri meginreglu, að þetta fé skuli ganga til þessarar tengibrautar, en ég vissi ekki, þegar ég samdi till. mína, að frv. yrði breytt frá því, sem það var samþ. í hv. d. Það er tekið skýrt fram í þessari till., bæði eins og hún var borin fram í hv. Nd. og eins og ég ber hana nú fram hér, að fénu skal varið til tengibrautar milli Norður- og Suðurlands, og finnst e. t. v. mörgum þar einkennilega til orða tekið í till. minni, en það er aðeins til að slá því föstu, að þessi kafli er hluti af brautinni til Akureyrar. Ég bar fram till. um að hækka allverulega tillagið til Vatnsskarðs, en ég get einnig fallizt á, að hér sé þröskuldur, sem ástæða sé til, að nema burt, að svo miklu leyti sem hægt er. Vegurinn yfir Dragháls hefir verið ófær lengi frameftir í vor, en ef á að reyna að halda leiðinni til Norðurlandsins sem lengst opinni, þá er nauðsynlegt að breyta þessum vegi, því hann getur legið með sjó fram, þar sem hann verður eins lengi fær og nokkur vegur í byggð. Það er augljóst, að framtíðarvegurinn til Norðurlands verður að liggja þar um, hvort heldur farið verður á landi alla leið til Reykjavíkur, sem að vísu tekur nokkru lengri tíma, eða að vegurinn endar í Borgarnesi, eða á Akranesi. Ég skal ekki fara að blanda mér inn í það, hvort hann eigi að enda í Borgarnesi, Akranesi eða Reykjavík, en ég veit, að menn vilja hafa sem stytzta sjóleið, og það munar miklu, hvort endastöðin er í Borgarnesi eða á Akranesi. Með hraðskreiðum bát er ekki nema 3/4 stundar ferð til Akraness, og það er leið, sem alltaf má fara án tillits til sjávarfalla, en leiðin til Borgarness er mun lengri og ýmsum ókostum búin, eins og allir vita. Ég hefði getað fallizt á það fyrir mitt leyti, ef brúa á verstu torfærurnar á leiðinni norður, að leggja í að gera þennan veg kringum Dragháls sem fljótast, eða að fullgera það, sem þegar hefir verið lagt af honum.

Hv. frsm. sagði, að ekki væri nema gott um þetta að segja, og ég vænti, að hann sé ekki á móti því, sem hann álítur gott málefni, og geti því fallizt á að veita nokkrum hluta fjárins til þessa vegar.

Hv. frsm. sagði, að ef ætti að taka upp þennan veg, ætti að taka hann upp við hliðina á öðrum vegum. Þar er ég á öðru máli. Með þá vegi, sem teknir eru upp undir tölul. þskj., er gengið út frá, að benzínféð meira en nægi til þeirra og afgangnum svo ráðstafað. Sá er munurinn, að afganginum er aðeins ráðstafað til Suðurlandsbrautarinnar, í stað þess að hinum vegunum eru ætlaðar ákveðnar upphæðir, en þetta hefir engin áhrif á það, sem í fjárl. stendur um þetta, ekki heldur þessi 5 þús. Verði t. d. ekki nema 2000 kr. afgangur, þá kemur það ekki fjárl. við, þótt þeim sé ráðstafað eftir minni till., svo óhætt er fyrir hv. þm.samþ. hana upp á það, að hún rekst ekki á fjárl.

Án þess að ég ætli að fara að gera þetta að nokkru kappsmáli, vil ég mæla með, að till. mín verði samþ. og þar með samþ. að verja þessu fé til aðaltengibrauta landsins, en ég er á móti því, að mgr. verði látin standa óbreytt, eða að brtt. n. verði samþ.