16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 382 í B-deild Alþingistíðinda. (326)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Ég er sammála hæstv. forsrh. um það, að eins og sakir standa nú, verður að telja, að það sé vonlaust um að ná árangri með áframhaldandi sáttatilraunum, að því er snertir kjör sjómanna á saltfisksveiðum, og tel, að ekki verði hjá því komizt, að Alþingi láti málið til sín taka og reyni að finna þannig lausn á því, að tryggt sé, að skipin fari út á veiðar.

Ég er hæstv. forsrh. sammála um það, að hér er um meiri voða að ræða en svo, að Alþingi geti látið það afskiptalaust, að togararnir stöðvist mikinn hluta saltfisksvertíðarinnar eða kannske allan tímann. Um þetta er enginn ágreiningur milli mín og hæstv. forsrh. Hitt er aftur á móti ágreiningur um á milli mín og hans, á hvern hátt sé eðlilegast og heppilegast, að þingið geri tilraun til þess að leysa þetta mál. Alþfl. telur, að sú leið, sem upp á er stungið í frv. hæstv. forsrh., sé ótæk með öllu, eins og ástatt er. Alþfl. er yfirleitt mótfallinn lögskipuðum gerðardómi, sem ákvæði kaup og kjör og slíkan hagsmunaágreining aðiljanna. Verkalýðsfélagsskapurinn treystir yfirleitt ekki þeirri hlutlausu aðstöðu, sem á að ráða í dóminum, eins og þjóðfélagsmálum er nú háttað í flestum tilfellum. Það skal játað, að þetta er nokkuð breytilegt sumsstaðar, eftir því hvernig áhrif og valdaaðstaða verklýðsflokkanna er í ýmsum löndum. En yfirleitt er enginn ágreiningur um það innan Alþfl., að eðlilegast og heppilegast sé að aðiljarnir sjálfir ráði málunum til lykta, og því aðeins beri að skerast í leikinn, að fullkomlega brýn og óhjákvæmileg þjóðarnauðsyn krefjist að það sé gert. Ég tel, eins og ég sagði áðan, að svo sé ástatt hjá okkur nú, að ekki sé unnt fyrir þingið að láta málið afskiptalaust lengur, og er ég sammála hæstv. forsrh. um það. En hvernig skuli á þessu tekið, eru skiptar skoðanir um.

Áður en ég vík að því, hvaða leið ég álít heppilegasta, skal ég minnast á nokkur atriði í ræðu hæstv. forsrh. Hæstv. forsrh. sagði, að nú alveg nýlega hefði verið lögboðinn gerðardómur slíkur sem þessi í Noregi, að tilhlutun stj. þar, og þetta frv. væri sniðið eftir þessari norsku löggjöf. Þetta er ekki rétt hjá hæstv. forsrh., að því er snertir frv, það, sem hér liggur fyrir, og lögin norsku. Í þessu frv. er gert ráð fyrir því, að hæstiréttur skipi 3 menn af 5 í dóminn og hafi þannig oddaaðstöðuna, og ekki einungis það, heldur líka meiri hl. Í Noregi er þetta þannig, að forsrh. eða ríkisstj. skipa 3 menn, eða meiri hl. dómsins. Nú er svo ástatt í Noregi, að verkalýðsstj. fer þar með völd. Forsrh., sem skipar dóminn, er úr flokki verkamanna, og því er eðlilegt, án þess að ég vilji nokkurt styggðaryrði mæla til hæstv. forsrh., að meira traust sé borið af hálfu verkalýðsins til þessa dóms en hér myndi verða til hæstaréttar. — Þá drap hæstv. forsrh. einnig á, að það hefði verið lögboðin gerð í Danmörku árið 1933, þegar stórdeilan var á milli atvinnurekenda og verkamanna. Hafi þetta verið misskilningur hjá mér, bið ég hæstv. forsrh. afsökunar. En þetta er ekki rétt. Árið 1933 var stór deila uppi í Danmörku. Atvinnurekendur kröfðust launalækkunar allt að 20%, en verkamenn vildu halda samningana, sem þá giltu, óbreytta. Þessi deila var leyst með gerðardómi, en á þann hátt, að það var lögboðin framlenging á þeim samningum, sem áður giltu.

Ef til þess er gripið að setja gerðardóm eða ákveða á annan hátt með l. um lausn slíkrar deilu og þessarar, þá er það tvennt að minni hyggju, sem fyrst og fremst verður að gæta: Annað, að fara hvergi feti framar í þessum efnum en hin brýnasta og mest aðkallandi nauðsyn heimtar, og að grípa á engan hátt fram fyrir hendur aðiljanna sjálfra eða draga úr samkomulagi. Ég viðurkenni, að þetta mál er orðið svo aðkallandi, að því er saltfisksveiðarnar snertir, að þingið getur ekki látið það afskiptalaust. En ég mótmæli, að þetta eigi við, að því er snertir aðra veiði ársins. Síldveiðarnar hefjast ekki fyrr en í júní og ísfisksveiðarnar síðar á árinu. Hvað liggur á því nú í marzmánuði að fara að lögskipa gerðardóm til þess innan tveggja daga eða svo að ákveða kaup á síldveiðum í sumar og ísfisksveiðum í haust? Er ekki sjálfsagt og eðlilegt að láta aðiljana nota þennan tíma til þess að reyna að komast að samkomulagi og grípa ekki til þessa, fyrr en fullreynt er, að aðrar leiðir eru ekki færar? Ég álit, að hér sé gengið lengra en verjandi er. Það er aðkallandi nauðsyn að gera þessar ráðstafanir, að því er snertir saltfiskinn, en ekki í augnablikinu að því er snertir aðra veiði togaranna.

Önnur krafa, sem verður einnig að gera til þess, að slíkar aðgerðir sem þessi geti verið réttmætar, er það, að sterkar líkur séu til þess, að þær nái tilætluðum árangri og verði raunveruleg lausn, í þessu tilfelli að togararnir fari á veiðar. Ég vildi spyrja hæstv. forsrh. að því, hvort hann hefir sterkar líkur fyrir, að svo myndi verða, ef þetta frv. yrði að l., og hvaða ástæður hann hefir til þess, að byggja sér slíkar líkur? Það, sem fyrir liggur í þessu máli, styður ekki að því, að svo myndi verða. Það, sem fyrir liggur, er, að útgerðarmenn sögðu um till. sáttasemjara, að þeir samþ. hana að vísu, en því aðeins þó, að Alþingi og bæjarstj. verði við þeim kröfum, sem þeir gera um fjárstuðning frá þessum aðiljum. Hér er algerlega gengið á snið við ákvæði l. um það, hvernig eigi að greiða atkv. um till. sáttasemjara, til þess að koma fram þessari kröfu. Deilan verður ekki leyst, því að eftir er að kljást við Alþingi og bæjarstj. um það, hvaða stuðning útgerðin fái. Telur hæstv. forsrh. að með því að samþ. þetta frv. sé þetta atriði leyst?

Við skulum líta á hinn aðiljann. Till. sáttasemjara hafa verið felldar. Eg ætla, að 45% hafi samþ. þær, en 55% verið á móti. Allar líkur eru til þess, að niðurstaða gerðardóms yrði ekki fjarri till. sáttasemjara. Telur hæstv. forsrh. líklegt, að sjómenn vilji una slíkum dómi, þar sem í viðbót við óánægjuna með kaupið og kjörin hlýtur að bætast óánægja með þá skipun mála, að það sé ákveðið af lögákveðnum gerðardómi, hvað kaupið skuli vera. Sjómennirnir óttast, að með því að viðurkenna gerðardóminn, gefi þeir höggstað á sér og að það verði lagt þannig út, að þeir fallist á, að mál séu leyst á þennan veg. Þeir óttast, að þessi lelð verði notuð síðar, þegar verulega skerst í odda milli sjómanna og útgerðarmanna.

Ég verð því að telja, að enn sem komið er, a. m. k. hafi hæstv. forsrh ekki fært fram nægar líkur fyrir því, að með því að samþ. þetta frv. yrði tryggð skjót lausn málsins, og enn síður fært rök fyrir því, að nokkur aðkallandi nauðsyn sé fyrir hendi, að því er snertir síldveiði og ísfisksveiði síðar á árinu.

Þetta eru þær meginástæður, sem valda því, að Alþfl. getur ekki fallizt á þetta frv., en hann viðurkennir, að það er ómögulegt fyrir þingið að láta málið afskiptalaust.

Alþfl. hefir á þskj. 96 bent á sína lausn í málinu, og það frv. tryggir skjóta lausn. Um leið og það er orðið að l., er málið að fullu leyst og kaupið ákveðið. En verði hinsvegar frv. hæstv. forsrh. samþ., tekur það a. m. k. nokkra daga fyrir dóminn að ákveða kaupið. Og þetta ekki sízt, ef þess er gætt, að hæstiréttur, sem á að skipa meiri hl. dómsins, hefir þegar nefnt menn í sáttanefnd, og sennilega myndi enginn af þeim geta talizt hlutgengur til þess að taka sæti í dóminum. Það hlyti því að verða menn, sem væri ókunnugt um þetta mál eða hefðu ekki nægilega þekkingu á því. Ég fæ því ekki betur séð en óhjákvæmilegt væri, að dómurinn sæti nokkra hríð á rökstólum. Slík töf yrði ekki, ef frv. Alþfl. yrði samþ.

Í öðru lagi álít ég, að engin ástæða sé til þess að setja l. um gerðardóm, sem ákveði kaup og kjör síðar á árinu, sem enginn veit, hvort deilur rísa út af. Þar álít ég, að sé gengið lengra en réttmætt er, eftir því sem á stendur. Okkar till. er því sú, að í stað þess að setja á laggirnar gerðardóm, sem dæmi um kaupið allt árið, verði lögfest till. sáttasemjara, að því er snertir kaup og kjör á saltfisksveiðum. Síðan hlutist ríkisstj. til um, að sáttatilraunir haldi áfram, í von um góðan árangur, og viðurkenni þannig rétt aðiljanna. Náist samkomulag, fellur niður hið lögboðna kaup.

Ég fæ ekki betur séð en með þessu frv. vinnist allt það, sem hæstv. forsrh. virðist hugsa sér að ná með sínu frv. Hér er hvergi gengið lengra í þessum efnum en aðkallandi nauðsyn á augnablikinu heimtar, og tel ég því meiri líkur til þess, að okkar frv. verði raunveruleg lausn á deilunni, þannig að skipin fari á veiðar. Ég hygg, að fyrir sjómennina myndi þetta frv. verða aðgengilegra en frv. hæstv. forsrh., og með því að samþ. það sé þannig tvennt unnið: í fyrsta lagi, að hvergi er gengið lengra en aðkallandi nauðsyn heimtar, og í öðru lagi, að meiri líkur eru fyrir skjótri lausn á deilunni.

Ég sé svo ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð að þessu sinni. Ég vil þakka hæstv. forsrh. fyrir það, að hann hefir skýrt d. frá því, að hann sé fús til að athuga hverja aðra leið til lausnar þessu máli en þá, sem felist í hans frv. Ég hefi hér f. h. Alþfl. bent á lausn, sem ég tel betri en þá, sem hann bendir á í sínu frv., og vildi ég mega vænta þess, að hann og hans flokkur gæfi því gaum. Og að lokum get ég sagt, eins og hæstv. forsrh., að verði bent á einhverjar aðrar leiðir til lausnar þessu máli, mun ég fúslega vilja athuga, hvort þær séu færar að minni hyggju og míns flokks.