11.04.1938
Sameinað þing: 19. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 75 í B-deild Alþingistíðinda. (33)

1. mál, fjárlög 1939

Thor Thors:

Ég hefi kvatt mér hljóðs vegna þess, að ég á á þskj. 232 2 smávægilegar brtt. Önnur er um 3000 kr. framlag til Ólafsvíkurvegar. Það hefir jafnan á undanförnum árum verið veitt nokkur fjárupphæð til þessa vegar, og svo er á núverandi fjárl., en á fjárlagafrv. að þessu sinni hefir það verið fellt niður. Hefir ekki náðst samkomulag um það við fjvn. að taka þetta upp á ný. — Það er kafli í Staðarsveit, sem sérstaklega þarf vegalagningar við. Það hefir verið svo með vegalagningarféð á undanförnum árum, að það hefir verið veitt að þó nokkru leyti sem atvinnubótafé til sveitamanna. Og ég verð að telja, að það sé hin mesta nauðsyn á því fyrir fátækt sveitarfélag, að fara ekki varhluta af þessu framlagi. Þar sem um svo smávægilega upphæð er að ræða, þá vænti ég þess, að hv. dm. taki till. vingjarnlega.

Hin till. er um 1500 kr. framlag til bryggjuviðgerðar og lendingarbóta á Arnarstapa. Þar var fyrir nokkru lagt fram fé til hafnarmannvirkis, sem þá var lokið við í bili. En það hefir sýnt sig, að það liggur undir skemmdum, ef ekkert er aðhafzt. Það er því beint til hagsbóta fyrir ríkissjóðinn, að leggja fram þetta fé, áður en það er um seinan. En það er jafnframt nauðsynlegt að auka nokkuð uppfyllinguna, sem þarna er, svo að hafnarmannvirkið komi sjómönnunum að fullum notum.

Ég skal svo ekki hafa um þessar till. fleiri orð, en ég tel heppilegra, að þessar till. komi ekki til atkv. við 2. umr., og leyfi ég mér því að taka þær aftur til 3. umr.