16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 388 í B-deild Alþingistíðinda. (331)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Magnús Jónsson:

Eins og raunar leiðir af stefnu Sjálfstfl. allri, þá heldur sá flokkur mjög fast í samningafrelsi aðilja í hverju atriði sem er, og þá vitanlega einnig í það samningafrelsi, sem hér er nú verið að tala um að skerða að nokkru leyti með því frv., sem fyrir liggur. Sjálfstfl. telur sjálfsagða þá lausn, sem eigi að jafnaði að ná í hverskonar deilu, sem komi fyrir í atvinnulífinu, að atvinnurekendur og þeir, sem hjá þeim vinna, geti á frjálsan hátt náð samkomulagi sín á milli. Þau frv. um vinnulöggjöf, sem sjálfstæðismenn hafa borið fram hér á Alþ., hafa borið þetta tvímælalaust með sér. Í þeim hafa að vísu verið ákvæði um dómstól, sem kveðið geti upp úrskurði í ágreiningsmálum þessara aðilja, en valdsvið þessa dómstóls hefir jafnan verið bundið við önnur atriði en þau, sem venjulega snerta kaup og kjör, eins og það hefir venjulega verið orðað, heldur aðeins réttarágreining aðilja.

Þetta er því hin almenna og ófrávíkjanlega regla, sem Sjálfstfl. mun fara eftir í þessum málum. Hitt er svo annað mál, hvort þær aðstæður geti komið upp í þjóðfélaginu, að Sjálfstfl. geti sem undantekningartilfelli gengið inn á það, að kveðinn sé upp dómur að landslögum um kaup og kjör manna. Það verður að vera á valdi Alþ. í hvert skipti að ákveða, hvort það telji ástæðuna vera það brýna, að þjóðfélagsnauðsyn krefjist þess, að þannig sé gripið inn í. Í sjálfu sér er ómögulegt að neita því, að í réttarþjóðfélagi er þetta út af fyrir sig ekki nein fjarstæða. Það er vitanlegt, að þegar menn fara að búa í þyrpingu, vill hver taka sér réttinn, og þjóðfélagið hefir smám saman tekið meira og minna af þessum rétti af einstaklingum og hópum manna og tekið málið undir lög lega dómstóla, sem þjóðfélagið hefir skipað til að setja þessar deilur niður. Og þetta þykir sjálfsagt. Hvert réttarþjóðfélag er byggt á þeim grundvelli, að dómstólar geri út um mál manna eftir landslögum og án tillits til þess, hvað öðrum aðiljanum eða báðum finnst gott í þann og þann svipinn.

Nú hafa komið hér upp á seinni tímum deilur, sem þjóðfélagið hefir ekki viljað taka út yfir á þann hátt, að lögbjóða beinlinis, að þessar deilur skuli ganga til fastra dómstóla, og þeim svo fylgt eftir með öllum þeim styrk og valdi, sem þjóðfélagið hefir til. En þegar fjárhagsafkoma þjóðarinnar er beinlínis undir því komin, að tveir aðiljar komi sér saman, þá er það engin fjarstæða, að þjóðfélagið skipi dómstól eins tryggilega og hægt er, ekki aðeins til þess að sætta, heldur einnig til þess að koma aðiljum eins nærri hvor öðrum eins og hægt er.

Frá sjónarmiði okkar; sem stöndum utan við þessa deilu, virðist bilið á milli þessara aðilja vera lítið. Og þar sem komið er alllangt fram á þann tíma, sem venjulega er mesti bjargræðistími fyrir sjávarútveginn, sérstaklega fyrir togaraútgerðina, og þegar tvisvar hafa verið gerðar tilraunir til þess að setja þessa deilu niður, eins og l. mæla fyrir, án þess að það hafi tekizt, og sáttasemjari ríkisins hefir tjáð ríkisstj., að hann skili málinu úr sinni hendi, þá tel ég, að Sjálfstfl. muni ekki geta skorazt undan því að taka þátt í tilraun Alþ. til þess að jafna þetta mál eftir löggjafarleiðinni, elns og stungið hefir verið hér upp á.

Ég skal fyrir mitt leyti ekki fara að gagnrýna það frv., eða þau frv., sem liggja hér fyrir, og það er af því, að ég veit, að það verður að sjálfsögðu litið svo á, að ég tali hér að nokkru eða kannske miklu leyti fyrir flokksins hönd, en ég hefi ekki borið mig saman við Sjálfstfl. um einstök atriði frv. og það er því meira frá mínu eigin persónulega sjónarmiði, að mér finnst, að frv. það, sem hér liggur fyrir, mætti vera betra en það er, og ef ekki gefst frekara tilefni. til, get ég leitt það hjá mér að minnast á það nú, enda væri þá tækifæri fyrir mig við frekari meðferð málsins að skýra frá því og e. t. v. að bera fram brtt. frá mér persónulega um það, sem ég tel, að betur mætti fara.

Hæstv. forseti hefir leyft að menn ræddu hér þau tvö frv. sem á dagskrá eru. Og þó að ég hafi sagt það hér, að Sjálfstfl. muni leggja sitt lið til þess að þessi deila verði leyst eða gerð tilraun til að leysa hana, þá er náttúrlega ekki með því sagt, hvoru frv., sem fyrir liggja um málið, Sjálfstfl. vildi fylgja, því að þau eru óneitanlega bæði tilraun til að leysa þessa deilu, sem um er rætt. En ég verð þó að segja það, að þegar litið er á þessi tvö frv., og sérstaklega ef litið er á frv. á þskj. 96, sem borið er fram fyrir hönd hæstv. atvmrh., þá hefir það frv. þann höfuðgalla, að það leysir ekki málið nema í svip, aðeins til bráðabirgða. Og það, sem þó er e. t. v. lakara, að sú bráðabirgðalausn torveldar beinlínis þá liði, sem sú lausn skilur eftir óleysta af málinu. Því að það er alveg augljóst, að ef kippt er þannig einum lið út úr allmikilli keðju, sem sett hefir verið saman, eins og hér er um að ræða, þá komast náttúrlega hinir liðirnir fjær því, að saman gangi um þá eftir en áður. Ég verð að taka undir það með hæstv. forsrh., að ég er hræddur um, að þegar fram á vorið kæmi og ætti að fara að semja um kaup og kjör sjómanna á síldveiðum og á ísfisksveiðum, að með því að kippa þannig einum lið út úr nú, yrði erfiðari síðari villan en hin fyrri. Það er beinlínis eins og með þessum till. á þskj. 96 sé boðið heim meiri vandræðum heldur en nú liggja fyrir í svipinn í kaupgjaldsmálum sjávarútvegsins. Og án þess ég sé kunnugur því, hvernig samningar hafa um þau mál verið á undanförnum árum, þá hygg ég það ekki síður áhugamál sjómanna heldur en útgerðarmanna, að samningar yrðu nú gerðir fyrir ekki skemmri tíma en eitt ár. Ég hygg, að það væri óheppileg leið að semja . frá mánuði til mánaðar, engu síður yfirleitt fyrir sjómenn heldur en útgerðarmenn og atvinnurekendur yfirleitt.

Ég skal ekkert um það fullyrða, sem hæstv. ráðh. hafa nokkuð verið að deila um, hvort gerðardómi, sem kveðinn væri upp, yrði hlýtt. Það er alveg ómögulegt fyrir hæstv. Alþ. að fara inn á að setja fram slíkar spurningar. Alþ. verður að setja I. eins og það sér sanngjarnast og viturlegast fyrir alla aðilja og ganga svo út frá sem alveg sjálfsögðum hlut, að landsl. verði hlýtt. Lögbrot eiga sér alltaf stað, en það er ómögulegt fyrir Alþ. að fara að hafa neina þanka um það, hvort l. verði hlýtt betur eða verr. En mér þykir í fljótu bragði ósennilegt, að báðir aðiljar leitist ekki við að láta þessi l. koma að sem beztu gagni. Og ef þeir eru uppgefnir á því að reyna að ná saman á samningsgrundvelli, þykist ég vita, að yfirgnæfandi meiri hl. í þeirra hópi fagni eftir því að jafna þessa deilu, sem e. t. v. er að nokkru leyti stífnisatriði þeirra, er að þessum málum standa. Hæstv. atvmrh. ræddi þetta frá báðum hliðum og taldi ólíklegt, að aðiljar vildu fara eftir ákveðinni gerð frá slíkum dómi. Það er rétt, að báðir aðiljar hafa talið tormerki á því að láta gerðardóm kveða upp úrskurð í þesskonar dellum. En það er engan veginn sama sem að þessum aðiljum sé illa við, að gripið sé inn í í eins gersamlegum undantekningartilfellum og hér er um að ræða. Mér virðist bilið orðið alltof stutt á milli þessara tveggja aðilja til þess að láta saltfisksvertíð togaranna e. t. v. fara út um þúfur vegna ósamkomulags viðkomandi aðilja. Eg get ekki dæmt um, hve þetta bil er stutt. En eftir undirtektum aðilja þykist ég vita, að það sé stutt. Annar aðilinn fellir sáttatillögurnar, en með svo litlum atkvæðamun, að það virðist mjög svo á metunum, hvort sjómenn yfirleitt eru með till. eða móti. Og þegar litið er á það, hvernig þetta mál hefir yfirleitt verið túlkað í blaði Alþfl. að undanförnu, þá virðist mér undirtektirnar hjá sjómönnum um að leysa málið bera mjög mikið vott um, að svo margír væru með tilslökun á kröfum sem nægðu, til þess að gerðardómi í málinu yrði vel tekið.

Við sjálfstæðismenn munum fylgja frv. hæstv. forsrh. um lausn þessa máls og munum styðja að því, að það megi sigla svo mikið hraðbyri gegnum þingið sem frekast er unnt.