16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (332)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Brynjólfur Bjarnason:

Herra forsefi! Það þarf ekki að spyrja um afstöðu verkalýðshreyfingarinnar til þvingunarlaga í vinnudeilum. Hver stjórn, sem ber fram frv. sem slíkt, verður að reikna með þeirri staðreynd, að hún hefir verkalýðshreyfinguna á móti sér. Þess vegna held ég, að það sé alveg víst, þó að ekkert hafi í raun og veru komið fram um það í þessum umr., að samþ. þessa frv. hljóti að þýða stjórnarkreppu. Ráðh. Alþfl. getur að mínum dómi ekki lengur verið í ríkisstjórn, sem borið hefir fram slíkt frv. eins og þetta og fengið það samþ. með stuðningi andstöðuflokks gegn vilja síns eigin flokks. Hversu feginn sem hann vildi, gæti hann ekki gert það, svo lengi sem hann telur sig fulltrúa fyrir einhvern hluta alþýðunnar.

Það hefir verið viðurkennt af öllum flokkum, a. m. k. með vörunum, að verkfallsréttur alþýðunnar væri heilagur réttur. Meira að segja sjálfur höfuðpaur hinnar illræmdustu vinnulöggjafar, sem lögð hefir verið fyrir Alþ., hv. þm. Snæf., hefir oft byrjað ræður sínar, þegar hann hefir mælt fyrir þessu frv. sínu um vinnulöggjöf, með því að segja með allmiklum fjálgleik, að verkfallsrétturinn sé heilagur réttur. Svo augljós er helgi þessa réttar, að fulltrúar borgaraflokkanna allra hafa orðið að viðurkenna þetta, ef þeir á annað borð hafa viljað láta telja sig lýðræðisflokka. Svo augljós þáttur lýðræðisins er verkfallsrétturinn.

Er nú hægt að hugsa sér meiri kúgun og ófrelsi heldur en það að banna mönnum með l. að taka sig saman um að vinna ekki, m. ö o. að þvinga menn til að vinna fyrir það kaup, sem þeim er skammtað með l.? Ég held, að það sé erfitt að hugsa sér meira ófrelsi heldur en þetta. Eina varan, sem verkamaðurinn hefir á boðstólum, er vinnuaflið. Og þessa vöru á að þvinga menn til að láta af hendi fyrir verð, sem skammtað er fyrir hana. Og hvað er dómur til að þvinga menn til slíkrs annað en þræladómur? Er hann ekki nákvæmlega sama eðlis? En þetta er að því leyti verra en þrælahald, að yfirleitt er þrælum tryggt nægilegt fóður, en með slíkum lagasetningum sem þessum er verkamönnunum ekki tryggt nægilegt lífsviðurværi. Við sjáum á till. þeim, sem komu fram hér á þingi, og nú síðast á þessu máli, hversu heilindin eru mikil í öllu skrafi manna um helgi verkfallsréttarins. Um leið og sjálfstæðismenn töluðu sem mest um það, að verkfallsrétturinn væri helgur réttur, báru þeir fram frv. til l. um vinnulöggjöf, sem takmarkar þann rétt stórkostlega, og stappar nærri í sumum tilfellum, að það frv., ef að l. verður, afnemi hann með öllu. Það er nú ekki eingöngu Sjálfstfl., sem lagt hefir fram frv. um vinnulöggjöf, því að komið hefir fram slíkt frv. frá Framsfl., og mþn. skipuð af fulltrúum frá Framsfl. og Alþfl., hefir komið sér saman um frv., sem stórkostlega takmarkar rétt verkamanna til verkfalla. Og nú síðast hefir hæstv. forsrh. lagt fram frv. um lögþvingaðan gerðardóm, þar sem verkfallsrétturinn er algerlega afnuminn í ákveðinni deilu. Því hefir verið haldið fram af hæstv. forsrh., að það væri engin hætta á því, að með þessum l., sem gilda fyrir þetta einstaka tilfelli, væri skapað fordæmi, sem hætta væri á, að yrði notað meira en góðu hófi gegndi meira að segja frá hans sjónarmiði. Og hann vitnaði máli sínu til sönnunar í ráðstafanir, sem gerðar hefðu verið og hann taldi svipaðar því, sem hér er á ferð, í Frakklandi, og eins á Norðurlöndum, sem að vísu eru ekki sambærilegar við það, sem hér er um að ræða, sem ég kem ekki nánar inn á að þessu sinni.

Við skulum bara líta á staðreyndirnar, eins og þær eru nú hér hjá okkur. Við skulum hugsa okkur þá ríkisstjórn, sem yfirleitt hefir þá stefnu að takmarka verkfallsréttinn sem mest og helzt afnema hann með öllu. Þessi stefna er nú ríkjandi í Sjálfstfl., það sýna öll hans verk, þrátt fyrir orð hv. 1. þm. Reykv. áðan, sem þeir flokksmenn hans eru nú stöðugt að endurtaka. Vinnulöggjafarfrv. sýnir þetta og afstaða þessa flokks til frv., sem hér liggur fyrir til umr., og það vitnar yfirleitt sú afstaða, sem Sjálfstfl. hefir í þjóðfélaginu og sú stétt, sem hann byggir tilveru sína á. Þessi stefna er hjá sumum mönnum í Framsfl. Sú ríkisstjórn, sem skipuð væri mönnum, sem hefðu slíka stefnu, hún mundi nota hvert tækifæri, sem hún yfirleitt teldi sér fært, til þess að koma á lögþvinguðum gerðardómi. Og hvað liggur þá nær, ef slíkt færi að tíðkast, en að oft væri litið svo á, að slíkt væri nauðsyn! Og þegar þetta væri svo orðin nokkurskonar regla, hvað stæði þá nær en að lögfesta það, að fastur, lögþvingaður gerðardómur yrði ein af föstum stofnunum ríkisins? Þá væri ekki ónýtt að geta vitnað í fordæmið, ef frv. hæstv. forsrh. verður að I.

Í sambandi við þetta mál talaði hæstv. forsrh. um, að það væri ákaflega nauðsynlegt, að slíkur dómur sem þessi væri hlutlaus og yrði skilyrðislaust að vera skipaður hlutlausum mönnum. Það er hægt að segja svona hluti en ég hygg þó erfiðara að framkvæma slíkt. Ég veit satt að segja ekki, hvernig hæstv. forsrh. hugsar sér að skipa hlutlausan gerðardóm. A. m. k. er það víst, að gerðardómur, sem að meiri hl. væri skipaður af hæstarétti eða sem hæstiréttur skipaði mann í oddaaðstöðu i, yrði ekki skoðaður sem hlutlaus. Dómar hæstaréttar hafa ekki verið hlutlausir í ýmsum málum, sem snerta verkamenn, eins og t. d. í málum iðnaðarmanna og fangelsisdómarnir út af vinnudeilunni á Siglufirði, hinni svo kölluðu Dettifossdeilu. Þessir dómar tala ekki um hlutleysi hæstaréttar. Og verkalýðurinn lítur nær óskiptur á hæstarétt sem stéttardómstól, og það á grundvelli þeirrar reynslu, sem alþýðan hefir fengið af þeim dómum, sem hæstiréttur hefir kveðið upp. Enda er það svo, að fulltrúi Sjálfstfl. og jafnframt útgerðarmanna, sem talaði hér áðan, hann er ekki aðeins ánægður með aðalatriði þess frv., heldur líka harðánægður með skipun dómsins eftir frv., að mér skildist.

Þá er að athuga þetta verkfall, sem nú stendur yfir, í sambandi við þetta mál, sem hefir orðið tilefni þess, að þetta frv. hefir verið lagt fram. Því hefir verið haldið fram, að óhjákvæmileg nauðsyn sé að samþ. l. eins og þau, sem frv. þetta fer fram á, til þess að firra alla þjóðina vandræðum, vegna þess að deilan verði ekki leyst á annan hátt. Við skulum nú athuga þetta. Eg býst við, að það sé viðurkennt af öllum, að finna þurfi lausn á þessari deilu tafarlaust. Deilan stendur aðeins um það, hvaða lausn sé heppilegust og hvaða lausn sé líklegust til að leysa deiluna tafarlaust. Till. sáttasemjara, sem nú hefir verið felld af sjómönnum og útgerðarmönnum, var þannig vaxin, að það var í raun og veru líkast því, sem þessi till. hefði verið lögð fram til þess að smána sjómannastéttina. Hvernig var svo þessi till.? Í henni fólst í raun og veru engin hækkun á síldarkaupi í sumar, með því útliti, sem nú er um síldarverð. En það er einmitt þetta, sem er aðalatriðið fyrir sjómönnum og ég hygg, að sjómenn hafi lagt mesta áherzlu á. Hinsvegar er ofurlítil hækkun á saltfisksvertíðarkjörunum, sem nemur, með því úthaldi, sem togararnar hafa haft, ekki nema 15 kr. á ári, sem t. d. nægir ekki fyrir félagsgjöldum í Sjómannafélaginu. Hvernig er nú hægt að ætlazt til, að menn þiggi svona „sáttatilboð“? Samt sem áður munaði það ekki nema tiltölulega mjög litlu, að þetta væri samþ., þrátt fyrir það, að almenn reiði væri meðal sjómanna vegna þess, að verið væri að smána þá með svona tilboði. Þetta sýnir ekki annað en sáttfýsi sjómanna; það stendur sannarlega ekki á þeim í þessu máli. En ég tel, að engin tilraun hafi verið gerð til þess að leysa þessa deilu, því að ég tel þær í raun og veru ekki tilraun til lausnar till., sem sáttasemjari lagði fram. Útgerðarmenn sögðust vilja ganga að tilboðinu, ef ríkið og bæjarfélagið uppfylltu þær kröfur, sem þeir settu fram. Þeir hafa marglýst því yfir, að hagsmunakröfur sjómanna væru þeim ekkert aðalatriði, heldur að kröfurnar til þess opinbera yrðu uppfylltar. Þess vegna er það, að við verðum fyrst og fremst að lita á eðli þessarar vinnustöðvunar, sem er það, að þegar á þetta er litið, er hún pólitísk vinnustöðvun, sem hafin er og haldið er áfram í því augnamiði að þvinga ríkisstjórnina til að framkvæma ákveðna hluti og helzt til þess að koma ríkisstjórninni frá. Vandamálið, sem þurfti þess vegna að leysa, það var ekki fyrst og fremst kaupgjaldsmálið. Það var allt annað, sem fyrst og fremst þurfti að leysa, kreppa togaraútgerðarinnar. Og það, sem þurfti að gera nú í augnablikinu, var að þvinga útgerðarmenn til þess að láta togarana fara út á veiðar. Og það þurfti fyrst og fremst að athuga, hvaða ráðstafanir væri hægt að gera til þess.

Hvaða meining er nú í því að þvinga sjómenn til þess að vinna fyrir kaupi, sem þeim er skammtað og þeir ekki vilja vinna fyrir í slíkum kringumstæðum, þegar um það er að ræða, að fyrsta og helzta nauðsynin er að þvinga togara-„eigendur“ til þess að hætta við pólitíska vinnustöðvun, sem þeir sjálfir lýsa yfir, að sé ekki orðin til fyrst og fremst vegna ágreinings um kaupgjald? Og hverskonar alvöruleysi er það að reyna ekki nýjar sáttatilraunir enn, áður en slík leið er farin, sem þetta frv. gerir till. um? Hví mátti ekki koma eitthvað til móts við sjómenn, er þeir gera kröfu um hækkun síldarpremíunnar í samræmi við hækkandi verð á síld, þannig að um raunverulegt sáttatilboð væri að ræða, en ekki óraunverulegt, eins og till. sáttasemjara var? Slíka till. er ég viss um, að sjómenn hefðu samþ. með miklum meiri hl. Og ég vil nú skora á hæstv. ríkisstjórn að fara þessa leið. Og ég vil í því sambandi skírskota til þess, sem hæstv. forsrh. sagði í framsöguræðu sinni, að ef hægt væri að benda á aðra leið til að leysa þetta mál tafariaust, þá mundi sú leið verða athuguð. Í kvöld verður fundur í Sjómannafélaginu. Ef þessi fundur kæmi nú með tilboð, sem gæti falið í sér lausn málsins, er þá vit í að taka það ekki til greina, og er þá vert að vera að reyna að kúska þetta mál í gegn, sem hér liggur fyrir? Menn geta sagt, að þó að slík lausn fengist á málinu, sem sjómenn gætu unað við og útgerðarmenn gætu unað við, hvað kaup og kjör snertir, þá væri eftir að þvínga útgerðarmenn til að láta togarana fara út. Það geta bankarnir gert. Það er á þeirra valdi. Það er viðurkennt af öllum, að togararnir eru fæstir eign útgerðarmanna, heldur bankanna, og bankarnir eru ríkisbankar. Og hvað liggur þá beinna við undir svona löguðum aðstæðum heldur en að ríkisstj. hlutist til um, að bankarnir láti útgerðarmennina hætta að halda uppi þessari pólitísku vinnustöðvun? Og ef bankarnir vildu ekki beita þessu valdi sínu, þá skal ég viðurkenna, að undir slíkum kringumstæðum gæti það verið rétta leiðin af ríkisstj. að leysa þetta mál með lögþvinguðum dómi á grundvelli tilboðs frá sáttasemjara, sem sjómenn hefðu samþ. og báðir aðiljar gætu sætt sig við hvað kaup og kjör snertir, enda þótt útgerðarmenn héldu kröfum sínum á hendur hins opinbera til streitu. En svo framarlega sem lögþvingaðan dóm þyrfti til að knýja útgerðarmenn til að láta togarana fara út, yrði ríkisstj. að gera ráðstafanir til að þessum dómi yrði framfylgt. Hún yrði að fá hið raunverulega vald yfir bönkunum. Slíka lausn mundi hver einasti sjómaður telja rétta og sanngjarna. En væri það rétt gagnvart útgerðarmönnum? — munu menn spyrja. Ég held vissulega. Og af hverju? Vegna þess að útgerðarmenn eiga fæstir togarana sjálfir. Og þess vegna er það í raun og veru ekki annað en hreint hneyksli, að þessir menn, sem ekki eiga þá framleiðslu, sem þeir hafa yfir að ráða, geti stöðvað hana, stofnað þjóðarbúskapnum í voða og stofnað til pólitískrar kreppu, með því að stöðva fyrirtæki, sem þeir eiga ekki sjálfir, heldur þjóðin. Ef ríkisstj. hefði farið þessa leið, þá hefði hún staðið sem sigurvegari. Þá hefði hún sýnt, að hún er húsbóndi yfir eignum þjóðarinnar og yfir bönkunum. En það eru í raun og veru útgerðarmenn, sem eru sigurvegarar, ef sú leið er farin, sem framsóknar- og sjálfstæðismenn berjast nú fyrir, og þá hefir útgerðarmönnum og bönkunum tekizt að koma á stjórnarkreppu í landinu. Og skyldi það ekki hafa verið tilgangurinn með samspili þeirra frá upphafi þessarar deilu, og þeir með þessu hafi náð takmarki sínu, og það yrðu bankarnir, sem drottnuðu yfir ríkisstjórninni, ef þessi leið yrði farin?

Ég ætla þá ekki að fara fleiri orðum um þetta frv. En hér liggur fyrir annað frv. frá fulltrúum Alþfl., borið fram að tilhlutun hæstv. atvmrh. Og ef á annað borð á að fara þá leið, að setja lögþvingaðan gerðardóm, sem ákveði kjör sjómanna, þá hniga engin rök til þess, að rétt sé að fara lengra en það frv. gerir. Ég ætla ekki að endurtaka þau rök, sem hæstv. atvmrh. hefir borið fram, ég er þeim alveg sammála að þessu leyti. Það er staðreynd, sem ekki er hægt að mótmæla, að hættan liggur í því, að flotinn stöðvist á saltfisksvertíðinni. Það er hættan, sem nú liggur fyrir, en engin önnur. En þetta frv. felur í sér, eins og hitt frv., þó það gangi skemmra, að ákveða kjör sjómanna með lögþvinguðum dómi, og er það því sama eðlis „prinsipielt“. Þar af leiðandi Iýsi ég því yfir fyrir hönd míns flokks, að hann er því einnig andvígur.