16.03.1938
Efri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (333)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti ! Það vill nú svo til. að ég get ekki setið þegjandi hjá við umr. um þetta mál, og ég geri ráð fyrir, að það muni þykja nokkur tíðindi í þingsögu okkar Íslendinga, þegar slíkt mál sem þetta er rætt í fyrsta sinn. Ef til vill mun það þykja nokkrum tíðindum sæta, þegar Alþ. þykir svo mikið við þurfa að lögfesta, hvað hinn óbreytti verkamaður á að vinna fyrir þann og þann daginn. Mér finnst einnig mér nokkuð skylt að gera hv. þm. nokkra grein fyrir aðdraganda þessa máls, og hafði ég í rauninni sízt búizt við, að það þyrfti ég að gera á Alþ., en eins og málið liggur fyrir, tel ég rétt, að í höfuðdráttunum sé sögð sú saga, eins og hún hefir gengið. Það er þegar kunnugt, að sjómannastéttin sagði upp samningum, sem gilt höfðu til síðustu áramóta og eru í raun og veru til orðnir árið 1929. Og það, hvað þessir samningar hafa staðið lengi, sýnir, að sjómenn eru yfirleitt ekki að leika sér að deilum. Að vísu hafði komið smádeila 1935, en hún snerti aðeins lítinn hluta þessarar stéttar, þó að fleiri blönduðust nokkuð inn í hana, enda leystist hún fyrir atbeina ýmsra áhrifamanna í þjóðfélaginu með þeim samningi, sem nú er vitnað til í því frv., sem hér liggur fyrir. Þessum samningum var sagt upp með aðferð, sem í raun og veru er ekki mjög almenn hér á landi, en er alþekkt meðal erlendra þjóða, sem sé þeirri, að láta fara fram almenna atkvgr. meðal þeirra, sem við samningana áttu að búa, um það, hvort þeir vildu segja upp eða ekki. Þessi atkvgr. fór fram síðast í ágústmánuði á meðal allra togarasjómanna, hvort heldur sem þeir voru á síldveiðum, ísfisksveiðum eða öðrum veiðum. Útkoman var sú, að undantekningarlaust allir, sem þátt tóku í atkvgr., sögðu samningunum upp fyrir saltfisks-, ísfisks- og síldveiðar. Hinsvegar var nokkur atkvæðamunur, að því er karfaveiðarnar snerti. Mikill meiri hluti sagði upp, en ég man því miður ekki, hvað mörg prósent voru á móti, enda skiptir það ekki mjög miklu máli. Það voru þó nokkrir tugir manna. Ég segi frá þessu vegna þess, sem ég mun koma að síðar, að hér blandast ýmislegt inn í og hér eru dregnar ályktanir, sem í rauninni eru rangar. Því hefir verið haldið fram, að sjómenn hafi sagt upp samningunum eingöngu vegna hinnar svonefndu síldarpremíu. Þetta er ekki nema að nokkru leyti rétt, því að ef svo hefði verið, hefðu þeir menn, sem unnu á þeim togurum, sem fóru á ísfisksv., ekki átt að segja upp, og heldur ekki á þeim skipum, sem eng. stunduðu karfav., en það gerðu a. m. k. tvö skip síðasta sumar. Þeir sögðu einnig upp. Sjóm. segja upp í fyrsta lagi af því, að þeir telja síldarpremiuna of lága, í öðru lagi af því, að þeir finna, að kaupgjald þeirra er að verða of lágt, miðað við hina vaxandi dýrtíð og framfærslukostnað í landinu. Allir sjómenn á togurum segja upp samningum, og það hefir þá þýðingu, að þegar leysa á deiluna, þarf að taka tillit til allra, sem við þetta vinna, hvort sem það eru saltfisks-, ísfisks- eða síldveiðar. Nú munu menn spyrja, hvort síðari ástæðan hafi verið réttmæt rök fyrir því, að sjómenn segðu upp. Á árinu 1936 og framan af árinu 1937 fóru ýmsar stéttir í landinu, fyrst og fremst iðnstéttin, bæði hér í Reykjavík og viðar í landinu, fram á kjarabætur, og í öllum tilfellum fengust þær að meira eða minna leyti, og þess varð ekki vart, að hin borgaralegu blöð snerust á nokkurn hátt öndverð gegn því, að þessar kröfur iðnstéttarinnar hefðu við rök að styðjast og að það væri rétt, að þær fengju þessar kjarabætur. Ennfremur má benda á það, að síðastl. sumar höfðu daglaunamenn einnig fengið nokkrar kjarabætur, en ég skal játa, að gegn því ríkti nokkur andúð hjá borgaralegu blöðunum. Að síðustu skal ég benda á það, að kvenfólk, sem vinnur við fiskiframleiðsluna, fiskþvotta, fiskþurrkun o. s. frv., fór einnig fram á kjarabætur. Sú deila var alls ekki hávær, en það var litið svo á af atvinnurekendum, að það væri réttmætt, að bæta kjör verkakvenna og þær fengu 12% kauphækkun, ef ég man rétt. Kaup þeirra var ákveðið um líkt leyti og kaup sjómannanna kringum 1928 og 1929. Þetta sýnir, að atvinnurekendum hafi í þessum tilfellum virzt, að kröfur þessa fólks væru ekki óréttmætar og það væri rétt að mæta þeim. Þess vegna litu sjómenn svo á a. m. k., að það mundi ekki þurfa að koma til mjög mikilla átaka af hálfu útgerðarmanna og atvinnurekenda, þó að þeir færu fram á, að einnig þeim yrðu veittar nokkrar kjarabætur. Sjómenn voru þegar orðnir eina stéttin af hinum vinnandi stéttum í landinu, sem engar kjarabætur fengu. Hvaða till. bera sjómenn svo fram í þessu máli? Þeir fóru svo hóflega í sakirnar, að manni virðist eins og frekast var unnt. Þeir biðja um 10% hækkun á kaupi sínu yfirleitt. Þeir fara að vísu fram á örlítið meiri hækkun á lifrarpremíunni og síldarpremíunni, en það var vitað, að til samkomulags mundu þeir vera fáanlegir til þess að slá nokkuð af. Auk þess voru gerðar ýmsar orðabreytingar á þeim samningi, sem áður hafði gilt, í þá átt, að heppilegra yrði að vinna eftir þar að lútandi ákvæðum í framtíðinni, og áttu þær breytingar ekki að kosta verulega peninga. Ég hefi haft afskipti af þessum málum að nokkru leyti síðan 1916, í yfir 20 ár, en ég hefi aldrei fyrr orðið fyrir þeim undirtektum í jafn sanngjörnu máli eins og þessu. Útgerðarmenn vildu ekki svara okkur. Allt tímabilið frá því, að við sögðum upp, sem átti að vera fyrir 1. okt., og til áramóta, fór eiginlega í ekkert, því að þótt við kæmum saman þrisvar sinnum að nafninu til, þá voru það þýðingarlausir fundir, vegna þess að útgerðarmenn vildu ekki svara okkur. Þeir sendu ekki eitt einasta gagntilboð, og það var ekki rætt um eina einustu till., sem við bárum fram. Þannig leið tímabilið til áramóta svo að engin viðleitni til samkomulags var sýnd. Slík aðferð er ekki eðlileg í neinu lýðfrjálsu menningarlandi í viðskiptum verkamanna við atvinnurekendur, að þeir fáist ekki til að tala við verkamennina. Ég hefi það mikið kynnt mér verkamálalöggjöf nágrannaþjóðanna, að ég veit, að það er yfirleitt svo, þegar menn segja upp samningum, þá talast aðiljar við, og ef um svo mikinn ágreining er að ræða, að ekki tekst samkomulag um hann, þá endar það annaðhvort með verkbanni eða verkfalli, þegar þrautreynt er, að samningar takast ekki. Slíkar tilraunir milli sjómanna og útgerðarmanna fóru ekki fram vegna þeirrar afstöðu, sem útgerðarmenn tóku. Sjómenn fluttu sitt mál á fullkomlega löglegan hátt, eins og í þeim löndum, þar sem reglur eru um það, hvernig þessi mál skulu rekin. Framhaldið af þessu var, eins og kunnugt er, að sáttasemjari greip inn í málið, eins og honum bar skylda til lagalega, um mánaðamótin janúar og febrúar, og skal ég fara örfáum orðum um þá till., sem hann bar fram fyrir aðilja, af því að hæstv. forsrh. drap á hana. Hann átti að sjálfsögðu tal við okkur fulltrúa sjómanna og einnig við atvinnurekendur. við höfðum sameiginlega fundi um málið, en það virtist vera svo mikið djúp milli aðilja, að þýðingarlaust væri að eiga sameiginlegar samræður um málið. Upp úr þessu kom till. sáttasemjara, og er hún þegar kunn. En aðalefni hennar var þetta: engin kauphækkun á ísfisksveiðum, 6 kr. kauphækkun á saltfisksveiðum á mánuði aðeins fyrir þá, sem eru á lágmarkskaupi; síldveiða spursmálið er leyst á þann hátt, að það þurfa 20000 mál, með 4 kr. verði hvert mál, áður en nokkur hækkun á premíu kom til mála, eða 5000 málum meira en meðalaflinn var á síðasta sumri, m. ö. o., það var vonlaust, að sjómenn fengju nokkra premíuhækkun með líku verði, og jafnvel þótt 5 kr. verð fengist, þurfti 16000 mála meðalafla til þess, að um nokkra verulega hækkun væri að ræða. Slík till. var í rauninni þess eðlis, að það var ekki hægt að ræða hana í félögum sjómanna. Þeir höfðu beðið um 10% hækkun, en fengu þessa till. sáttasemjara. Við getum komið að seinni sáttaumleituninni. Það skal játað, að þar virðist gengið nokkuð fastar að verki, þar sem m. a. er rætt uppkastið grein fyrir grein, eins og það lá fyrir. Það skal einnig játað, að sáttanefndin kemur með ýmsar breyt. eftir okkar till., að okkur skildist með samþykki útgerðarmanna, sem ég og sjómenn yfirleitt töldum nokkurs virði. Hinsvegar var það fyllilega ljóst, að sáttanefndin hafði ekki neitt glöggan skilning á því, hvað þurfti til þess að leysa deiluna. Þegar sjómannastéttin biður um 10% kauphækkun, er tæplega hægt að bjóða henni upp á núll. Það er ekki leiðin til þess að leysa deiluna. Eins og hv. þdm. er kunnugt og sjá má á þskj. 96, var till. á þá leið, að kaupið á ísfiskveiðunum hélzt óbreytt, kaupið á saltfisksveiðum átti að hækka um 41/2%, og átti það að gilda fyrir alla, sem við þetta vinna, jafnt þá, sem hafa hærra kaup, og fyrir þá, sem lægra kaup hafa, og var það kostur. Lifrarpremían. hið gamla þrætuefni, skyldi haldast óbreytt. Kaupið á karfaveiðum sömuleiðis óbreytt með öllu, og einnig var mánaðarkaupinu á síldveiðum haldið óbreyttu með öllu. Og hvað skeður svo með aflaverðlaunin, sem margir leggja svo mikið upp úr, að sé höfuðdeiluatriðið? Miðað við 8 kr. síldarverð á síðasta sumri eiga aflaverðlaunin samkvæmt till. að vera 4,2 au. Þó að útgerðin sé illa stödd, þá verð ég að segja, að hún getur borgað meira en 4,2 au. í aflaverðlaun til sjómanna. Mér er ekki grunlaust um, að það, hvað útgerðarmenn skáru þessar kjarabætur mjög við neglur sér, hafi átt nokkurn þátt í því, hvernig undirtektir till. fekk, og mér er heldur ekki grunlaust um — ég get ekki fullyrt um það — að það hafi einnig átt sinn þátt í því, að till. fekk ekki byr, hvað sjómenn á ísfisksveiðum, sem hafa tiltölulega minnstar tekjur, en eins mikið erfiði, og eiga auk þess við óblíðari veðráttu að stríða en aðrir sjómenn, voru gersamlega hundsaðir. Slík sáttanefnd, sem skilur ekki sitt hlutverk gagnvart verkalýðnum, eins og þessi, veit ekki hvað hún er að vinna. Ég hefði talið það mikils virði, ef þetta mál hefði leystst þannig, að sjómenn hefðu getað samþ., þótt í litlu hefði verið, það, sem fyrir lá, en ekki þurft að hafna, því að mér var það fyllilega ljóst, og segi það enn, að deila útgerðarmanna er ekki um kaupið á togurunum, þeir mundu hafa samþ. það jafnt fyrir því, þótt það hefði verið örlítið hærra heldur en nefndin kom fram með. Þess má geta, að jafnvel í umræðum við einstaka útgerðarmenn og í blöðum útgerðarmanna hefir sú játning verið gefin, að krafa sjómanna væri hin sanngjarnasta og að þeir ættu rétt á að fá nokkrar kjarabætur. Þess vegna hefi ég fulla ástæðu til þess að ætla, að útgerðarmenn hefðu ekki sett það fyrir sig, þótt allir sjómenn á fiskiflota okkar hefðu fengið einhverjar kjarabætur í till. nefndarinnar, sem ekki hefðu þurft að nema mjög miklu, en hefði getað þýtt það, að till. hefði verið samþ. Það er nú kannske ekki rétt af mér að kasta svo þungum orðum að nefnd, sem ekki getur svarað fyrir sig hér, en ég ætla ekki að deila á hana sem prívatmenn, heldur á starf hennar. Hvers vegna er nefndin svona innstillt, eins og fram kemur? Ég get ekki komizt hjá því að skýra nokkuð fyrir hv. þdm. skipun nefndarinnar. Nefndin er skipuð af hæstarétti, eins og kunnugt er. Það er vitað um tvo nm., að þeir eru ákveðnir flokksmenn í Framsfl., og ennfremur er það vitað um einn þeirra, að hann er ákveðinn sjálfstæðismaður, og loks var einn, sem, þó að hann sé ekki jafnaðarmaður, er þekktur sem velviljaður verkalýðnum. Hvað þýðir þessi nefndarskipun? Það, að í starfi sínu er nefndin innstillt af stefnu ákveðins flokks, og það er bezt að segja eins og er, innstillt af stefnu Framsfl. í þessu máli, en það er vitanlegt, hver stefna hans er, sem sé sú, að sjómenn eigi ekki að fá 1 eyris hækkun í kjarabætur. Þetta er stefna Framsfl. í launamálum sjómanna, og það er einmitt þessi stefna, sem sáttan. túlkar svo dæmalaust vel, að svo miklu leyti sem hún sér sér það fært. Það virðist sem þjóðfélagið leiki á reiðiskjálfi yfir því, að þessir menn fara fram á kjarabætur. Slíkt þekkist ekki, þó að aðrar stéttir fari fram á kjarabætur. Allir vita, hversu stórkostlega þýðingu sjómannastéttin hefir fyrir þetta þjóðfélag; hún er sú stétt, sem færir að landi þann hluta framleiðslu íslenzku þjóðarinnar, sem hún getur ekki án verið; það er sú stétt, sem leggur út á djúpin, stofnar lífi sínu í hættu öllum öðrum stéttum fremur; það er sú stétt, sem hefir fætt hina íslenzku þjóð nú um margra áratuga skeið. Nú á að launa henni starfið á þennan hátt. Ekki 1 eyris kauphækkun. Þetta eru þakkirnar, sem hún fær frá þeim stjórnmálaflokki landsins, sem nú á að stýra mönnum og málefnum. Það má vel vera, að þessi stefna eigi sér líka hljómgrunn að einhverju leyti í Sjálfstfl. Svo þegar komið er að því, að það er ekki hægt að kúga þessa stétt nógu mikið til undirgefni undir þær till., sem nefnd, innstillt af Framsfl., ber fram, þá skal Alþ. Íslendinga dæma þessum mönnum kaup. Við þá er sagt: Þið skuluð vera eins og góð börn, hlýða og fara út á veiðar upp á þau kjör, sem við skömmtum ykkur. Ég segi: Í dag þér, á morgun mér. Slík kúgunarstefna hlýtur að hefna sín fyrr eða síðar. Öl1 kúgunarstefna í hverri mynd sem er, hlýtur að hefna sín.

Hæstv. forsrh. vitnaði í, hvað gerzt hefði í Noregi 19lá og 1920. Norskir verkamenn urðu á þeim tímum að þola kúgunarvald norskra atvinnurekenda, en í dag eru þeir, vegna þeirrar kúgunar, sem þeir þá voru beittir, stærsti flokkurinn í norska þinginu og fara einir með stjórn í landinu með stuðningi frjálslyndra bænda. Öll slík kúgun hlýtur að hefna sín fyrr eða síðar, og það getur vel verið, að þeir góðu herrar, sem vilja beita slíkum aðferðum við alþýðuna, sem yfirleitt lifir við skorinn skammt, sjái, að hún rísi upp og skilji, hverskonar herra hún hefir yfir sig setta.

Hæstv. forsrh. hefði vel getað látið sáttan. starfa áfram að lausn málsins, en hann hefir varðveitt þá skyldu sína að fara þessa leið.

Ég sé ekki, að nein lausn á málinu felist í till. hæstv. forsrh. Hann mun að vísu þykjast hafa nokkrar líkur fyrir því, að útgerðarmenn muni ganga að gerðardómi, þar sem sjálfstæðismenn hafa lýst yfir fylgi sínu við þá leið. Það mun vera honum mikil huggun. En það er óútséð, hvort sjómenn telja sig geta lotið að slíku tilboði. Það hefir verið stefna verkalýðsins hér, síðan hann myndaði fyrst samtök sín, að láta ekki tildæma sér kaup.

Þá vík ég að gerðardómum á Norðurlöndum, sem hæstv. forsrh. vitnaði í. Er hér ólíku saman að jafna um gerðardóma þá, sem settir voru á árunum 1915–1920 af borgaralegum flokkum, og þeirri löggildingu á kaupgjaldi, sem átt hefir sér stað í Danmörku á síðari árum. Þar er ekki um neinn gerðardóm að ræða. En þegar gerðardómar hafa verið settir á Norðurlöndum að undanförnu, hefir verkalýðurinn beygt sig undir þá, og það myndum við einnig geta gert hér á landi, ef sá gerðardómur, sem um væri að ræða, væri settur af verkalýðsstjórn. Niðurstöður slíks dóms eru mjög háðar þeirri stj., sem við völd er í hvert sinn. Úrskurðir gerðardóma í Danmörku hafa alltaf verið verkalýðnum í vil. En eru líkur til, að þessi gerðardómur yrði það? Ef litið er á sáttan., þá eru líkur til, að hún standi ekki fjarri hugarfari þeirrar stj., er nú vill gerðardóm. Hér er stigmunur á gerðardómi borgaralegrar stj., sem hefir lýst sig andvíga allri kauphækkun til verkamanna.

Sama er að segja um Norðmenu. Þeir hafa lengi verið taldir róttækastir í sinni pólitík af öllum Norðurlandaþjóðum. Þarf enginn að ætla, að verkalýðurinn treysti ekki gerðardómi, sem Nygárdsvold kemur á, til þess að dæma sér ekki í óhag. Þetta er sá mikli stigmunur, sem er á gerðardómi þeim, sem hér er í ráði að koma á, og gerðardómum þeim, sem settir hafa verið á Norðurlöndum. Maður hefir fulla ástæðu til að ætla, að dómur þessa gerðardóms fari ekki langt frá niðurstöðum sáttan.

Ég skal vera hæstv. forsrh. sammála um, að full nauðsyn er á að beita þingvaldi til þess, að atvinnufyrirtækin geti gengið. Og ég er honum sammála um, að nú er kominn sá tími, að eðlilegt væri, að skipin færu úr höfn, ef allt væri með felldu. En þessi deila útgerðarmanna virðist aðallega vera við ríkisstj. og þingmeirihl. Deilan virðist aðeins vera að litlu leyti við sjómennina. Þá er spurningin: Á að leysa þessa deilu á kostnað hins vinnandi fólks? Því er ég mótfallinn. Auk þess er ég af princip-ástæðum mótfallinn lögþvinguðum dómi í kanpgjaldsmálum. Hinsvegar lit ég svo á, að till. okkar alþýðuflokksmanna geti leyst málið fyrir líðandi stund. Það getur verið, að hæstv. ráðh. spyrji, hvað verði þá um hinar deilurnar. Ég álít nú, að því fyrr sem skipin fari úr höfn á saltfisksveiðar, því mínni líkur séu til þess, að til komi, að síldveiðarnar verði stöðvaðar, því að ef síldarverðið verður ekki hærra en útlit er fyrir nú, eru ekki líkur til, að allur togaraflotinn fari á síldveiðar, og er þá ekki sennilegt, að sjómenn fari fram á kauphækkun. Um ísfisksveiðarnar er sama máli að gegna. Ég er viss um, að eftir að skipin eru komin út, er hægara að leysa málið. Hin deilan, sem nú er í uppsiglingu, er þessu alveg óviðkomandi. En ef fara á að leysa þessa deilu með gerðardómi, verður líklega reynt að fara eins að um hina, og fer því skörin að færast upp í bekkinn. Ég hefi þá skoðun, að sú deila muni ekki verða mjög harðvítug, nema pólitísk öfl kunni að grípa þar inn í. Ég þekki dálítið meira til þessara mála en hæstv. ráðh., og ég get fullyrt, að þessi hræðsla hans er ekkert annað en nokkurskonar hysteri.

Ég ætla ekki á þessu stigi málsins að fara út í form frv. Ég býst við, að hér hafi verið farið eftir þeim reglum, er tíðkazt hafa í nágrannalöndunum, þegar gerðardómar hafa verið skipaðir. Mun ég geyma mér gagnrýni um þetta til 2. umr.

Ég hefi nú skýrt frá minni skoðun á gerðardómum og því, hvernig verkalýðurinn lítur á þá gerðardóma, sem skipaðir eru af borgaralegum stjórnum. Ég býst við því, að ef hér hefði setið að völdum jafnaðarmannastj„ þá hefði aldrei komið til þessa gerðardóms.

Ég vil að síðustu aðeins segja það, að mér þykir vöskum drengjum, sem eru lofaðir jafnt hér sem annarsstaðar fyrir dugnað, ósérplægni og leikni í störfum, fyrir að vera afkastameiri fiskimenn en aðrir, þó að viða sé leitað, illa launað af þjóðfélaginn með því að þeim séu skömmtuð kjör, sem sennilega þýða það, að afkoma þeirra verður mjög svipuð því, sem nú er. Því að hæstv. ráðh. getur engar tryggingar gefið fyrir því, að þessi stétt fái þær launabætur, sem henni ber að fá. Enda býst ég við, að hans flokkur hafi þá afstöðu, að óviturlegt sé að dæma sjómönnum launabætur sem nokkru nemi. En þegar þess er gætt, að dýrtið vex, og skattar og tollar hækka og öðrum stéttum eru veittar ívilnanir, að ógleymdri bændastéttinni, er veitt hefir verið hærra verð fyrir kjöt og mjólk, sem ég tel ekki eftir — þá mætti ætla, að þeir, sem hafa skilning á því að bæta þyrfti hag bænda og hafa fengið því framgengt með okkar hjálp, hefðu líka slíkan skilning á þörfum sjómanna.

Ég mun af framangreindum ástæðum greiða atkv. á móti frv. En mér er það hinsvegar ljóst, að þó að ég andmæli málinu nú, þá er það aðeins til þess að staðfesta með dómi sögunnar, hvernig því hafi verið tekið af þeim fáu mönnum, sem andmæla því hér, því að málinu mun ætlaður framgangur.

En ég vona, að íslenzkur verkalýður beri sömu gæfu til að hrinda af sér borgaralegum gerðardómi sem í Noregi, Svíþjóð og annarsstaðar, og ef þetta frv. getur orðið til þess, þá er ef til vill fengur að því frá sjónarmiði einhverra. En ég tel þó ekki, að neinn fengur geti að því orðið, því að tilgangur sjómannastéttarinnar var að afla sér kjarabóta, meiri en slíkur dómur myndi dæma henni.