17.03.1938
Neðri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 416 í B-deild Alþingistíðinda. (349)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Forsrh. (Hermann Jónasson):

Herra forseti ! Þetta mál, sem lagt er hér fyrir þessa hv. þd., hefi ég í dag reifað í hv. Ed., og sé ég ekki ástæðu til að endurtaka mikið af því, sem ég sagði þá. Hinsvegar vil ég taka til athugunar nokkuð almennt þær aths., sem fram hafa komið viðvíkjandi því að skipa gerðardóm til þess að útkljá þá deilu, sem þetta frv. er sprottið upp af.

Af þeim, sem hafa andmælt þessu frv., hefir því fyrst og fremst verið haldið fram, að verkfallsrétturinn og réttur einstaklinga til þess að semja um sín deilumál sjálfir sé svo heilagur réttur, að hann megi ekki skerða. Ég hefi í framsöguræðu mínni í hv. Ed. í dag lýst því yfir, að við viðurkennum þennan rétt. En ég hefi samskonar afstöðu gagnvart þessum rétti eins og einn maður meðal þeirrar þjóðar, sem sennilega hefir viðurkennt mest af frjálslyndi af öllum þjóðum, og verið þar í forustu, að vissulega er samningsréttur hvers einstaklings og hverrar stéttar helgur, eins og haldið hefir verið fram í þessum umr. Þó er einn réttur heilagri heldur en þessi réttur einstaklinga og stétta, og það er réttur þjóðfélagsins til þess að fá að lifa. Þess vegna er það, að það, sem hefir orsakað það, að nágrannaþjóðir okkar, sem hafa gefið einstaklingunum mest frelsi og bezt hafa verndað samningsrétt og annan rétt einstaklinganna, þær hafa á alvarlegum augnablikum, þegar líf heildarinnar hefir verið í veði, orðið að láta þennan samningsrétt einstaklinganna víkja fyrir rétti heildarinnar til að fá að lifa, nákvæmlega eins og lagt er til í þessu frv. Radikalir, vinstri jafnaðarmenn og kommúnistar í Noregi hafa orðið að horfast í augu við þennan rétt einstaklinganna víkja fyrir rétti heildarinnar til þess að geta lifað. Ég benti á þrjú dæmi frá Danmörku, þar sem jafnaðarmenn hafa einnig orðið að gripa til þess sama. Ég benti á Frakkland, þar sem kommúnistar og jafnaðarmenn hafa einnig orðið að gripa til þess sama. Í öllum þessum tilfellum, í öllum þeim kringumstæðum sem þar hefir verið um að ræða, hefir sá voði, sem þar hefir verið á ferð, ekki verið nema svolítið brot af þeim voða, sem vofir yfir okkur út af þessu verkfalli. Ég nefni sem dæmi, að nú nýlega var stöðvaður flutningur til Norður-Noregs, og leit út fyrir, að ekki yrði hægt að flytja matvæli og veiðarfæri til sjómanna þar. Þetta var lagt í gerðardóm, og það var samþ., að svo skyldi gera, með atkv. hvers einasta þingmanns á löggjafarþingi Norðmanna. Og þó er Lofotenveiðin, sem þar var í veði, Norðmönnum ekki nema örlítið brot af því, sem saltfisksveiðin er fyrir okkur. Lofotenveiðin skiptir að vísu nokkrum tugum millj. í útflutningi fyrir Norðmenn. En það er sáralítið brot hjá þjóð, sem hefir haft 800 millj. í tekjur af flutningum á skipum sínum. Þó hafa þeir sett um þetta löggjöf, eins og hér er gert ráð fyrir, án þess að nokkur þm. í norska þinginu hafi mótmælt því, heldur greiddu þeir allir atkv. með þeim l.

Hér í þessu landi er af sumum mönnum reynt að andmæla þessu máli, án þess að af þeim sömu mönnum hafi verið hægt að benda á aðrar leiðir til að leysa deilumálið — ekki aðrar leiðir en að láta sultinn og neyðina skera úr, sem er of dýrt fyrir þjóðina. Eg hefi nýlega beðið um að fá þetta frv., sem ég gat um, að samþ. hefði verið í norska þinginu og úrklippur úr blöðum, þar sem skrifað hefði verið um þetta mál. Fulltrúi ríkisstj. í Osló sendi úrklippurnar. Þær eru þetta, og annað var þar ekki skrifað í blöðunum um þetta mál.

Þetta mál vakti sem sé enga athygli í norskum blöðum né gagnrýni. Svo sjálfsagt þótti það að setja þessi l. þar til þess að firra norsku þjóðina vandræðum út af þessu deilumáli. Og þannig er þetta málafgr. í Noregi, og það er gert meira að segja af jafnaðarmannastjórn. Það er sett í l., að hver einasta deila, sem risa kann í sambandi við þessa deilu, skuli samstundis einnig lögð í gerðardóm. Og svo, þegar þetta allt er í veði hér hjá okkur, saltfisksveiðarnar, og þegar enga aðra leið hefir verið hægt að benda á til lausnar þessari deilu. þá mæla ýmsir hv. þm. á móti þessari leið. Það hefir að vísu verið talað um, að þessi aðferð væri dálítið önnur, þar sem jafnaðarmenn réðu og gætu skipað meiri hl. í dóminn sjálfir. En ég vil benda á, að í þeim þremur tilfellum, sem þessi aðferð hefir verið höfð í vinnudeilum í Danmörku, þá hefir verið nefnt í dóminn á alveg hliðstæðan hátt og ætlazt er til, að verði nefnt í hann hér. Í Noregi, þar sem þetta hefir verið gert, er það rétt, að vísu, að forsrh. útnefndi menn í dóminn. En það er upplýst mál, að þar er í dóminum einn maður frá vinstri flokknum, einn bændaflokksmaður og einn jafnaðarmaður. Forsrh. jafnaðarmanna sættir sig þannig við, að tveir menn úr öðrum flokkum heldur en hans eigin, bændaflokknum og vinstri flokknum, og maður frá atvinnurekendum, hafi meiri hl. í dóminum.

Í Frakklandi er þessu öðruvísi háttað. Þar nefndi forsrh. oddamann í dóminn 1936, sem jafnaðarmenn og komm. urðu að gripa til þar.

Nú er sagt af þeim mönnum, sem andmæla þessu máli: Að vísu er það rétt, að í einstaka kringumstæðum getur verið nauðsynlegt að skerða samningsréttinn vegna nauðsynjar heildarinnar; en þá eru það okkar flokksmenn, sem eiga að nefna í dóminn, okkar ráðh., og það er sá eini dómur, sem við viljum hlíta. Halda hv. þdm., að það sé tilviljun ein, að Nygaardsvold og Stauning hafa ekki tekið upp þessa leið, sem jafnaðarmenn hér tala um, heldur hlutlausu leiðina? Nei, slíkt er ekki tilviljun, því að það er ekki fær nein önnur leið í lýðfrjálsu landi. Ef bent er á, að verkamenn vilji ekki hlíta gerðardómi, nema þeirra eigin menn nefni a. m. k. meiri hl. í dóminn, hvað mætti þá í samræmi við það búast við, að yrði gert, ef þeir, sem eru andstæðingar stjórnarinnar í dag, fara með völdin á morgun og stofna þá til slíks dóms, en andstæðingar valdhafanna þá neita að hlíta þeim gerðardóm? Ef svona háttur væri upp tekinn, yrði útilokað, að hægt væri að nota gerðardóm, vegna þess að þá hlíta aldrei stjórnarandstæðingar dóminum. En ef flokkar nefndu menn í gerðardóma, þegar þeir væru við völd, hvaða réttarfar væri þá verið að innleiða í þjóðfélaginu? Það er hnefarétturinn, réttur þess sterkasta, sem hefir meiri hl. á hverjum tíma. Ef á að halda því fram, að það sé betra dómsvald, — hvers vegna á þá ekki að leggja dómsvaldið undir slíka dóma? En hvaða maður á þessu landi mundi vilja horfast í augu við það réttarfar nú, það réttarfar, sem við heyrum um og lesum um í blöðum frá einræðisríkjunum þessa dagana? Ef þess vegna væri farin sú leið, sem andstæðingar þessa máls benda á, að það ætti ekki að skipa gerðardóm, nema þegar hægt væri að skipa í hann eftir vissum, tilteknum pólitískum línum, og þá ætti að hlýða honum, þá væri gengið inn á svo voðalegt fordæmi um skipun gerðardóma, að slíkt væri engu lagi líkt. Því að ef ein stjórn gerði sig seka um slíkt, mundi vitanlega sú stjórn, sem næst færi með völd á eftir, nota samskonar réttarfar. Alveg sama máli gegnir um að lögfesta tillögur annars deiluaðiljans.

Ef hér er skapað hættulegt fordæmi með því að skipa hlutlausan gerðardóm, hversu voðalegt yrði þá það fordæmi, sem gefið yrði af Alþ., ef ætti að láta flokksstjórnir nefna menn í dóminn eftir því, hver flokkur er í meiri hl. hér í þessum sölum? Nei, það er einmitt af því, að hyggnir stjórnmálamenn, eins og Nygaardsvold og Stauning, hafa séð, hvað slíkt er hættulegt fyrir verkamennina sjálfa, að þeir hafa farið þá leið að láta skipa hlutlausan gerðardóm.

Það er upplýst í þessu máli, að það hefir ekki verið hægt að benda á neina leið til þess að leysa það. Þess vegna eiga menn um það að velja, hvort við í þessu þjóðfélagi eigum að lita öðruvísi á málið heldur en frjálslyndustu nágrannaþjóðir okkar, og hvort við eigum að láta þetta þjóðfélag, sem við lifum í, liða neyð og hörmungar vegna þess, að rétt 500 manna á aðra hliðina og 30 manna á hina hliðina til þess að deila eigi að virða meira heldur en heill heildarinnar og vilja Alþ. til að sætta. Og þegar ekki liggur fyrir annað en þessi leið, sem frv. gerir ráð fyrir, þá staðhæfi ég það, að með þeim hæstarétti, sem við höfum, þá er ómögulegt að búa örugglegar um gerðardóm en hér er gert ráð fyrir, og að þetta sé eina liðin til að skipa í gerðardóm fyrir okkur, ef við viljum lifa eftir siðaðra manna reglum. Og ég lýsti eftir því í upphafi þessa máls hér á þingi, þegar allir flokkar þingsins viðurkenndu, að aðkallandi nauðsyn væri á að leysa þetta deilumál nú, þegar útlendir togarar, hver eftir annan, koma hlaðnir inn í Reykjavíkurhöfn, og þegar fiskur er að koma inn á aðaltogaramiðin, og þegar spurningin er, hvort við eigum heldur að þola þetta ástand í togaraútgerð okkar eða taka þessa leið, sem í frv. er lagt til, að farin verði, — ég lýsti þá eftir annari till. til lausnar deilumálinu. En engar frambærilegar till. aðrar eru komnar fram til úrlausnar þessu vandamáli. Hvað er þá annað að gera í þessu máli en að samþ. frv.? Hér í þessu frv. hefir verið reynt að búa eins tryggilega um þessi mál eins og síðuðu þjóðfélagi sæmir.