17.03.1938
Neðri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 419 í B-deild Alþingistíðinda. (350)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Atvmrh. (Haraldur Guðmundsson):

Hæstv. forsrh. lauk máli sínu með því að spyrja: Hvar er lausnin? Hann kvaðst hafa lýst eftir annari lausn í hv. Ed. en komið hefði fram. Mig furðar mjög á þessum ummælum hæstv. forsrh. Ég veit ekki betur en að frv. Alþfl. um lausn þessa deilumáls, sem er að öllu leyti skaplegra en þetta frv., sem liggur hér fyrir, hafi af hæstv. forsrh. m. a. verið vísað til n., svo að fyrir liggur bein krafa um lausn þessa máls. Samt lýkur hæstv. forsrh. ræðu sinni með slíkum ummælum. Það er að loka augunum fyrir staðreyndum. Ég tel, að sú lausn, sem bent er á í frv. Alþfl., sé eftir atvikum eina færa leiðin, sem ég hefi komið auga á. Ég er sammála hæstv. forsrh. um það, að Alþingi getur ekki setið aðgerðalaust og látið togarana liggja í höfn, sjómenn ganga atvinnulausa, ríkið komast í fjárþrot og atvinnuleysi magnast í landinu. Ég játa það, að Alþingi getur ekki látið þetta mál afskiptalaust, en ég tel, að sú lausn, sem felst í frv. hæstv. forsrh., sé ekki fær, af því að aðrar leiðir eru til. Hér hefir verið boðin fram önnur leið, sú að lögbjóða till. sáttasemjara á saltfisksveiðum aðeins. Það er enginn annar voði yfirvofandi en sá, að skipin fari ekki á saltfisksveiðar. Það liggur ekkert fyrir um, að ekki verði gert út á síld í sumar. Og enn fjær ísfisksveiðarnar. Ég játa, að það getur staðið svo á, og það er einmitt svo nú, að ekki er hægt að láta þetta mál afskiptalaust, en Alþingi verður að gæta þess vel að ganga ekki feti framar en aðkallandi nauðsyn ber til.

Annað atriði skiptir líka miklu máli. Að afskipti Alþingis, hver sem þau eru, tryggi virkilega lausn deilunnar. Ég hefi spurt hæstv. forsrh., hvort hann teldi, að lausn deilunnar væri tryggð með þessu frv. Hann svaraði, að hann teldi sjálfsagt, að borgararnir beygðu sig fyrir lögunum. Ég skal ekki um það segja, en ég vil benda á þá staðreynd, að tili. sáttasemjara voru ekki samþ. af útgerðarmönnum. Skilyrði þeirra er, að Alþingi, ríkisstjórn og bæjarstjórnir verði við kröfum þeirra útgerðarmanna. Ekkert liggur fyrir frá þeim um, að þeir séu fallnir frá því skilyrði. Liggur fyrir nokkur yfirlýsing frá þeim um, að skip þeirra fari út, þó að deilan við sjómenn verði leyst?

Á fundi, sjómannafélagsins var m. a. samþ. með öllum greiddum atkv. till. um á manna n. til að leita enn samninga við útgerðarmenn og mótmæli gegn gerðardómi á þessu stigi málsins. Telur Alþingi, að svo mikið liggi á, að það eigi alveg fram hjá þessu að ganga? Má ekki fresta málinn um stund og athuga, hvort sú leið sé ekki fær, og halda jafnframt áfram sáttatilraunum, og ef þær bera árangur, þá að láta niður falla að ákveða með l. kjör á skipunum? Þetta tel ég þá einu lausn, sem Alþingi er sæmandi. Það er engin aðkallandi nauðsyn um síld- og ísfisksveiðarnar, heldur aðeins um saltfisksveiðarnar.

Hæstv. forsrh. hefir sagt, að það geti risið upp deila á síldinni í sumar, og þá væri ekkert þing. En það hefir nú oft skeð, að deilur hafa verið í aðsigi eða framundan, án þess að farið væri að mæta þeim löngu áður. Mér er sagt, að fleiri deilur séu í aðsigi, t. d. um síldarverksmiðjuna á Siglufirði. Það er líka mjög alvarlegt mál. Ef hæstv. frsrh. telur alveg nauðsynlegt að setja gerðardóm nú, liggur þá ekki eins nærri að telja nauðsynlegt að leysa hina deiluna á sama hátt? Og hvert er þá stefnt?

Hæstv. forsrh. sagði í ræðu sinni, að sú skipun dómsins, sem gert væri ráð fyrir í frv., nefnilega, að hæstiréttur hefði þar fullkomna meirihlutaaðstöðu, væri sú eina eðlilega og tryggði fyllsta hlutleysi. Hæstv. ráðh. sagði líka, að forsætisráðh. í Noregi, Nygaardsvold, hefði fengið samþ. í norska þinginu l. um gerðardóm til þess að leysa flutningadeiluna í Noregi. Það er rétt, en hitt er ekki rétt, að Nygaardsvold hafi fallizt á, að það væri óeðlilegt, að pólitískur ráðh. tilnefndi menn í dóminn, því að dómurinn í Noregi var skipaður að meiri hluta af forsrh. sjálfum, en ekki af dómstólum landsins. Þetta veit hæstv. forsrh., að er rétt. Hæstv. ráðh. telur þetta mikinn háska, því að ef skipun dómsins sé undir þessum pólitíska aðilja komin, skipi ráðandi stj. jafnan dóminn með tilliti til sinnar pólitísku aðstöðu, en skipun dómsins í Noregi bendir ekki til þess. Hann var skipaður af 3 stjórnmálaflokkum í landinu, en því verður ekki neitað, að við val hans var tekið tillit til þess, að sjónarmið beggja væru jafnvel tryggð. Það er rétt, að verkalýðurinn er tortrygginn á, að með skipun dóms, eins og gert er ráð fyrir hér í frv., sé hægt að tryggja hlutlausa oddastöðu. Ég tel það eðlilegt; aðstaða verkamanna er svo veik, að óhjákvæmilegt er, ef dómstóll dæmir um þeirra líf og brauð, að tryggt sé, að sjónarmið þeirra sé fullkomlega metið af þeim dómi. Ég verð að draga í efa, að þetta frv. mundi tryggja þetta.

Það virðist svo sem örlög þessa frv. séu ráðin hér. Sjálfstfl. hefir lýst yfir fylgi sínu við það. Eitt ákvæði í frv. var formælendum Sjálfstfl. þyrnir í augum, og það er engin tilviljun, að það er einmitt eina ákvæðið, sem nokkur trygging er í fyrir verkalýðinn, nefnilega, að dómurinn dæmi skipverjum ekki lakari kjör en samkv. samningi þeim, er gilti til ársloka 1937. Þetta vildu sjálfstæðismenn ekki láta standa, og brtt. kom fram um að fella það burt. Mér finnst þetta gefa lærdómsríka vísbendingu um áframhaldandi samvinnu Framsfl. og Sjálfstfl. í þessum málum. Alþfl. hefir bent á lausn í málinu, sem tryggir betur, að tilætlunin náist, að skipin fari út, og hæstv. forsrh. segir, að það sé það eina, sem fyrir sér vaki.

Samstarfsflokkar verða að taka tillit hvor til annars, ef þeir eiga að geta starfað saman; annars er samstarfið gert ómögulegt. Hvenær sem ágreiningur risi, yrði að leita stuðnings hjá andstöðuflokkunum. Þetta hefir Framsfl. gert gagnvart Alþfl., bæði nú og t. d. á síðasta þingi viðvíkjandi l. um síldarbræðsluverksmiðjur ríkisins. Nú ætlar þetta að verða aftur í enn stærra máli. Alþýðufl. vill ekki þola það og telur, að ef þetta frv. verði að l., sjái hann ekki annað fært en að draga sinn ráðh. úr ríkisstj. Þetta hefi ég tilkynnt hæstv. forsrh. í dag. Ég harma það mjög, að til þessa þurfti að koma. Ég hefi trú á, að Alþfl. og Framsfl. geti unnið saman, að til sé sá grundvöllur, sem getur sameinað verkamenn og bændur um hagsmunamál beggja stéttanna. Ef Framsfl. gengur til samstarfs við íhaldið og hafnar tilboði Alþfl., endurtek ég hér með þá tilkynningu mína til hæstv. forsrh., að Alþfl. mun draga sinn ráðh. út úr ríkisstj., verði frv. þetta samþ.