17.03.1938
Neðri deild: 24. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (354)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Héðinn Valdimarsson:

Það er nú orðið nokkuð áliðið, og mun ég því ekki tala eins lengi eins og ég hefði kosið.

Ég vil þó fyrst minnast á það, að um þetta leyti í fyrra voru útgerðarmálin líka á dagskrá. Þá kom Alþfl. fram með þrjú frv. Eitt um skuldaskil Kveldúlfs, annað um stuðning við togaraútgerðina og hið þriðja um viðreisn sjávarútvegsins. Með þessum frv. var ætlazt til þess. að skapaður yrði heilbrigður grundvöllur fyrir atvinnu manna við sjóinn, sjómanna og verkamanna. Það var nú tekið í þau mál, eins og þingheimur minnist, á þann hátt, að viðvíkjandi skuldaskilum Kveldúlfs gekk Framsfl. algerlega ofan í sína stefnu um það mál, og gekk inn á það, að láta Landsbankann halda áfram að reka það fyrirtæki á sama hátt og áður; en út af hinum málunum varð þingrofið og nýjar kosningar.

Nú standa málin þannig. að mestu vandræðin þá, hve illa útgerðin stæði sig, þau vandræði eru enn þann dag í dag. — Þá var sagt, að bankarnir ættu að leysa þetta mál án afskipta þingsins. Í Landsbankanum, aðalbanka þjóðarinnar, sem ræður líka í raun og veru yfir fjármunum í hinum bönkunum, sitja þeir formenn Sjálfstfl. og Framsfl. Þeir hafa átt að leysa þessi mál. Þeir hafa ekki leyst þau. Ef þessi mál hefðu verið leyst í fyrra, þegar Alþfl. kom fram með þessi frv., væri þessi sjómannadeila sjálfsagt ekki nú. Nú er svo komið, að raunverulegi aðilinn, sem deilt er við, er ekki sjómenn og ekki útgerðarmenn, heldur bankarnir, og þar formenn beggja flokkanna, JJ og ÓTh, sem ráða. Allt hitt, hvað botnvörpuskipaeigendur segja í þessum efnum, getur ekki verið með leyfi bankaráðanna, því að mjög fáir af útgerðarmönnum eiga nokkurn skapaðan hlut í skipunum. Þeir verða að fá lán í bönkunum og verða að gera út eða ekki eftir því, sem bankarnir segja þeim. Það eru þess vegna tveir menn fyrst og fremst, sem bera ábyrgð á því, hvernig fer í þessari deilu, þeir ÓTh og JJ, sömu mennirnir sem hafa verið að reyna að nálga þessa tvo flokka, Framsfl. og Sjálfstfl., og virðist vera að takast það.

Hér er verið að setja löggjöf um það, hvert kaupið skuli vera, sett ákvæði um gerðardóm, sem skammti sjómönnum kaupið. Við vitum það vel, að það er enginn grundvöllur fyrir þessa menn til að ákveða, hvert kaupið skuli vera, ef farið yrði eftir þörfum sjómanna, yrði farið hærra en þær kröfur eru, sem þeir hafa gert, og ef farið yrði eftir því, sem verstu fyrirtækin eru stæð, þá yrði kaupið ákveðið langt þar fyrir sem þeir menn, sem settir væru til að dæma. kæmu til með að ákveða. Ekkert annað en það vakir þarna fyrir en að ráðast á verklýðssamtökin og að brjóta niður þau vígi, sem þau hafa skapað sér.

Það vita allir, sem við verkllýðsmál hafa fengizt, að það, sem þeim mönnum, sem í verklýðsfélögunum eru, þykir dýrmætast, er rétturinn til að standa saman til þess að ákveða sín kjör á lýðræðislegan hátt. Það er ekki lengur gert hér, heldur á að skipa nokkra menn til að ákveða, hvaða kaupi þetta fólk á að vinna fyrir. Og þegar byrjað er á þessu með sjómennina, hver er þá endirinn? Nú koma vegavinnumenn með sínar kröfur um samninga væntanlega í vor, félögin norðanlands væntanlega í sumar og þá væri alltaf hægt að nota sömu ástæðuna til að ákveða kaupið.

Það er búið að skýra það vel af mörgum, sem talað hafa í dag í báðum deildum, að með þessu frv. er engin trygging fyrir því. að útgerðarmenn geri út, hvorki á síld eða þorsk. svo að þetta er engin trygging fyrir sjómenn, aðeins skylda fyrir þá að lúta því boði, sem kemur samkv. dómnum.

Hæstv. fjmrh. gat um það, að ekki væri hægt að fara þá leið, að leysa þetta mál í gegnum bankana. Það væri að taka málstað annars aðiljans. Ég verð að neita þessu algerlega. Aðiljarnir, sem hér er um að ræða, eru í raun og veru bankarnir annarsvegar; sem eru opinberar stofnanir og undir yfirstjórn þingsins, og hinsvegar sjómennirnir, og það á að liggja þinginu þungt á hjarta, að þeir fái boðleg kjör og atvinnu. En frv. tryggir á engan hátt atvinnu manna, en það er hægt að gera á hinn veginn með því að fara bankaleiðina. Þess vegna hefi ég, ásamt tveimur öðrum hv. þm. í þessari d., flutt frv., sem hefir verið útbýtt í dag, sama frv. og Alþfl. flutti á vorþinginn 1937, um breyt. á bankal., þannig að hægt sá að skipa bankaráð Landsbankans og bankanefndina í samræmi við vilja þingsins. Ef vilji Framsfl. er fyrir hendi, þá er hægt að framkvæma þá lausn á þessum málum, sem heppilegust er fyrir landið í heild; þá er líka hægt að gera það verk, sem Framsfl. hefði að sjálfsögðu átt að vinna, en hans fulltrúar í bankaráðinu hafa ekki gert, að koma togaraútgerðinni á heilbrigðan grundvöll í gegnum bankaráð Landsbankans.

Við höfum setið hér alllengi á þingi, og hefir lítið verið aðhafzt hingað til. Ég sé ekki, að á þessu þingi sé verið að gera neitt fyrir verkalýðinn annað en það, sem nú er verið að ákveða í sambandi við sjómannadeiluna, og hinsvegar vinnulöggjafarfrv., sem ýmist eru komin fram eða í undirbúningi af hálfu Framsfl.

Það virðist, sem úr þessu muni verða stjórnarkreppa, ef málið nær þannig fram að ganga, og að þeim, sem mest hafa alið á sundrungu milli Framsfl. og Alþfl. muni ætla að takast það. En ég verð að segja, að ég er sannfærður um, að hvernig sem þessi mál skipast innan þingsins, þá muni einmitt um þessi mál öll og pólitíkina, sem um þau snýst, verða eining í verklýðsfélögunum í landinu. Ég hygg, að hv. þm. sé e. t. v. ekki eins vel kunnugt um það eins og þeim, sem starfað hafa innan verklýðsfélaganna, hve meðlimir þeirra eru sömu skoðunar um þessi mál, og hve þeir skoða það mikla kúgun, að setja gerðardóm gegn þeirra vilja, gerðardóm, sem fyrst kemur yfir sjómennina, en getur síðan komið yfir þær 16 þús. manna, sem í verklýðssamtökunum eru. Ég vil því, áður en þetta mál gengur til næstu umr., bera fram rökstudda dagskrá, ásamt hv. 5. landsk. og hv. 5. þm. Reykv., sem ég ætla að lesa hér upp, með leyfi forseta:

„Þar sem frv. leysir ekki deilumál sjómanna og útgerðarmanna né tryggir á neinn hátt áframhaldandi rekstur togaraútgerðarinnar, en er hinsvegar bein árás á viðurkennd réttindi verklýðssamtakanna og lýðfrelsið í landinu, og þar sem þingið einnig kemst ekki hjá því að taka útgerðar- og bankamálin í heild sinni til varanlegrar úrlausnar, vísar deildin þessu frv. frá og tekur fyrir næsta mál á dagskrá“.