17.03.1938
Neðri deild: 26. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 443 í B-deild Alþingistíðinda. (366)

68. mál, gerðardómur í togarakaupdeilu

*Einar Olgeirsson:

Hæstv. atvmrh. ræddi nokkuð um afstöðu verkalýðsflokkanna, Alþfl. og Kommfl., í sambandi við frv. það, sem liggur fyrir. Ég hefi látið svo um mælt, að þessir tveir flokkar myndu standa saman í baráttunni á móti þessum gerðardómi. Og það er þegar komið fram, því að sú barátta er háð þegar á þingi. Hinsvegar tók ég ekki sérstaklega til umræðu það mál, sem Alþfl, hefir borið fram í Ed. og ennþá liggur þar í salti — og alls ekki er hér til umr. —, að lögskipa þau kjör, sem sáttasemjari lagði seinast til, enda hefir Kommfl. þegar í hv. Ed. tekið afstöðu á móti því, eins og eðlilegt var, þar sem það stefnir í sömu átt og gerðardómur, þ. e. a. s. að lögþvinga kaup og kjör í einni atvinnugrein. Það er því samskonar brot á því „prinsipi“, sem við viljum halda við og varðveita, eins og gerðardómur er brot á því, þó að það gangi hinsvegar skemmra og yrði frekar viðunandi fyrir sjómenn, ef öðru hvoru ætti að una. En það felur hinsvegar ekki í sér frekari tryggingu fyrir því, að gert sé út. Kommfl. stendur alveg eindregið á móti hverskonar lögþvingunum, sem beitt er gegn verkalýðnum í baráttu hans um sæmileg kjör og kauphækkanir. Og mér er nær að ætla, að þrátt fyrir frv., sem Alþfl. bar fram í Ed., hafi hæstv. atvmrh. ennþá trú á því, að hægt væri að leysa þetta mál án lögþvingunar — líka án frv. Alþfl. —, ef gæfist frestur til þess að geta rætt við sjómenn almennilega viðvíkjandi því. Ég held það sé ekki fullkomlega skoðun hæstv. atvmrh., að það sé enga aðra leið að fara en aðra hvora þessa lögþvingunarleið, — að ekki sé hægt að komast að samningum á eðlilegan hátt með samkomulagi við sjómenn. Ég verð að segja í því sambandi, að það er engum efa bundið, að við kommúnistar höfum gert það, sem við höfum getað, á þessum fundum, sem haldnir hafa verið í sjómannafélaginu, til þess að reyna að fá fram einhverjar slíkar till. til sátta, sem hægt væri að ganga að. Seinast á fundinum í kvöld var borin fram af hendi Kommfl. till. um það, að sjómannafélagið gengi inn á till. sáttasemjara eins og hún var, að því viðbættu, að annaðhvort hækkaði premian ofurlítið á síldinni eða að tryggð yrði útgerð í 6–8 vikur á saltfisksvertíðinni. Ég held að ég megi fullyrða, að þessi till. hafi átt fylgi meiri hl. allra fundarmanna, og ef fundur yrði haldinn aftur í sjómannafélaginu, þá yrði reynt til fulls, hvort ekki væri hægt að fá sjómenn til að gera tilboð um eðlilega lausn á þessari deilu. Og þá væri ekki amalegt fyrir stj. að fá tryggt, að saltfisksvertíðin yrði 2 mán.

Ég verð að segja, að þessi afgreiðsla málsins er ekki til þess fallin að auka virðingu þjóðarinnar fyrir þinginn. Við höfum nú setið hér í einn mánuð og lítið verið gert. Fundir hafa staðið í 15–20 mín., stundum einn klukkutíma á dag; aðallega verið framkvæmt að vísa málum til n. Og ef verið hefir um að ræða einhver mál til hagsbóta fyrir verkalýðinn, þá er óhugsandi, að þau mál fáist úr n. aftur. Nú er hér komið mál, sem verkalýðurinn er á móti. Það er ekki rætt í einar 20 mín. og síðan vísað til n. Nú er ómögulegt að fá að athuga málið í n., þótt ekki væri nema nokkra klukku tíma. Í þessu frv. felst þó skipun gerðardóms, sem á að rannsaka viðvíkjandi kaupi og kjörum, til þess að hann geti kveðið upp sinn dóm. Það á að gefa þessum mönnum þó nokkurra daga frest, en það á að pína málið gegnum þingið á 12 tímum. Það má ekki fara í n. í þinginu; þó að annar stjórnarflokkurinn og ráðh. hans biðji um hálfs eða eins sólarhrings frest, þá er ekki nærri því komandi. Ég er hræddur um, að verkalýðurinn á Íslandi fái ekki aukna virðingu fyrir þingi, sem hundsar þannig hverja einustu till., sem fram kemur.

Við kommúnistar höfum í tvö skipti flutt till. um, að lagfært yrði það, sem aflaga fer um greiðslu verkkaups. Það eru sömu till. og þær, sem Skúli Thoroddsen bar fram fyrir 30 árum, en það er ekki nálægt því komandi, að hægt sé að fá hv. þm. til að segja álit sitt á því. Þá er einkennilegt, þegar fram kemur frv., sem fer í bága við réttindi verkalýðsins, þá er það keyrt í gegnum þingið á 12 tímum, enda verður lítið um málsvarnir af hendi þeirra manna, sem fegnastir eru þessu máli, en það eru sjálfstæðismenn. Þeir nudda nú saman höndunum af ánægju, einkum þó hv. þm. G.-K., og ég veit, að framsóknarmenn fylgja málinu ekki með eins glöðu geði og sjálfstæðismenn, enda hefir formaður Sjálfstfl. ekki treyst sér til að verja þá afstöðu, sem útgerðarmenn eða Sjálfstfl. hafa í togaradeilunni.

Þá minntist hæstv. forsrh. á það í svari sínu til hæstv. atvmrh., þar sem hann bað um frest í málinu, að það væri opin leið fyrir báða aðilja að semja, þó að búið væri að setja l. um gerðardóm. En ég vil bara spyrja hæstv. ráðh.: Dettur honum í hug, að togaraútgerðarmenn fáist til að semja við sjómenn eftir að þeir eru búnir að fá gerðardóm upp á höndina? Það dettur þeim ekki í hug. Þeir vilja fá gerðardóm, til þess að þeir þurfi ekki að semja, og til þess vilja þeir nota Alþingi sem fótatusku fyrir sig. Það er ómögulegt fyrir sjómenn, eftir að búið er að setja l. um gerðardóm, að tryggja betri kjör við útgerðarmenn. Það eina, sem þeir gætu, væri að stræka á flotanum áfram, og flotinn færi ekki út. (Forsrh.: En ef þeir vita, að þeir fá l. á morgun)? Ef þeir fá 24 stunda frest, þá gera þeir síðustu tilraun til að leysa deiluna og losna við gerðardóminn. Það hefir verið sýnt greinilega fram á það hér, að það er ekki búið að þrautreyna allar leiðir til að leysa deiluna með samkomulagi.

Hæstv. forsrh. kom hér með tilvitnanir í önnur lönd. Margt má læra af tilvitnunum í önnur lönd. Fyrst minntist hann á Noreg. Einu sinni voru samþ. l. um vinnu, sem verkamenn kölluðu þrælalög. Þau urðu aldrei annað en máttlaust pappírsgagn. Og fyrst talað er um Frakkland, þá vil ég minna á, að þar hafa kommúnistar aðeins verið með þeim ákvæðum snertandi vinnulöggjöf, sem hafa verið til öryggis verkalýðnum gegn atvinnurekendum. En þegar um var að ræða að koma á samningum milli flokkanna, sem standa að frönsku stj., um mál eins og vinnulöggjöf, þá voru gerðar óvenjulegar ráðstafanir, eins og nú um mánaðamótin, þegar klukkan var stöðvuð og látin standa í meira en sólarhring og þingfundum haldið áfram og samræðum milli sósíalradikalflokksins. sem svarar til Framsfl. hér, og kommúnista og sósíalista. Ef hæstv. forsrh. vildi nú taka Chautemps sér til fyrirmyndar, þá ætti hann að vilja fresta þessu máli í 24 tíma. Hann þyrfti ekki einu sinni að stöðva klukkuna, hún mætti ganga. Ef hæstv. ráðh. vill vitna í útlönd, þá má kenna honum hitt og þetta. (TT: Hvernig er verkfallsrétturinn í Rússlandi?) Já, hvað yrði gert við togaraeigendur þar, ef þeir vildu gera stöðvun? En þar er búið að gera upp Kveldúlfana, svo að slíkt kemur ekki til. Hér er um það að ræða, hvort Framsfl. vill standa með vinnandi stéttunum eða þeirri litlu klíku, sem ennþá telur sig drottna yfir togaraútgerðinni.

Ég skal þá ekki fara fleiri orðum um þetta, en koma að því, hvernig á því stæði, að samvinna stjórnarflokkanna væri í hættu. Vildi hæstv. ráðh. þar koma einhverri sök á hendur kommúnistum. Hæstv. ráðh. vildi meina, að í sambandi við þessa deilu hefðum við komið með einhver yfirboð, elns og Jónas frá Hriflu orðar það, og neytt Alþfl. til að taka þá afstöðu, sem þeir hafa tekið. Hvaða afstöðu höfum við tekið í þessari deilu? Hæstv. ráðh. veit, að á þeim fundi sjómannafélagsins, þar sem ákveðið var að hækka þann taxta, sem gilt hefir, þá komum við fram með þá till., að sami taxti yrði látinn gilda áfram, nema tekin yrði upp barátta um kjörin á síldveiðunum. Ekki vorum við með yfirboð þar, því að þar voru aðrir með róttækari till. en við, þar sem lagt var til, að taxtinn skyldi hækkaður. Ekki vorum við kommúnistar þar að hræða Alþfl. til að fara út í eitthvað, sem var of róttækt. Og með þeirri till., sem einn af okkar félögum í sjómannafélaginu bar fram í kvöld, þar er einnig greinilega sýnt, hvað við kommúnistar viljum gera í þessu sambandi. En það, sem hefir vantað, er, að fulltrúar sjómannastéttarinnar væru sammála, og í öðru lagi hefir það vantað, að Framsfl. vildi taka tillit til sjómannastéttarinnar og sjómannafélagsins og semja við þau. Og í því sambandi komum við að því, hvar sökin liggur, hverjum það er að kenna, að spillzt hefir samkomulagið milli stjórnarflokkanna. Það hefir verið unnið að því leynt og ljóst af formanni Framsfl., hv. þm. S.- Þ., í hverju málinu á fætur öðru að reyna að fá samkomulag við Íhaldið. Og samtímis því hefir hann slegið í borðið og haldið uppi þeirri pólitík, að það næði engri átt að semja við báða verkalýðsflokkana; samstarf við Alþfl. kæmi ekki til mála, ef hann hefði samstarf við kommúnista. Nú er það vitanlegt, að Framsfl. hér á Íslandi gæti út frá sínu „prinsipi“ verið fullkomlega eins þekktur fyrir að hafa samvinnu við kommúnista eins og samsvarandi flokkar á Frakklandi eða Spáni. Ekkert „prinsip“ ætti að hindra það, að Framsfl. gæti haft samvinnu við þá flokka, sem íslenzkur verkalýður hefir myndað. Það, sem Kommfl. hefir lagt til málanna á síðasta þingi og þessu, er ekki svo róttækt, að ekki sé hægt fyrir hvern skynsaman borgaraflokk að ganga inn á það. Flokkurinn hefir stillt till. sínum svo í hóf, að ef Framsfl. vill stinga hendinni í eigin barm, þá sér hann, að okkar till. eru svipaðar þeim, sem hann flutti, þegar hann var í stjórnarandstöðu eða þegar kosningar voru fyrir dyrum. Það þarf því ekki að tala um, að við kommúnistar höfum verið með yfirboð, sem hafi gert stjórnarfl. erfitt fyrir. Það eina, sem hægt er að segja, er, að það hefir verið óánægja, ekki aðeins hjá Alþfl. mönnum, heldur einnig hjá mörgum kjósendum Framsfl., yfir þeirri pólitík, sem rekin hefir verið, og við höfum reynt að knýja fram breyt. á þeirri pólitík.

Það var því út í bláinn sagt, þegar hæstv. forsrh. er að tala um, að við kommúnistar höfum verið að reyna að spilla stjórnarsamvinnunni. En við höfum reynt að knýja fram pólitík, sem er í samræmi við kosningaloforð þeirra og stefnuskrá og vilja kjósendanna, sem hafa kosið þá á þetta þing. Ég álít því, að ástæðurnar fyrir því, að stjórnarsamvinnan springur, sé að finna í aðgerðum hægri arms Framsfl. annarsvegar og hinsvegar afstöðunni milli verkalýðsfélaganna innbyrðis. Við stöndum nú frammi fyrir því, að svo framarlega sem þetta frv. verður samþ., þá sé sú stjórnarsamvinna, sem staðið hefir undanfarið, búin að vera. Og þó að kjósendur Framsfl., Alþfl. og Kommfl. hafi látið í Ijós vilja sinn um róttækari stjórnarstefnu, þá er svo langt frá, að þær hafi verið framkvæmdar, að hér er þvert á móti stigið spor í öfuga átt. Og þá er vitanlegt, að ástandið er það alvarlegt, að fyrir þá menn, sem öll þessi ár, eins og ráðh. Framsfl., hafa staðið í þessari samvinnu og vita, hvernig stemningin er úti meðal kjósendanna, er það alvöruleysi að ætla sér að afgr. þetta mál, eins og nú lítur út fyrir að eigi að gera, í staðinn fyrir að velta þó ekki væri nema 21 tíma frest, svo að hægt væri að taka þetta mál fyrir einu sinni enn í sjómannafélaginu og reyna að fá eðlilega lausn á því.

Ég get ekki skilið það ofurkapp, sem lagt er á þetta mál, út frá neinu venjulegu sjónarmiði, en það hljóta að vera öfl frá hægra armi Framsfl., sem alltaf hafa viljað sundra stjórnarsamvinnunni. sem knýja svo á, til þess að nota tækifærið. Það þarf ekki annað en að líta framan í hv. form. Framsfl. Hægra brosið er komið yfir allt andlitið.