05.03.1938
Neðri deild: 15. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 447 í B-deild Alþingistíðinda. (369)

44. mál, tekjur bæjar- og sveitarfélaga

*Flm. (Sigurður E. Hlíðar):

Herra forseti ! Með l. um tekjur bæjar- og sveitarfélaga og eftirlit með fjárstjórn bæjar- og sveitarstjórna er heimilt að leggja árlega fastelgnaskatt á húseignir og önnur mannvirki, lóðir og lendur. Í 4. gr. l. eru gerðar ýmsar undantekningar, sem óþarfi er að telja hér upp, en ég sakna þar undanþágu til handa jarðræktartilraunastöðvum, sem reknar eru hér á landi með tilstyrk þess opinbera. Fyrir hendi liggur úrskurður atv.- og samgmrn. um, að upptalningin í 4. gr. f. sé tæmandi og nái því ekki til þessara jarðræktartilraunastöðva, og kemur því ekki til mála að undanþiggja þær nema með lagabreyt. Þess vegna er þetta frv. fram komið, þar sem farið er fram á, að þær undanþágur skattsins, sem getið er um í 1. mgr. 4. gr. laganna nái einnig til jarðræktartilraunastöðva þeirra, sem reknar eru með opinberum styrk og undir opinberu eftirliti, og hugsum við okkur þetta aðallega með hliðsjón af ræktunarstöðinni á Sámsstöðum og ræktunarstöð Ræktunarfél. Norðurlands, en auk þess gróðrarstöðinni á Eiðum og á Laugarvatni. Slík rannsóknarstarfsemi sem þessi er ekki stórfelld hér, en er þó einn þáttur í eflingu landbúnaðarins. Við erum að reyna að fara hér að dæmi annara menningarþjóða, en í samanburði við þær leggjum við broslega lítið að mörkum til þessara mála. Samkv. gögnum frá Búnaðarfél. Ísl. er talið, að um 22 þús. kr. séu lagðar fram í þessu skyni, og þó kemur þar mikið til frádráttar. Stofnkostnaður tilraunastöðvanna á Sámsstöðum og Akureyri gerir tilraunaráð Búnaðarfél. Ísl. ráð fyrir, að sé um 100 þús. kr. á hvora stöð. Af árlega styrknum, sem þessar stöðvar fá, verður að greiða vexti og afborganir, svo að ekki verða eftir nema 6000 –7000 kr. á ári til hvorrar stöðvar í beinan styrk. Við sjáum allir, að þetta hlýtur að vera mjög ófullnægjandi, ekki sízt, ef löggjafarvaldið vill ekki sýna þá sanngirni að undanþiggja stöðvarnar skattaálögum. Þær gætu numið talsverðum upphæðum, þó ekki væri nema 0,5% eftir fastelgnamati. Auk þess verða stöðvarnar líka að bera fasteignaskatt eftir fasteignalögunum frá 1921. Ég sé, að tilraunaráð Búnaðarfél. Ísl. hefir samþ. áskorun um, að þessu verði breytt og að tilraunastöðvarnar verði skattfrjálsar. Það er líka sanngirnismál, og þarf ekki meira um það að tala. — Ég óska, að þetta mál megi fá góðar undirtektir og að því verði vísað til 2. umr. og fjhn.