24.03.1938
Neðri deild: 33. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 458 í B-deild Alþingistíðinda. (414)

66. mál, þangmjöl

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Þetta er náttúrlega hárrétt aths. hjá hv. þm. Barð., því að vitanlega nær það ekki neinni átt að hafa sömu ákvæði um það, hve mörg ár megi liða þangað til framleiðsla sé hafin í þessari grein, og um lengd sérleyfis tímans. Það væri því nauðsynlegt að breyta ákvæðum 2. gr., ef till. hv. 5. þm. Reykv. yrði samþ.

Hv. 5. þm. Reykv. spurðist fyrir um, hve miklu stofnfé myndi hafa verið varið í þetta fyrirtæki. Landbn. hefir fengið þær upplýsingar, að nú þegar sé búið að verja nær 30 þús. kr., og þeir sérleyfishafar, sem ætlazt er til að verði samkv. þessu frv., gera ráð fyrir, að þeir muni þurfa að verja öðru eins fé til rekstrar fyrirtækisins.

Þá held ég, að það sé mikill misskilningur hjá hv. þm., að 3. gr. beri að skilja þannig, að um leið ag sérleyfið sé veitt skuli ákveðið hámarksverð sett á mjölið. Það er ekkert sagt í, 3. gr. annað en það, að þess skuli gætt að þau ákvæði verði sett við veitingu sérleyfisins, að ríkisstj. geti fylgzt með verðlagi og vörugæðum og geti alltaf gripið inn í, þegar ástæða þyki til. Vitanlega er ekki ætlazt til, að hún geri þetta í upphafi, heldur þarf hún að tryggja sér, þegar hún gefur sérleyfið, að geta hvenær sem er gripið inn í viðvíkjandi verðlagi og vörugæðum. Þetta er nauðsynlegt, þar sem hér er um nýja og áður óþekkta framleiðslu að ræða.

Þá spurði hv. þm. hvort n. hefði þann skilning á þessu máli, þar sem hér væri um að ræða sérleyfi til framleiðslu og sölu, að bændur við sjóinn gætu sjálfir stofnað með sér félag til eigin nota. Þessu get ég hiklaust svarað játandi fyrir n. hönd. Einmitt þetta ákvæði „til sölu“ var sett til að tryggja það, ef góð reynsla fengizt, að öðrum væri ekki fyrirmunað á þessu tímabili að framleiða fóðurmjöl fyrir sjálfa sig, og virðist okkur, þegar málið sé komið á þann rekspöl, að viðurkenning sé fengin fyrir ágæti mjölsins, þá sé fyrirtækinu tryggður nokkurnveginn fjárhagslegur þróttur til að framleiða vöruna til þeirra manna, sem ekki hugsa um að framleiða vöruna fyrir sjálfa sig. Hinsvegar vildum við ekki leggja stein í götu þeirra manna, sem vildu framleiða þessa vöru fyrir sjálfa sig.

Þetta 10 ára tímabil, sem hér er farið fram á, er mjög sniðið eftir þeim öðrum einkaleyfum, sem liggja fyrir þessu þingi og hafa legið fyrir undanförnum þingum um nýjar og áður óþekktar starfsgreinir, og mér sýnist ekki ástæða til að klípa við neglur sér við þetta sérleyfi frekar en við ýms önnur sérleyfi, sem veitt hafa verið.