04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 459 í B-deild Alþingistíðinda. (421)

66. mál, þangmjöl

Frsm. (Páll Zóphóníasson):

Herra forseti ! Landbn. hefir athugað frv. það, sem hér liggur fyrir, og leggur til, að það verði samþ. óbreytt. Þó vil ég f. h. n. árétta það, sem tekið er fram í nál., að sérleyfið verði ekki bundið við 10 ár, eins og frv. gerir ráð fyrir, heldur verði gengið út frá því, að það verði aldrei veitt lengur en allt að 10 árum. Og n. treystir því, að ráðh. sá, sem mál þetta kann að fá til meðferðar, veiti sérleyfið ekki lengur en brýnasta nauðsyn krefur.

Hvað snertir efni frv., þá er það í stuttu máli það. að veita félagi sérleyfi, sem þegar er búið að leggja fram 30–40 þús. í fyrirtæki, til þess að gera tilraunir með þessa vinnslu.

Það hefir þegar tekizt að búa til úr þaranum sæmilegan fóðurbæti, hvort sem hann stenzt samkeppni við annan fóðurbæti hvað verðiag snertir. Það á reynslan eftir að skera úr um.

En hitt hefir landbn. jafnan í hendi sinni, að þetta nýja fóðurefni verði ekki selt dýrara en annað fóðurefni samanborið við fóðurgildi þess.