04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 460 í B-deild Alþingistíðinda. (422)

66. mál, þangmjöl

Brynjólfur Bjarnason:

Ég vil aðeins gera grein fyrir atkv. minn sem kallað er. — Ég tel mjög varhugavert af Alþingi að ganga langt inn á þá braut að veita sérleyfi, a. m. k. ekki svipað eins langt og það gerir, ef öll þau frv. um sérleyfisbeiðnir, sem fyrir þinginu liggja nú, verða samþ.

Þar sem svo hagar til, að það, sem sérleyfi er beðið um til þess að vinna, útheimtir ekki miklar vélar eða mikið fjármagn, getur verið álitamál, hvort ekki sé rétt að leyfa samkeppni um það, því að það getur beinlínis orðið til þess að hefta atvinnugreinina, ef vissum mönnum er veitt sérleyfi til þess að reka hana. Mér er ekki kunnugt um, hvernig háttað er með atvinnugrein þá, að vinna fóðurmjöl úr þangi, sem hér er um að ræða. Hvort t. d. ekki sé hægt að vinna það á ódýrari hátt en hér er gert ráð fyrir. Um þetta gerði ég fyrirspurn á síðasta þingi, en fékk aldrei svar við henni. Málinu var vísað til iðnn. og kom þaðan ekki aftur. Sé aftur um það að ræða, að atvinnurekstur sá, sem sótt er um sérleyfi til að reka, útheimti miklar vélar, gegnir þetta öðru máli, en það á þó alltaf að geta verið í hendi stjórnarvaldanna án þess að sérleyfi komi til, hversu mörgum er gefinn kostur á að stunda hann.

Það, sem ég nú hefi tekið fram í sambandi við þetta mál, gildir einnig um önnur hliðstæð mál, sem fyrir þinginu liggja.