12.04.1938
Sameinað þing: 20. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 87 í B-deild Alþingistíðinda. (43)

1. mál, fjárlög 1939

*Fjmrh. (Eysteinn Jónsson):

Hv. þm. A.-Húnv. fullyrti í síðustu ræðu sinni, að það væri ríkið, sem réði kaupgreiðslu í þessu landi. Ég er satt að segja alveg undrandi yfir, hvernig þessi hv. þm. ber höfðinu við steininn. það veit hver einasti þm., að það eru ekki mikil áhrif, sem ríkið hefir á launagreiðslur við sjávarsíðuna. Sú vinna, sem ríkið lætur framkvæma við sjávarsiðuna, er ekki nema sáralítið brot af því, sem aðrir atvinnurekendur láta vinna þar. Og heldur hv. þm. A.-Húnv., að allar launagreiðslur fari eftir því, hvaða laun eru greidd fyrir þetta litla brot af vinnu, sem ríkið lætur framkvæma? Það þarf ekki langt til að sína, hvernig fyrirtæki þetta eru. Ríkið hefir greitt miklu lægri laun í vegavinnu fyrir hverja klukkustund heldur en greitt er í kaupstöðum, sem næst liggja. Og því fer alls fjarri, að launagreiðsla í kauptúnunum lækki nokkuð við það. Það hefir engin áhrif. Auk þess sem ég var að enda við að sanna það, áður en hv. þm. tók til máls, sem er og viðurkennt, að launagreiðsla til skrifstofufólks og annars slíks fólks af þeim stéttum eru yfirleitt hærri en hjá ríkinu, þannig að því fer svo fjarri, að ríkið ráði þessu. Það hefir ekki enn verið horfið að því ráði, þótt ríkið greiði ráðh. sínum 10 þús. kr. í laun, að lækka þau hjá öðrum sambærilega við það. það hefir ekki bólað á till. í þá átt. Og þó að ríkið launi forstöðumönnum ríkisstofnananna með 10 þús. kr., þá eru það ekki hliðstæðir starfsmenn hjá einkafyrirtækjunum, sem hafa þau laun, heldur þvert á móti. Það eru fulltrúar og bókarar hjá hinum ýmsu stærri fyrirtækjum, sem hafa sömu laun og þessir menn. Það er ekki nema eðlilegt, því að það er ekki nema lítill hluti af atvinnurekstrinum, sem ríkið hefir á sínum vegum, þannig, að það lætur miklu nær, að almennar kaupgreiðslur hafi töluverð áhrif á launagreiðslur ríkisins, þó að það liggi alveg fyrir sem staðreynd, að ríkið er hófsamara í launagreiðslum en flest einkafyrirtæki eru. (JPálm: Ríkið hefir mest áhrif á kaupsamninga). Ég veit ekki til, að það hafi verið nokkurn tíma tekið fram fyrir hendur á einkafyrirtækjum um kaupsamninga af hálfu ríkisvaldsins, sem greiða hærra kaup, en þeir álíta sjálfir rétt. Hv. þm. fór ekki mikið út í það að ræða um laun við hálfopinberar stofnanir, eins og ég undanfarið hefi óskað, að hv. þm. gerði, en hann hefir ekkert gert til að vekja athygli á því, þótt hans orðtæki sé, að verst séu hin þöglu svik. Ég óskaði þess mjög, að hann hefði gagnrýnt þær launagreiðslur hjá landbúnaðarfyrirtækjum, sem ríkisstj. hefir ekki, og atvinnufyrirtækjum við sjávarútveginn, en hann hefir í ræðum sínum algerlega vikið framhjá þessu og skýrði alls ekki, hvað gera skyldi, ef t. d. hann og hans flokkur fengju meirihlutaaðstöðu á þingi, svo að þeir gætu komið hugsjónum sínum í framkvæmd með þeim mönnum, sem nú ákveða, þar sem þeir ráða, miklu hærra kaup en ríkið og ríkisstofnanirnar. Það kemur mjög í ljós, að vandlætingasemi hv. þm. A.-Húnv. á sér mjög þröng takmörk. Hann vill ekki ræða um 20 þús. kr. launagreiðslurnar hjá þeim fyrirtækjum, sem hans flokksmenn ráða yfir, en ræðst með miklu offorsi á launagreiðslur hjá ríkinu og ríkisstofnununum.

Þá eru örfá orð um umframgreiðslur, sem hv. þm. talaði um og var mjög óánægður yfir, að í þeim efnum hafi verið gengið framhjá ákvörðunum fjvn. Ég ætla nú ekki langt út í þetta, vegna þess. að ég vil ekki teygja umr. Hv. þm. vildi sýkna ríkisstjórnina af æðimörgum liðum í þessu efni. T. d. gæti hún ekki gert við, þótt greiddur hafi verið kostnaðurinn við Seyðisfjarðarheiði, þá sé ekki Alþingiskostnaðurinn ámælisverður og ekki hægt að kalla það heldur ámælisvert, þótt vextir væru settir of hátt. En aftur á móti væri ámælisvert með ýmsa aðra liði, þar á meðal sjúkrahúsakostnað. En hvernig er þarna þá ástatt? Þannig að fjvn. lækkaði áætlunina eins og hún lá fyrir frá minni hálfu alveg út í bláinn, alveg án þess að benda á, hvernig hægt væri að framkvæma sparnað og án þess að gera nokkrar till. um það. Svo getur það litið laglega út, þegar umframgreiðslurnar koma, sem hljóta að koma, að ráðast svo á ríkisstjórnina fyrir þessar umframgreiðslur. Ég álit slíka framkomu ekki sæmilega. Sama er að segja um vegaviðhaldið. Ríkisstjórninni hefði sennilega verið ámælt fyrir það, ef hún hefði látið undir höfuð leggjast að halda við vegum, þannig að umferð hefði þurft að leggjast niður. Þetta er annar stærsti liðurinn í umframgreiðslum og umframgreiðslur á skipaútgerðinni, sem stafar eingöngu af hækkuðu kolaverði, og ómögulegt að ámæla ríkisstj. fyrir. Svona mætti lengi telja. Langmestur hlutinn af umframgreiðslunum er þannig vaxinn, að það er ekki hægt að komast undan þeim, og flestar sjáanlegar fyrirfram, þótt fjvn. hafi að vissu leyti stungið höfðinu í sandinn. Svipaðar umframgreiðslur eru í kennslumálum, langmest kennaralaun, sem stafar af því, að að nokkru leyti er þar of lágt áætlað, og sumpart af því, að samþ. var lagabreyt. á þinginu, sem hækkaði launin. Ég held, að hv. þm. ætti að bæta þessu á listann með þeim liðum, sem hann ekki ásakar ríkisstj. fyrir. Niðurstaðan af þessu er, að hvernig sem hv. þm. A.- Húnv. snýr sér í málinu, er staðreyndin, að mestur hlutinn af þessum útgjöldum er þannig vaxinn, að það er ekki hægt að komast hjá þeim. Það var of lágt áætlað og hægt að sjá það fyrirfram. En ekki er nema örlítið brot af því, sem hefir orðið dýrara í einstökum atriðum heldur en fjvn. hefði sjálf orðið að ákveða, ef hún hefði verið á staðnum til þess, þegar til framkvæmdanna kom. — Hv. þm. mun ekki geta svarað við þessa umr., en þá getur hann það við næstu umr. og sýnt fram á, að hvaða leyti var brotið á móti fyrirmælum fjvn. 1936 um launagreiðslur í einstökum atriðum, þannig að hægt væri að sjá, hve mikil ástæða er til þeirrar gagnrýni, sem flutt er fram. Þá mun koma í ljós, að þetta voru ekki stórar upphæðir, og mestur hlutinn af þeim óumflýjanlegur.