04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 463 í B-deild Alþingistíðinda. (437)

18. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. minni hl. (Páll Zóphóníasson):

Ég vil mjög mælast til þess, að þetta mál verði ekki afgr. hér í dag, því þetta mál verður að afgr. þegar hæstv. landbrh. er við. Þessi d. samþ. í fyrra, að ég ætla með öllum atkv., þáltill. um að skora á ríkisstj. að láta endurskoða laxveiði löggjöfina með hliðsjón af þeim breyt., sem felast í 2. gr. l. frá í fyrra. Þegar það var gert, að setja 2. gr. inn í l., þá leit ég svo á, að það væri gert til bráðabirgða, eða þangað til endurskoðunin hefði farið fram. Ég get þess vegna ekki rætt málið fyrr en ég hefi heyrt frá munni hæstv. ráðh., hvað hann hefir gert í endurskoðun þeirri, sem d. skoraði á hann að láta framkvæma. Þetta vil ég fá að vita áður en ég fer að ræða málið frekar, nema hæstv. forseti úrskurði, að það skuli rætt nú.

(Það var beðið dálitla stund eftir því, að landbrh. kæmi inn í d. Þegar hann var kominn, gaf forseti 1. þm. N.--M. aftur orðið.)

Hv. d. samþ. hér í fyrra þáltill. þess efnis, að hún skoraði á ríkisstj. að láta endurskoða lax- og silungsveiðilöggjöfina með þá breyt. fyrir augum, að veiðiár væru flokkaðar og reglur settar um það í löggjöfinni, hverjar veiðiaðferðir megi viðhafa í flokki hverjum. Mig langar til að fá að vita hjá hæstv. ráðh., hvað síðan hefir verið gert. Okkur, sem stóðum að þessari till., var það ljóst, að þetta yrði ekki gert á mjög skömmum tíma, og því var það, að frá einum hv. þm. landbn. kom fram brtt. um að koma inn í laxveiðilöggjöfina til bráðabirgða ákvæði, sem næði þessu sama að nokkru leyti, þangað til endurskoðunin hefði farið fram.

Nú er lagt til í því frv., sem hér liggur fyrir, að fella þetta bráðabirgðaákvæði niður, sem komið var inn með 2. gr. og ætlazt var til. að stæði þangað til endurskoðuninni væri lokið og hún var samþ. af Alþ. Ég get því ekki tekið fullnaðarákvörðun um það, hvort ég vilji fella niður 2. gr., fyrr en ég veit, hvort hin endurskoðaða löggjöf kemur fram á þessu þingi eða ekki. Hinsvegar vil ég halda mér við það, sem hv. d. samþ. í þáltill., því það er betra fyrirkomulag með veiðiárnar, og ef ekki næst nú sú breyt. á löggjöfinni, sem tryggi það, þá vil ég fyrir mitt leyti lofa bráðabirgðaákvæðinu í 2. gr. að standa. Það er ekki nema til áréttingar því, að við teljum nauðsynlegt að fá löggjöfina endurskoðaða að þessu leyti, eins og d. samþ. í fyrra með þáltill.

Viðvíkjandi því, að ég legg til að samþ. þetta frv. með þeirri breyt. einni, að í staðinn fyrir 2. gr. komi 1. gr., þá felur sú breyt. það í sér, að 2. gr. fær að standa óbreytt þangað til búið er að endurskoða löggjöfina, og ákvæðið, sem sett var í 1. gr. um endurkauparéttinn, sem framlengdur var um 5 ár, upp í 10 ár, fellur þá niður. Ég lít á þetta sömu augum og ég gerði í fyrra, svo ég þarf ekki að rökræða þetta frekar en ég þá gerði, að þetta ákvæði er engum til bóta, þegar litið er á heildina. Þeir menn, sem búa á þeim jörðum, sem veiði hefir farið undan á síðasta mannsaldri, eru flestir eða svo að segja allir búnir að kaupa hana undir jarðirnar aftur. Undantekning er kringum Hafursfjarðará. Þá er ekki eftir önnur veiði en sú, sem farið hefir undan jörðunum fyrir gjafir frá löngu liðnum tíma. en ég tel mjög vafasamt að Alþ. geti með einföldum l. riftað þinglesnum gjafabréfum. Ég vil því ekki framlengja þennan rétt frekar en í fyrra, og því legg ég til, að í staðinn fyrir að 2. gr. falli niður, þá falli 1. gr. niður. En þegar búið er að endurskoða veiðilöggjöfina í samræmi við það, sem hv. d. lét í ljós með þáltill. á þskj. 321 og ég geri ráð fyrir. að ráðh. hafi látið vinna að, þá fellur sú gr. niður af sjálfu sér, því þá koma önnur fyllri ákvæði inn í h, sem ná betur tilganginum með 2. gr.