04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 466 í B-deild Alþingistíðinda. (440)

18. mál, lax- og silungsveiði

Magnús Jónason:

Ég vildi ekki láta þessa umr. falla niður á meðan hæstv. ráðh. fór út, en ég sé. að hann er nú kominn. En hann á eftir að svara hv. 1. þm. N.-M. Mér virtist á ræðu hans, að hann hefði ekki áttað sig á því, að á hann hafi verið skorað í þessu efni eða nokkur þáltill. hefði verið samþ. því hann ræddi um örðugleikana á því fyrir stj. að framkvæma l. frá í fyrra.

Ég var einn af þeim, sem samþ. breyt., sem gerð var í fyrra, og það þó ég verði að játa, að þetta var mjög seint á þingi, sem þáv. 11. landsk. bar þetta fram. En mér fannst mikil nauðsyn að fá ákvæði um þetta, enda þótt ákvæðið kæmi ekki fram í æskilegu formi vegna þess, hvað þetta var gert með miklum fljótheitum. En það er ekki hægt að neita því, að það er þörf á að fá ákvæði um það, með hvaða tækjum megi veiða í ám. Það er leitt, að sambliða því, sem menn vita um, að ákveðin veiðitæki eru skaðleg og líkleg til að útrýma laxinum úr ákveðnum ám, skuli ekki vera hægt að setja ákvæði, sem komi í veg fyrir það.

Það er ekki hægt að neita því, að mikið vald er lagt í hendur ráðh., en maður skyldi ætla, að einhver hefði fyrr orðið til að amast við því en ráðh. sjálfur. En ég sé ekki annað en ráðh. geti komizt mjög létt út af þessu. Það er hægt að banna ákveðin veiðitæki, eins og t. d. að húkka laxinn með þríhúkk eða viðhafa slík tæki, sem særa laxinn og stinga.

En þetta ákvæði í 2. gr. er ekki til frambúðar, og það var þess vegna, sem hv. 1. þm. N.-M. spurðist fyrir um það, hvað endurskoðun á þessu liði hjá hæstv. ríkisstj. Mér fannst vera búið að gera nóg af því í þessi ó ár, sem lögin hafa staðið. Fimm ár má telja nógu langan tíma til að dæma um, hvernig lögin hafi reynzt í framkvæmdinni. Þau hafa víða verið framkvæmd þannig, að það stappar nærri hreinu eignaráni, þegar ár eru virtar fyrir verð, sem nemur 2–3 ára leigu af þeim. Það er eignarán þegar lög eru sett, sem heimila slíkt. Þess vegna er alls ekki ástæða til að samþ. þessi lög óbreytt. Það er rétt, ef ætti að framlengja slíkt, að sett yrðu ákvæði um það, að þeir, sem keypt hafa ár og unnið upp í þeim veiði, og þess vegna er nú hægt að leigja þær fyrir mjög hátt verð, væru tryggðir gegn því, að árnar væru teknar af þeim fyrir verð, sem aðeins nemur örlitlum hluta af raunverulegu verðmæti þeirra. Ég var á móti því, að þetta ákvæði væri sett í lögin með framlengingu. Hann nefndi dæmi um árnar í Húnavatnssýslu, sem bændur hefðu leyst til sin, eftir að hafa notað þær til óeðlilegrar veiði. Það er öllum ljóst, hve mikill skaði það er, þegar hver fer að leigja sinn part og hver um sig hefir ekki áhuga á neinu nema að róta upp laxinum með illu og góðu á sínum litla parti. En ef öll áin er eign eins manns, hefir hann það á tilfinningunni og veit það vel, að hann verður að haga sér skynsamlega til þess að þessi miklu verðmæti verði honum sem varanlegust.

Það er alltaf svona afleiðing, sem hlýzt af því, að bændur notuðu sér þann rétt að leysa hver sinn hluta af veiðiánum. Menn ættu að hafa heimild til að tryggja það, að jarðir þeirra verði ekki eyðilagðar eftir að þeir hafa myndað með sér félag með ákveðnum skilyrðum. Ég sé ekki, að það sé neitt óeðlilegt, þótt menn kaupi á, eins og hvern annan hlut, sem gæti komið öðrum við. Að vísu má segja sem svo, að áin tilheyri þeirri jörð, sem liggur að henni, en það er ekki rétt. Áin er sjálfstæður hlutur, sem kemur þeim jörðum, er hún rennur framhjá, ekki neitt við. Þeir, sem hafa átt jörð, hafa fengið sitt verðmæti frá þeim, sem hefir keypt hana, og sama máli gegnir um árnar. Ekki er sýnt, að aðrar laxveiðiár hafi verið betur verndaðar en þær, sem einstakir menn hafa leyst til sín. Það er sumpart ástæða til að framlengja þetta lagaákvæði, en þó getur það leitt til ills.

Um ákvæði 2. gr. skal ég segja það, að ég sé ekki ástæðu til að fella hana, þótt missmiði séu á henni. — 3. gr. fannst mér gera lögin betri en þau voru áður, en sú gr. var brtt. frá hv. 6. landsk. um, að mál út af brotum á þessum lögum séu rekin sem almenn lögreglumál. Það er mikil bót, að menn þurfa ekki að reka þau sem einkamál. Það er þetta ákvæði, sem á strandar; ég mun því samþ. þá brtt., að fella 1. gr. niður. En ég mun geta unað við 2. gr., sé þetta ákvæði betur útlistað, til þess að samningar komist á sem fljótast.