04.04.1938
Efri deild: 40. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 469 í B-deild Alþingistíðinda. (442)

18. mál, lax- og silungsveiði

Frsm. meiri hl. (Þorsteinn Þorsteinsson):

Ég get skýrt frá því, að ég vann það til samkomulags á síðasta þingi að flytja með samnefndarmönnum mínum þáltill. um að endurskoða að nokkru leyti löggjöfina um laxveiðar. Sú þál. var samþ. hér í deildinni mótatkvæðalaust. Þá taldi ég, að búið væri að ganga frá þeirri hlið málsins nógu rækilega. En litlu síðar en búið var að samþ. þessa þál. var komið fram með þá brtt., sem er 2. gr. þeirra laga, sem samþ. voru á síðasta þingi og nú á að fella.

Það er til vansa og leiðinda, eins og hæstv. forsrh. tók fram, að láta slíka lagagrein sjást í löggjöfinni. Hún átti aldrei að koma fram, því síður að samþ., en nú er sjálfsagt að fella hana.

Hv. 1. þm. N.-M. sagði, að þál. hefði verið samþ. með hliðsjón af 2. gr. laga um þetta efni. En sú till. var ekki borin fram við 2. umr. laxveiðilaganna; þá var búið að samþ. þessa þál. fyrir viku eða meira. Þetta vil ég taka fram um þetta atriði. Þar sem hæstv. forsrh. var að taka fram, að vafi væri á um vilja Alþ. í þessu máli, hygg ég það ekki vera rétt. (Forsrh.: Um greinina). Það er ekki nokkur vafi á þessu; það var nýbúið að samþ. þetta mál með shlj. atkv. í Nd. Það er svo vafalaust sem mest getur verið, hvaða álit Alþ. hafði á meðferð þessa máls. (Forsrh.: Það var vafasamt á síðasta þingi). Við vissum alltaf, að í Nd. var mikill meiri hl. á móti þessari till., sem nú á að feila úr lögum. Henni var lætt inn í frv. til að eyðileggja málið. Nd. neyddist til að samþ. þetta vegna tímaleysis og einungis með þeim fyrirvara, að þetta yrði lagfært á næsta þingi, eins og nú er verið að gera.

Þá kem ég að því, sem hv. 1. þm. Reykv. sagði, að stappaði nærri því að taka eignarréttinn af mönnum. þegar við værum að endurheimta þennan veiðirétt. Það væri ekki nema örlítið, sem fengist fyrir árnar, og þá hefðu þessir menn, sem hafa orðið að láta eignarrétt sinn af hendi, fengið hluta verðs fyrir þær á móts við það, sem þeir höfðu greitt fyrir þær í fyrstu. Þetta er alveg rangt. Þessi réttur, sem þeir verða að láta af hendi, verður þeim bættur að fullu, því að ég hygg, að það hafi aldrei komið fyrir, að veiðiréttur hafi verið tekinn af mönnum fyrir lægra verð en hann hefir kostað upphaflega. Hv. 1. þm. Reykv. taldi eigi rétt að leyfa mönnum að kaupa veiðiréttindi, fyrr en búið væri að mynda ákveðin félög. Lögin hafa sett þær takmarkanir, að ekki er unnt að endurheimta veiðiréttindi, fyrr en búið er að stofna veiðifélög eða fiskiræktarfélag. Væri nú undirbúinn félagsskapur til verndar gegn því, að farið væri illa með veiðina, yrði félagið að vera formlega stofnað, áður en unnt væri að endurheimtir veiðiréttinn. Ég skil ekki í því, hvers vegna er verið að berjast fyrir því, að þeir menn, sem enn halda þessum rétti, sem nú eru að miklu leyti Reykvíkingar, fái að halda honum, og aðrir geti ekki fengið veiðiréttinn hjá þeim nú eftir nýár 1938, eins og það var leyfilegt fyrir þann tíma. Þetta gerir þeim mönnum hægt að ná í þessi réttindi, sem eru nógu miklir auðmenn, og þeir verða útundan sem sízt skyldi, ef það kæmi til mála, að brtt. hv. 1. þm. N-M. yrði samþ. Deildin hefir þegar lagt sinn dóm á þetta mál. og ég treysti því, að hún hviki ekki frá þeim dómi.