14.03.1938
Efri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 479 í B-deild Alþingistíðinda. (482)

58. mál, mat á matjessíld og skozkverkaðri síld

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti ! Hér liggur fyrir frv. um mat á síld; á því hefi ég lítið vit og skal því lítið um það tala, en í þessu sambandi vildi ég geta þess, að árlega undanfarin ár hafa komið til mín ákaflega miklar kvartanir yfir því, að síldarmjölið, sem búið er til úr síldinni, væri ekki merkt og ákaflega misjafnt að gæðum. — Ég hefði því viljað óska þess, að hv. sjútvn. athugaði þetta um leið og hún tekur til meðferðar mat á síld. Ég skal láta henni í té massa af þessum kærum. Ég veit, að þessar kærur hafa stundum komizt alla leið til ríkisverksmiðjanna, og ríkisverksmiðjurnar hafa a. m. k. í einu tilfelli gengið inn á að greiða bætur fyrir síldarmjölið, af því að það var ekki eins gott og það átti að vera. — Það er ákaflega mikil þörf á því að gefa mönnum meira öryggi í þessum efnum en verið hefir.

Ég býst við því, að þetta sé gert að einhverju leyti þegar síldarmjölið er flutt út, og það er engin ástæða til að láta hina innlendu kaupendur sitja við verra borð en hina erlendu.

Þetta vildi ég biðja hv. sjútvn. að athuga.