11.04.1938
Neðri deild: 46. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 483 í B-deild Alþingistíðinda. (496)

58. mál, mat á matjessíld og skozkverkaðri síld

*Frsm. (Finnur Jónsson):

Ég vil benda hv. 5. landsk. á, að rök þau, sem hann færir fyrir því, að sektarákvæðið sé of lágt, munu vera á misskilningi byggð. Hann segir, að braskarar hér við Faxaflóa hafi selt um 4000 tunnur af saltsíld til Danmerkur, sem hafi verið útvötnuð þar, en síðan seld til Þýzkalands sem matjessíld. Þessi l. geta ekki útilokað slíkt, því að þau ná ekki yfir saltsíld, heldur aðeins matjessíld. Auk þess geta þau ekki náð yfir það, að menn breyti í Danmörku saltsíld í matjessíld á þennan hátt og selji síðan til annara landa. Annars held ég, að upplýsingar hv. þm. muni vera á misskilningi byggðar. Ég hefi aldrei heyrt um þennan útflutning og held, að hann hafi aldrei átt sér stað.