19.04.1938
Efri deild: 49. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 489 í B-deild Alþingistíðinda. (518)

81. mál, þingsköp Alþingis

Bernharð Stefánsson:

Ég þakka allshn. fyrir, að hún hefir tekið til athugunar þær bendingar, sem ég gaf hér við 1. umr. málsins. Aftur á móti þarf ég ekki að þakka niðurstöðuna, því að hún er sú, að vilja ekki fallast á það fyrirkomulag, sem ég stakk upp á. Ræða hv. frsm. hefir þó ekki sannfært mig um, að það fyrirkomulag, sem gert er ráð fyrir í frv., sé heppilegra en það, sem ég benti á.

Það, sem hv. frsm. færði aðallega fram skoðun n. til stuðnings, var, að það væri svo þungt í vöfum að láta samvn. d. taka við hinum ýmsu málum, sem fram kæmu í Sþ. Ég get fallizt á, að þetta mundi kannske verða þungt í vöfum, ef engar frekari ráðstafanir væru gerðar og þingsköpum ekki breytt frekar en aðeins að ákveða, að samvn. skyldi taka við þessum málum. Ég álít, að það mætti koma þessu þannig fyrir, að það yrði alls ekki þunglamalegt. Ég held. að það mætti með þeim einfalda hætti að sameina n. í hverjum málaflokki og þær hefðu hver sinn ákveðna formann og þeim væri ætlaður ákveðinn fundartími, sem þyrfti ekki að vera mjög oft. Ef þetta fyrirkomulag væri haft, held ég, að ekki kæmi til árekstra.

Hv. frsm. gerði ekki mikið úr því, að óheppilegt væri að hafa eina allshn. til þess að taka við öllum þessum málum í Sþ., út af því, að það mundi ekki vera svo fjölbreytt þekking í einni n. í ýmsum málum, sem til hennar yrði vísað. Ég játa, að ég geri ekki mikið úr því, að svo mikil fagþekking sé fyrir hendi í n. í d., en þó er það svo, að í fastanefndum hafa menn þá skyldu, að setja sig sérstaklega vel inn í ákveðna málaflokka. Oft er það svo, að þáltill. í Sþ. eru um undirbúning á ýmiskonar löggjöf, oft áskorun til stj. að láta slíkan undirbúning fara fram, og þá finnst mér miklu heppilegra að láta þær n., sem síðar koma til með að fá lagafrv. til meðferðar, athuga till. um undirbúning löggjafarinnar. En ég býst við, að þar sem ekki kom annað fram en að n. væri sammála um þetta, að það tjái ekki að deila við dómarann, og þó að ég gæti komið fram með brtt. til 3. umr., þá geri ég ekki ráð fyrir, að það þýði neitt. Það er vant að vera svo, að ef n. er sammála, þá þýði ekki að koma með till., sem hún mælir á móti. og þess vegna getur verið, að ég láti þetta mál niður falla. Ég vildi þó ekki láta hjá líða að skýra frá því hér, að ég get ekki tekið rök hv. frsm. algerlega gild eða játað, að það fyrirkomulag, sem ég stakk upp á, sé ekki að öllu leyti heppilegra en hitt. Hitt skal ég aftur játa, að þó að frv. verði samþ. óbreytt. þá býst ég við, að nokkur umbót fáist frá því, sem verið hefir, því að það er óeðlilegt að vísa öllum málum, sem fyrir Sþ. koma, til fjvn., eins og gert hefir verið undanfarið.