04.05.1938
Sameinað þing: 25. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 106 í B-deild Alþingistíðinda. (55)

1. mál, fjárlög 1939

*Frsm. samvn. samgmn. (Gísli Sveinsson):

Herra forseti! Samgmn. Alþ. hafa eins og áður unnið saman að því að koma sér niður á, hvernig skyldi vera sú fúlga, sem í fjárl. er ákveðin til flóabátaferða. Eins og hv. þm. hafa orðið varir við, þá var á því fjárlagafrv., sem hæstv. fjmrh. lagði fyrir Alþ., þessi upphæð færð niður úr því, sem ákveðið var á síðasta þingi, en það voru 80 þús. kr., og niður í 75 þús. kr. N. er ekki ljóst, við hvað þessi niðurfærsla er sérstaklega miðuð, því að engin grg. kom fyrir því frá ríkisstj. En gera má ráð fyrir, að það hafi þótt réttara að ákvarða upphæðina í heild sinni nokkuð lægri, með það fyrir augum, að n. fyndu einhverjar útgöngudyr til þess að lækka hjá hinum einstöku farartækjum og flutningatækjum, bátum og skipum, þá styrki, sem þeim voru ætlaðir á síðasta þingi og nú átti samkvæmt því að ákvarða á þessu þingi. N. hafa ekki frekar nú en á síðasta þingi séð sér fært að lækka þessa styrki í heild sinni; þótt nokkur breyt. hafi orðið á tilhöguninni um styrkveitingar, þá er útkoman sú sama og var þá, og n. leggja því til, eins og kemur fram í brtt. á þskj. 425, XII, að upphæðin, 75 þús. kr., verði 80 þús. kr., eins og hún var.

Það er síður en svo, að umsóknir og málaleitanir, vel rökstuddar oftast nær, fari minnkandi til samgmn. um styrki til að halda uppi ferðum og flutningum á sjó. Þeim fer fjölgandi, og kröfurnar eru í raun og veru meiri og meiri, vegna þess að eins og árar nú, þá er þannig komið fyrir þessum útgerðarfyrirtækjum, flóabátunum, að þeim er æ erfiðara fyrir að halda uppi þessum ferðum vegna vaxandi kostnaðar og meiri eða minni halla á rekstrinum.

Nú hefir það orðið niðurstaðan hjá samvn. samgmn., að féð, sem varið er í þessu skyni, verði að upphæð 80 þús. kr., og í öðru lagi hefir verið reynt að fara með þessa styrki þannig í skiptunum, að sem bezt væri séð fyrir þessum flutningum og þeirri miklu flutningaþörf, sem segja má. að sé til staðar kringum allt landið, og þá sérstaklega þar, sem nauður rekur mest til.

Eins og kemur fram í nál. á þskj. 317, þá er enn hæstur þar einn bátur, sem mjög hefir reynzt þungur á kostnaði undanfarið. Er það Vestfjarðabáturinn, eða Djúpbáturinn svo kallaði, með 20 þús. kr., og þykir það eftir því, sem rök liggja fyrir, ekki um of. Borgarnesbáturinn heldur enn þessum mikla styrk, sem n. verður að telja, að sé mjög hár, 15 þús. kr. Það er rétt að geta þess í þessu sambandi, að n. hafa orðið ásáttar um að taka það sérstaklega fram, að það þyrfti könnunar við, hvort á þessu svæði væri ekki hægt að ætlast til minni styrks, og ef til vill að meira eða minna leyti niðurfellingar á styrknum, af því að á þessu svæði eru miklar tekjur fyrir þetta farartæki, á Faxaflóa á ferðum frá Reykjavík og upp í Borgarnes og til baka. Þær tekjur fara engan veginn minnkandi, heldur fara þær ávallt vaxandi, ekki sízt vegna hinnar miklu mannflutningaþarfar, sem vaxið hefir við samgöngurnar við Norðurland frá Borgarnesi og Akranesi. Þessu skipi er ætlað að annast samgöngur í fyrsta lagi við Borgarnes og norður, og einnig um Akranes, enda þótt sérstakur Akranesbátur haldi þeim litla styrk, sem hann hefir áður haft, 1500 kr., með sama skilyrði og áður var. Þó greinir einstaka nm. nokkuð á um það, að hve miklu leyti þurfi að styrkja samgöngutæki á sömu leið, en þó var þessi styrkur, 1500 kr., ákveðinn vegna hinna sérstöku ástæðna um mjólkurflutninga, sem þessi útgerð tók að sér á Akranesi, og virðist ekki neitt hafa komið fram, sem rifti því, að þetta eigi áfram að eiga sér stað. En frá n. sjónarmiði er það athugandi, hvort Borgarnesbáturinn sé ekki kominn á það stig, að hann gæti létt nokkuð, og það meira að segja allmikið á fóðrunum.

N. hafa einnig að litlu leyti fært til styrkveitingar. Eins og hv. þm. kannast við, þá hefir Flateyjarbáturinn á Breiðafirði haft háan styrk, sem sé 7 þús. kr., og hann hefir einnig undanfarin ár fengið til greiðslu upp í vélarkostnað 2500 kr., en hann fékk sér nýja vél fyrir nokkrum árum. Síðasta greiðsla í þessu skyni fór fram á árinu sem leið. En það hefir legið fyrir beiðni, nokkuð vel rökstudd, að nauðsynlegt væri fyrir það félag, sem annast þessar samgöngur, að fá hærri styrk. Það hefir því þótt rétt að veita bátnum aukastyrk, 1000 kr., í eitt skipti og án þess að með því skapaðist neitt fordæmi þar eða annarsstaðar.

Þá skal ég geta þess, að það þótti óhjákvæmilegt að hækka styrkveitinguna til Skagafjarðarbátsins, sem á að annast ferðir milli Skagafjarðar og Siglufjarðar með tilheyrandi viðkomustöðum. Fyrir árið var áætlaður styrkur til þessarar útgerðar 3 þús. kr. Nú hefir sýslufundur í Skagafjarðarsýslu og hlutaðeigendur allir óskað þess, og lagt mikla áherzlu á það og fært allgild rök að því, að styrkurinn verði hækkaður, reyndar nokkuð meira en gert er ráð fyrir hjá n. En n. hafa fallizt á, að hann ætti að hækka, og það mætti ekki vera minna en 2 þús. kr., upp í 5 þús. kr., úr 3 þús. kr., et hann ætti að koma að fullum notum. En þó er það tekið fram í nál., og skal það einnig tekið fram hér, að hinn áætlaði styrkur til hins svokallaða Fljótabáts falli niður, því að hann er talinn óþarfur, og ætlazt er til, að ferðir hans séu teknar upp í höfuðsamgöngurnar, sem nú eru áætlaðar á Skagafirði.

Þetta er höfuðbreytingin, sem um er að ræða, því að hitt er mjög smávægilegt, að fært er til við Faxaflóa og Breiðafjörð, þannig að hinn svokallaði Mýrabátur, sem hafði 500 kr., er færður niður í 400 kr. fyrir þetta ár, en Langeyjarbáturinn er færður úr 300 kr. upp í 400 kr. Þetta eru tilfærslur, sem munar ekki mikið um. En n. þótti eftir þeim gögnum, sem fyrir lágu. réttara að hafa það þannig.

Um þær athuganir og athugasemdir, sem n. að öðru leyti hefir látið í ljós í nál. þarf ekki að fjölyrða. Ég vil að gefnu tilefni út af því, sem tekið er fram, reyndar í samræmi við það, sem ákvarðað var fyrir ári síðan, að ætlazt er til, að útgerðir flóahátanna þurfi ekki að standast kostnað af póstflutningi milli pósthúss og skips, heldur annist póststjórnin um allt slíkt. Þannig er að vísu fyrirmælt í póstlögunum, en það er ákvæði, sem í sjálfu sér er ekki í samræmi við þessa ákvörðun n., því að samt sem áður hefir n. þótt nauðsyn til reka, að ákvarða fyrir sitt leyti um þetta. En n. ganga að sjálfsögðu út frá því, að um sanngjarnar greiðslur þessa kostnaðar. þegar um slíkan kostnað er að ræða, verði fullt samkomulag milli póststjórnarinnar og hlutaðeigandi bátaútgerðar. Ég vil vekja sérstaka athygli á því og taka það skýrt fram, svo það komi fram í umr., að n. ganga út frá því sem sjálfsögðu, að það verði samkomulag um sanngjarnar greiðslur þessa kostnaðar. Það hefir borið á því á stöku stað, að gerðir hafa verið reikningar til póststjórnarinnar, sem við nánari athugun hafa ekki verið sanngjarnir, því að það er svo, að það má smyrja á reikninga við slík atvik sem þessi, en hinsvegar ætlazt n. ekki til, að það komi fram kostnaður, sem í raun og veru hefir ekki verið lagt i. Þar sem svo er, að skipsmenn fara úr bátnum upp á bryggju og eiga að leggja póstinn í pósthús, sem er rétt við bryggjuna, þá er ekki ætlazt til, að það sé talinn neinn kostnaðarauki, eða út af því þurfi að koma fram stórir reikningar. sem póststjórnin eigi að borga. Í slíkum tilfellum er sjáifsagt, að lipurð sé sýnd. En það, sem n. eiga við, er að þetta sé gert ef útgerðin þarf að leggja í kostnað á sérstöku flutningatæki til þess að koma póstinum frá skipi og á þann stað, sem hann á að fara á.

Ég vil loks benda hv. þm. á, auk þess sem gengið er út frá, að þeir leggi sér á minni það, sem n. hafa látið taka fram á nál., að n. hafa að gefnu tilefni viljað, eins og ég gat um, að það fari fram nokkur athugun á þessum leiðum og ferðum um það, hvað sérstaklega er talið, að borgi sig betur á einum stað en öðrum, og hvar sé alveg útilokað, að hægt sé að vænta þess í framtíðinni, að slíkar ferðir borgi sig. En allir verða að játa, sem hér eiga sæti á Alþ., að ýmsir staðir eru hér á landi, sem sjálfsagt er, og enda lífsnauðsyn, að haldið sé uppi tiltölulega greiðum samgöngum, en engar vonir er hægt að gera sér um, að beinlínis borgi sig, nema með talsvert ríflegum styrkjum. En eins og getið hefir verið um, er þó munur á þessu, og sumir staðir miklu líklegri í þessum efnum en aðrir.

N. hafa ekki viljað skiljast svo við eitt atriði, sem ég vil aðeins drepa á, en það er áhrærandi samgöngurnar milli Vestmannaeyja og suðurlandsins, að ekki sé gengið frekar úr skugga um það, hverjir eru hagsmunir þessara staða, bæði Vestmannaeyja og suðurlandsins.

Ýmsir nm. hafa látið í ljós óskir um, að þetta væri rækilega athugað, og þá, hvort ekki væri nauðsynlegt að styrkja slíkar ferðir. Sannleikurinn er líka sá, að samgöngur milli Vestmannaeyja og lands hafa á ýmsum stöðum verið bráðnauðsynlegar, og það getur verið, að þær verði jafnvel undir öðrum viðhorfum, einnig nauðsynlegar áfram.

Viðvíkjandi brtt. á þskj. 425, um lítils háttar styrk til póstbáts milli Hríseyjar og Litla-Árskógssands, þá er þess að geta, að þetta hefir legið fyrir n., en samvn. ætlast til, að samkomulag geti orðið um þetta við útgerð Norðurlandsbátsins, og það verði sýnt, hvort ekki megi með því móti fullnægja þeirri þörf, sem kann að vera fyrir hendi um póstflutninga milli Hríseyjar og Litla-Árskógssands. En Norðurlandsbáturinn þykir nú hafa nokkuð ríflegan styrk, og þótt honum sé ætlað að fara þessar fáu tilraunaferðir til austurlandsins, þá verður væntanlega hægt að haga því svo til, að þeir, sem eiga þarna hlut að máli, fái nokkra áheyrn hjá þessu samgöngutæki, eða útgerð Norðurlandsbátsins geti fullnægt þessu á einn eða annan veg á því ári, sem fjárl. eiga að gilda fyrir, sem sé 1939. þótt ekki sé tekin upp sérstök styrkveiting til þessara ferða.

Ég sé svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þessi atriði fyrir hönd n. og mun þá ekki tala meira sem frsm. En í þeirri von, að fleiri verði viðstaddir síðar, áskil ég mér rétt til að taka til máls vegna brtt., sem ég sem fulltrúi sérstaks héraðs hefi leyft mér að bera fram.