04.05.1938
Sameinað þing: 25. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 109 í B-deild Alþingistíðinda. (56)

1. mál, fjárlög 1939

*Garðar Þorsteinsson:

Ég hefi á þskj. 425 borið fram nokkrar brtt., sem ég vil mæla fyrir með nokkrum orðum.

1. brtt. er um það, að upphæðin til Siglufjarðarskarðs hækki upp í 24 þús. kr., úr 13 þús. og 500 kr. Siglufjörður hefir lagt fram til þessa vegarstæðis mjög háa upphæð, en hann hefir lagt fram meira fé heldur en ríkissjóður hefir lagt fram til þessa vegar. Það er annarsvegar, að þessi vegur verður mjög dýr, og hinsvegar er nú búið að taka ákvörðun um það af fjvn. og Alþ., að lengja þennan veg, og þess vegna er eðlilegt, að til hans sé varið svo ríflegri upphæð árlega, að séð verði nokkurnveginn fyrir endann á þessu verki.

2. brtt. er um það, að hækkað verði framlagið til Ólafsfjarðarvegar, úr 4000 kr. og upp í 7000 kr. Það er svo um þessa staði, Siglufjörð og Ólafsfjörð, að hvorugur þessara kaupstaða hefir beint bilvegarsamband við Skagafjörð, sem þó er af ýmsum ástæðum lífsnauðsyn fyrir þessa kaupstaði, eins og það er líka nauðsynlegt fyrir þær sveitir, sem með lagningu veganna komast í beint samband við þá. Ólafsfjarðarvegur, yfir Lágheiði, er ákaflega torlagður, þar sem er yfir hálsa að fara. Það er eðlilegt, að veitt sé dálítið rífleg upphæð til þessa vegar, enda hefir Ólafsfjörður ekki fengið neina upphæð frá ríkissjóði, sem aðrar sveitir hafa fengið í stórum stíl, bæði fyrr og síðar. Og fyrst á annað borð á að leggja þennan veg, þá er æskilegt, að það sé gert frekar fyrr en síðar.

Svo er á sama þskj. till., sem ég flyt ásamt hv. 4. landsk., um að varið verði 400 kr. til þess að annast kostnað við póstflutningabát milli Hríseyjar og Litla-Áskógssands. Það hefir verið þannig undanfarið, að það hefir verið varið dálítilli upphæð til þess að halda uppi ferðum milli þessara staða. Það er ákaflega stutt yfir sundið, 15 mín. ferð á venjulegum trillubát, og þó áður hafi verið farið með bát milli Akureyrar og Hríseyjar, þá er það þannig nú, að meiri hluti þess fólks, sem fer frá Hrísey til Akureyrar og öfugt, fer yfir sundið og þaðan í bil. Það er því að mínu áliti sjálfsagt að veita dálitla upphæð til þess að annast þessur ferðir.

Í næstu brtt. er farið fram á, að framlagið til Norðurlandsbátsins hækki um 1500 kr., en annars mun hv. þm. Ak. á sínum tíma mæla fyrir þeirri till. Ég vil aðeins leggja áherzlu á, að hún verði samþ.

Næsta brtt. er undir rómv. 14, og er hún um það, að framlag til bryggjugerðar í Ólafsfirði hækki úr 2300 kr. upp í 6700 kr. Að farið er fram á þessa hækkun, stafar af því, að þessi bryggja verður nær helmingi dýrari heldur en áætlað var af vitamálaskrifstofunni. Tillagið frá ríkissjóði er mun minna heldur en hefir verið veitt til hliðstæðra mannvirkja annarsstaðar. 6700 kr. er sú upphæð, sem miðuð er við það, að Ólafsfjörður verði raunverulega eins settur að þessu leyti til eins og önnur kauptún, þar sem slík mannvirki hafa verið byggð. Er þar miðað við kostnaðinn, eins og hann verður, en ekki við áætlanir vitamálaskrifstofunnar, sem reyndust allt of lágar.

16. till., aðaltill. og varatilI., er um framlag til sjóvarnargarðs í Ólafsfirði. Eins og hv. þm. er kunnugt, þá má segja, að það hafi í raun og veru myndazt nýr atvinnuvegur á þessum litlu stöðum, eins og Dalvík, Ólafsfirði og víðar, þar sem byrjað hefir verið að salta síld á þessum stöðum. Það er fyrst nú á allra síðustu árum, sem þetta hefir átt sér stað. Áður lögðu bátarnir upp síld á Siglufirði eða Hjalteyri, en á síðustu árum hefir það verið þannig, að saltað hefir verið á þessum stöðum, jafnvel þótt það hafi oft verið erfitt vegna þess, hvað slæmar hafnir er hér um að ræða. En nú er verið að byggja bryggju í Ólafsfirði, og Ólafsfirðingar hafa sjálfir steypt upp hjá sér allstórt pláss til þess að geta annað þessum nýja atvinnuvegi, síldveiðunum. Og till., sem hér er farið fram á, sem var send fjvn., en hún hefir ekki tekið til greina, er um það, að til sjóvarnargarðs í Ólafsfirði séu veittar 10 þús. kr., og til vara 6 þús. kr. En slíkt mannvirki telja Ólafsfirðingar nauðsynlegt til þess að geta annað þessum síldveiðum yfir sumarið. Höfnin þar er, eins og menn vita, mjög opin, og ef stormur er, þá eiga bátar mjög erfitt með að liggja þar. Ólafsfirðingar telja þess vegna mjög nauðsynlegt, að sjóvarnargarður sé reistur þar. til þess að þeir geti notfært sér þá möguleika, sem eru þar á því að salta síld.

Ég hefi ennfremur borið fram till. nr. 19. ásamt hv. 4. landsk., sem er í tveimur liðum. Annar liðurinn er til sundlaugarbyggingar á Siglufirði, en hinn til sundlaugarbyggingar í Ólafsfirði. Báðir þessir kaupstaðir hafa sótt um upphæðir til þingsins til þess að geta byggt sundlaugar, og þær till. eru teknar hér upp að nokkru leyti. Ég hygg, að það sé ekki óréttlátt, að þessum kaupstöðum sé veitt fé til þess að byggja sundlaugar, og ættu þeir ekki síður að fá það en ýmsir aðrir kaupstaðir, sem hafa fengið svipaðar upphæðir í sama skyni.

Ég hefi svo ekki fleiri brtt. að mæla fyrir, en ég vona, að þingið sjái sér fært að samþ. þessar brtt., sem ég hefi hér borið fram og mælt fyrir.