09.03.1938
Efri deild: 18. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 501 í B-deild Alþingistíðinda. (586)

51. mál, æðsta umboðsstjórn Íslands

*Magnús Jónsson:

Ég mun ekki fara að ræða frv. þetta efnislega, því að ég er samþykkur því að efni til. En mér finnst óviðkunnanlegt, að frv. um þetta efni skuli ekki koma frá stjórninni, og yfirleitt finnst mér fara illa á því, sem virðist vera farið að bera allmjög á nú í seinni tíð, að það er engu líkara en að stj. hreint og beint hliðri sér hjá að bera fram mál. Þetta er öfugt við það, sem tíðkast erlendis, þar sem það er hrein og bein undantekning, að þingmenn beri fram frv. Þeir, sem vilja koma málum fram í erlendum þingum, verða að snúa sér til stj. með þau, sem svo yfirvega þau nákvæmlega, og bera þau svo fram, ef þær geta fallizt á þau. Þessu er því á nokkuð annan veg farið en hér hjá okkur, þar sem varla er hægt að segja, að stjfrv. sjáist. Þannig munu þau t. d. ekki vera yfir 6 alls, sem fram hafa verið borin á þessu þingi enn sem komið er.

Hvað þetta frv. snertir, þá hefði mér alveg fundizt sérstök ástæða til þess, að það hefði komið frá stj., þar sem hér er um að ræða, að stofna til nýs skipulags hvað utanríkismálin snertir. En þess í stað er sú leið farin, að láta form. utanrmn. flytja það, ásamt 2 öðrum þm., sem þó eru ekki einu sinni báðir úr n.

Hvað efni frv. snertir, þá er ég því samþykkur, eins og ég þegar hefi tekið fram, því að ég tel eðlilegt, að utanríkismálunum sé skipað hér í sérstaka deild. Það er aðeins aðferðin, hvernig það er flutt inn í þingið, sem ég tel ekki viðeigandi.