06.05.1938
Sameinað þing: 27. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 113 í B-deild Alþingistíðinda. (61)

1. mál, fjárlög 1939

Páll Zóphóníasson:

Ég hefi skrifað undir nál. samvinnunefndar samgöngumála með fyrirvara. Sá fyrirvari er þó ekki þannig vaxinn, að ég í þetta sinn fylgi ekki þeim till., sem n. gerir. eins og þær liggja fyrir á þskj.; en hann á að lýsa því, að eftirleiðis eigi að ráða nokkuð annað viðhorf í þessum styrkveitingum heldur en fram hefir komið í þetta sinn og áður hjá samvinnunefnd samgöngumála. Og þetta er byggt á tvennu. Í fyrsta lagi tel ég ekki rétt að styrkja flóabátaferðir, sem elta hvor aðra á sömu ferðaáætlun; en það er gert nú. Í öðru lagi tel ég ekki rétt, að hið háa Alþingi styrki bátsferðir, sem kallaðar eru flóabátaferðir, en eru svo óreglulegar, að þeir enga áætlun hafa, svo að ómögulegt er fyrir nokkurn mann, sem bátana vill nota,. að vita, hvenær þeir fara. Þetta verður í framkvæmdinni ekkert annað en styrkur til einstakra manna til að draga að sér vörur; það geta engir notað bátana, nema þeir, sem eru í nágrenni við þá, einu sinni til tvisvar á ári, til að draga að sér vörur til sinna heimila. Þetta tel ég hvorttveggja eiga að taka til athugunar, og það er það, sem felst í mínum fyrirvara, þó að ég að hinu leytinu nú fylgi till. eins og þær liggja fyrir.

Þá á ég eina brtt. á þskj. 444, við liðina um bryggjugerðir og lendingarbætur í 13. gr. fjárlagafrv. Alþingi hefir nú á seinni árum viðurkennt það rétt, að þegar hið opinbera með fjárframlögum studdi að því, að verð hækkaði á landi eða lóðum, sem eru í eigu einstakra manna þá kæmi sú verðhækkun ekki einungis til góða þessum einstakling, sem af tilviljun hefir eignarrétt á landinn eða lóðunum í það skipti, heldur yrði til ágóða fyrir alla, sem í framtiðinni njóta þessara eigna. Þetta hefir verið gert í jarðræktarlögunum og l. um byggingar- og landnámssjóð, og ég tel það rétt og sjálfsagt. En verðhækkun fyrir veittan jarðræktarstyrk er alstaðar smáræði samanborið við þá verðhækkun sem verður í lóðum í kauptúnum og kaupstöðum fyrir það, að hið opinbera styður að því með fjárframlögum, að þar komist upp höfn eða hafnarmannvirki. Hingað til hefir það verið svo, að þeir einstaklingar, sem þó hafa átt þessi lönd, sem liggja að viðkomandi bryggju eða hafnargerð, hafa hækkað leigu á lóðum og hafi þeir selt, þá fyrir hærra verð, svo að þeir, sem eiga að búa við þessi mannvirki, hafa ekki þá betri aðstöðu, sem hið opinbera hefir ætlazt til.

Ég skal fúslega viðurkenna það, að kannske er vafasamt, hvort með þessu ákvæði næst að fullu það, sem fyrir mér vakir með því, hvort ekki þarf sérstök l. til að fyrirbyggja þetta. En með því að koma með þessa brtt. nú, hefi ég fyrst og fremst viljað sýna þá stefnu, sem ég fylgi í þessu máli. Ég hefi sömuleiðis viljað gefa hv. þm. möguleika til að vera sjálfum sér samkvæmir, þegar þeir hafa áður í öðrum f. fyrirbyggt, að miklu minni verðhækkun á jörðum og lóðum yrði einstökum eigendum að féþúfu. Og ég hefi í þriðja lagi borið till. fram í von um það, að hægt yrði kannske strax á næsta þingi að búa tryggilegar um þetta fyrir framtíðina heldur en hægt er með einu fjárhákvæði. Aðrar brtt. á ég ekki.

Um brtt., sem fyrir liggja, skal ég ekki segja annað en það, að ég tel tvennt athugavert við þær yfirleitt. Að öðru leytinu tel ég litið sparað við framkvæmdir, sem kosta erlendan gjaldeyri, síma, skólabyggingar og brýr o. fl. Eins og ástandið er nú, tel ég, að ekki hafi átt að ganga lengra í þessu, en leggja í aðrar framkvæmdir, sem ekki krefjast þessa. Að hinu leytinu lít ég svo á, að það sé tvísýnt, og meira en tvísént, hvort þjóðin fær í aðra hönd það, sem ætlazt er til, að hún fái í auknu andlegu lífi og auknum andlegum verðmætum fyrir alla þá bitlinga á fjárl., sem alltaf fara vaxandi. Það er töluvert útlit fyrir, að ekki þurfi annað en geta komið saman laglegri ferhendri bögu, sbr. Gísla Ólafsson og ýmsa aðra hér á landi, til þess að geta komizt rakleitt inn á fjárl. Ég mun við atkvgr. sýna þessa mína afstöðu. En úr því að ég átti brtt. og þurfti fyrir þeim að tala, vildi ég gjarnan láta þetta koma fram um leið.