14.03.1938
Neðri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 509 í B-deild Alþingistíðinda. (610)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Emil Jónsson:

Eins og í nál. segir, eru það aðeins 3 nm. landbn., sem standa að þessu nál., því að við hv. þm. Borgf. vorum ekki viðstaddir þegar málið var afgr. Ég vil á þessu stigi málsins aðeins láta nægja að fara um það nokkrum orðum, og því sérstaklega það atriði, sem mér finnst mestu máli skipta og ég hefði viljað leggja mesta áherzlu á, en það er það, að frv. í núv. mynd er eingöngu um húsmæðrafræðslu í sveitum. Það er þannig ekki að neinu leyti tillit tekið til þeirrar þarfar, sem í kaupstöðum er fyrir það að hafa slíka skóla, enda þótt viðurkennt sé af öllum, að þörfin fyrir húsmæðrafræðslu er í kaupstöðum engu minni en í svelt, og að sú fræðsla sé styrkt af ríkinu Eiginlega væri rétt að kalla frv. þetta ekki frv. um húsmaðrafræðslu, heldur frv. um húsmæðrafræðslu í sveitum, því að það er í raun og veru það, sem frv. hljóðar um.

Ég skal fyrir mitt leyti lýsa yfir því, að ég er ekki frv. mótfallinn eins og það er; síður en svo. Ég tel það vera til gagns og bóta frá því, sem er. En mér finnst bara vanta, að þessi ákvæði séu tekin inn í það, eða flutt samtímis annað frv. um húsmæðrafræðslu.

Með þessu frv. er gert ráð fyrir því, að ríkissjóður taki á sig allþung útgjöld og öllu meiri en þau eru nú, eða frá 400–450 kr. á hvern einasta nemanda, sem þessa skóla sækja. Þetta er það stór fjárupphæð þegar allt kemur saman, að mér hefði fundizt réttara að skipta henni að einhverju leyti á milli þessara tveggja aðilja, sem hafa skólanna þörf, þeirra, sem við sjó búa, og þeirra, sem búa í sveit.

Ég skal svo ekki fara fleiri orðum um þetta atriði, en endurtaka það, sem ég þegar hefi tekið fram, að ég er frv. samþykkur, sé því breytt á þann veg, að ákvæði þess taki til allrar húsmæðrafræðslu í landinu.

Um síðasta kafla frv. hefir n. ekki skilað áliti, en það er um húsmæðrakennaraskóla. Það má vel vera rétt, að það orki tvímælis, hvort það sé tímabært að stofna nú þegar kennaraskóla fyrir húsmæður. En sem sagt, ég vil að þessi atriði, að frv. taki til allrar húsmæðrafræðslu í landinu, og hitt, hvort rétt sé að setja á stofn húsmæðrakennaraskóla, séu athuguð í sambandi hvort við annað.