14.03.1938
Neðri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 510 í B-deild Alþingistíðinda. (611)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Þorsteinn Bríem:

Ég vil taka undir það með síðasta ræðumanni, að fyrirsögn frv. er allt of víðtæk. miðað við efni þess.

Hvað snertir brtt. á þskj. 80 vil ég fyrst segja það, að ég tel ekki rétt að breyta aldurstakmarkinu, færa það úr 16 árum, eins og það er ákveðið í frv., upp í 18 ár. Það er margt, sem mælir gegn þessari breyt., en sérstaklega þó það, að yfirleitt mun verða talið heppilegra að senda stúlkur til náms fljótlega eftir fermingu heldur en biða með nám þeirra fram undir tvítugsaldur. Þá eru þær oft giftar eða komnar að giftingu og geta ekki stundað nám.

Þá er 10. brtt. Þar stendur: „Ef einhver skóli hefir færri en 10 nemendur, á hann enga kröfu á styrk það ár“. Þetta virðist mér mjög hæpið. Við skulum hugsa okkur, að einhver skóli fengi umsóknir frá 10 nemendum, en svo forfallaðist einn vegna veikinda eða annara óviðráðanlegra orsaka, og nemendurnir yrðu því ekki nema 9. Undir slíkum kringumstæðum teldi ég ekki sanngjarnt að svipta skólann möguleikum á því að fá styrk. Í þessu sambandi má og líta á það, að nemendur hafa sízt minna gagn af kennslu þegar þeir eru fáir heldur en þegar þeir eru margir.

Þá get ég ekki fallizt á rök hv. frsm. fyrir því, að greiða skuli skólagjöld við þessa skóla. Ég tel ekkert réttlæti í því, a. m. k. ekki samanborið við bændaskólana. Það er engin sanngirni í því að gera mun þar á. Stúlkur geta að sjálfsögðu lagt fram ýms verðmæt störf fyrir skólana, engu siður en piltar, og verður því ekki með sanngirni gert þar upp á milli.