14.03.1938
Neðri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 523 í B-deild Alþingistíðinda. (619)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Þorsteinn Briem:

Mér þykir vænt um að heyra, að hv. n. ætlar að taka aftur til athugunar til 3. umr. 2 brtt., sem ég hreyfði aths. við. Ég skal ekki ræða frekar um 5. brtt., en ég skal benda á það, að þroski kvenna kemur fljótar en þroski karla, og ber að taka tillit til þess einnig um ákvörðun námstíma. En ég vildi sérstaklega minnast á 10. brtt., þar sem ákvæði er um það, hve marga nemendur skóli skuli hafa til að eiga kröfu á styrk. Vil ég leggja áherzlu á það, hve lamandi það getur verið fyrir starf skólans og fyrirætlanir, ef menn vita ekki fyrr en skólinn er settur, hvort hann fær styrk eða ekki. Það getur valdið því, að menn þyrðu ekki að ráða þá kennara, sem beztum væri völ á, og yrðu að sæta því, sem lakara væri, og svo mundi verða um margt, bæði hvað viðkemur viðhaldi skólanna og endurbótum. Tel ég, að þetta ákvæði veiti of litla tryggingu til að hægt sé að una við það og vænti, að hv. n. taki þetta atriði til nánari athugunar.

Viðvíkjandi skólagjaldinu kann vel að vera, að skólarnir hefðu þörf fyrir allt að 50 kr. gjaldi, en ég vil enn undirstrika þann mikla mismun, sem er á bændaskólalögunum og þessu frv., ef þetta ákvæði næði fram að ganga, þar sem gert er ráð fyrir, að nemendur í bændaskólunum séu skólagjaldsfrjálsir og eigi þar að auki kost á að vinna sér fyrir fæði, húsnæði og þjónustu, auk 100 kr. til bókakaupa, ef þeir leggja með sér eins missiris vinnu. Í stað þess á að leggja beint gjald á nem. húsmæðraskólanna.

Hv. frsm. taldi, að hv. n. hefði gert ýmsar lagfæringar á frv., en ég verð að efast um, að þær lagfæringar hafi í öllum atriðum tekizt og vil taka sem dæmi brtt. við 7. gr., þar sem rætt er um, hvað kenna skuli í húsmæðraskólunum. Má vera, að hv. n. hafi fært eitthvað þar til betra máls, en ég kann ekki við, einnig málsins vegna, að söngur sé talin bókleg námsgrein; a. m. k. geri ég ekki ráð fyrir, að það vaki fyrir hv. n., að söngur sé fyrst og fremst kenndur bóklega.

Ég verð að taka undir þá aths. hv. 2. þm. Árn., að ég tel enga goðgá, þótt í l. standi, að í húsmæðraskólum skuli kennd helztu atriði í meðferð húsdýra. Þar til heyra mjaltir og fleira, sem rétt er að taka til athugunar í því efni. Hv. n. mun kunnugt um það, bæði af eigin reynslu og annara, að kýrnar munn óvíða gera meira gagn í búum en þar, sem konan hefir sjálf eftirlit með hirðingu þeirra. Það er ekki meiningin, sem fyrir mér vakir, að konan læri það, sem kallað er almennar gegningar hér á Suðurlandi, heldur helztu atriði í meðferð húsdýra og læri að bera skyn á og bera virðingu fyrir því starfi, sem þar til heyrir.

Ég verð að taka undir það, sem sagt var um ákvæði í 8. gr. um skólaráð, að það sé ekki nægilega nákvæmt. Hygg ég, að æskilegt væri að hafa nánari ákvæði um, hverjir skuli velja menn í skólaráð, þegar svo stendur á, hverjir séu stofnendur skólans og hverjir skuli hafa rétt til fulltrúa þar. Hv. n. mun kannast við, að svo stendur á um a. m. k. einn skólanna, að ástæða gæti verið til að setja nánari ákvæði þar að lútandi, hvort sýslunefnd skyldi ráða tilnefningu manna í skólaráð eða ungmennafélagasamband og samband kvenfélaga.

Þá vil ég lýsa því yfir, eins og nú horfir um framtíðina, að ég teldi illa farið, ef till. hv. þm. V.-Ísf. við 2. kafla frv. næði fram að ganga.

12. brtt., við 14. gr., var orðuð þannig, að heimilt væri að stofna húsmæðrakennaraskóla eða framhaldsdeild o. s. frv. Það eru, eins og ég hefi þegar bent á, mörg mikilsvarðandi atriði í sambandi við stofnun húsmæðrakennaraskóla. sem ég ætla, að ekki séu nægilega athuguð, en þá mætti stofna framhaldsdeild, meðal annars til að öðlast reynslu hvað þetta snertir.