14.03.1938
Neðri deild: 21. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 525 í B-deild Alþingistíðinda. (620)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég þarf fáu að svara ræðu hv. þm. Dal. Að því er snertir það, sem hann talaði um nauðsyn þess að kenna konum meðferð húsdýra, get ég látið nægja það, sem ég svaraði hv. 2. þm. Árn. Viðvíkjandi því, að það sé gott, að konur kunni sem flest og mest, verður að athuga, að það er mjög takmarkað, hvað hægt er að gera á svo stuttum tíma.

viðvíkjandi ákvæðinu um það, að skólarnir skuli hafa fæst 10 nemendur, þá hlýtur skólanefnd að vita það áður en skólinn er settur, hve nemendurnir verða margir og þar af leiðandi, hvort skólinn fær styrk eða ekki, og vildi hv. þm. halda fram, að skólarnir yrðu e. t. v. sviptir styrk fyrir of fáa nemendur, en þarna er aðeins heimild fyrir ríkisstj. til að svipta skóla styrk, þegar sýnt er, að hann er svo illa sóttur, að ekki svarar kostnaði að halda honum uppi. Það getur komið til mála að breyta þessari gr. eitthvað, og hefir komið fram till. þar að lútandi, að n. taki þetta atriði til athugunar til næstu umr.

Ég verð að halda því fram, þrátt fyrir það, sem hv. þm. Dal. sagði, að breyt. þær, sem n. hefir gert, væru ekki allar til bóta, og var að fetta fingur út í það, að söngur væri talin bókleg námsgrein, þá er það ekki verk n. að breyta því í það horf, þar sem það var í frv.

Viðvíkjandi skólagjaldinu vil ég geta þess, að það getur auðvitað komið fyrir í þessum skólum eins og öðrum, að þangað komi nemendur, sem eigi mjög erfitt með að greiða skólagjald. Þá vil ég benda á ákvæði í 10. gr.: „Auk þess má veita hverjum skóla sérstaka upphæð til styrktar fátækum nemendum“, og geri ég ráð fyrir, að þetta ákvæði yrði tekið þannig til framkvæmdar, að það næði fyrst og fremst til þeirra nemenda, sem örðugt eiga með að greiða skólagjald sitt.