23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 528 í B-deild Alþingistíðinda. (626)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég get verið fáorður um þetta mál, því að hv. 2. þm. Skagf. hefir tekið af mér ómakið.

Ég skal þegar svara þeirri fyrirspurn fyrir mítt leyti, sem hv. þm. Ísaf. bar fram um, hvernig n. mundi taka samskonar frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum. Ég skal þá endurtaka það, sem fallið hefir áður í umr. um þetta mál, bæði frá landbn. og fleirum, að hún viðurkenndi vissulega nauðsyn á því, að húsmæðrafræðsla í kaupstöðum yrði styrkt á svipaðan hátt og sveitirnar eiga nú að fá samkv. þessu frv. En við álitum, að það sé talsvert öðru til að dreifa um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum en í sveitum. Þetta mál er tekið upp á svipuðum grundvelli og bændafræðslan. Þess vegna hefir þetta frv. verið flutt af landbrh. og farið til landbn. Hinsvegar býst ég ekki við, ef fram kæmi frv. um húsmæðrafræðslu í kaupstöðum, að það kæmi til kasta landbn., heldur menntmn. Ég get lýst því yfir fyrir mína hönd, og ég hygg einnig fyrir hönd meðnm. minna, að við sem alþm. mundum taka slíkri málaleitun vel.

Viðvíkjandi brtt., sem fram hafa komið við frv., skal ég fyrst geta þess, að af vangá, sem er líklega mér að kenna, hefir fallið niður úr brtt., sem n. hafði samþ. við 11. gr., sem sé gr. um skólagjald, að aftan við hana bætist: Þó er heimilt að taka húsaleigu af nemendum, allt að 40 kr. — Þessa brtt. hafði n. komið sér saman um, en hún hefir af vangá fallið niður. Vil ég því leyfa mér að bera hana fram skriflega og vænta, að hæstv. forseti beri hana upp í d.

Þá skal ég minnast á brtt., sem fram hafa komið frá hv. þm. Árn. og 2. þm. Rang. um umorðun á 7. gr. Ég get lýst því yfir fyrir hönd n., þó að ekki hafi farið fram atkvgr. um það, þá álítur hún hana lakari en það, sem samþ. var við síðustu umr. málsins. Eins og við vitum, þá er t. d. þannig ástatt um einn þessara skóla, að hann hefir ekkert skólahús; það yrði því erfitt að veita þar kennslu í þessum efnum. Annars stend ég við það, sem ég hefi tekið fram áður undir þessum umr., að mér finnst þessi kennsla eiga betur heima við bændaskólana, en mun eftir ástæðum geta gengið inn á, að greinin verði orðuð á þann veg, að kennsla í hirðingu húsdýra skuli fara eftir því, sem við verði komið.

Þá er brtt. á þskj. 111, frá mér og hv. þm. Borgf., að engu skuli slegið föstu um það, að húsmæðrakennaraskólinn skuli vera að Laugarvatni, verði hann stofnaður, heldur skuli það vera látíð óbundið, við hvern héraðsskólanna hann verði.