23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 532 í B-deild Alþingistíðinda. (632)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Frsm. (Bjarni Ásgeirsson):

Ég tók það fram, þegar ég svaraði fyrirspurn hv. þm. Ísaf., að landbn. teldi nauðsynlegt, að húsmæðraskólum í kaupstöðum yrði veittur hliðstæður stuðningur þeim, sem veittur yrði húsmæðraskólum í sveitum. Hitt hefi ég ekki gert upp við mig, hvort skólar í kaupstöðum muni þurfa eins mikinn styrk og skólar í sveitum. Ég held t. d., að kennslukraftar í kaupstöðum geti orðið ódýrari, og fleira slíkt gæti komið til greina, en það má athuga, er frv. um húsmæðraskóla í kaupstöðum kemur fram, hvaða styrkur þeim beri. Ég skal geta þess, að hv. 7. landsk., sem á sæti í landbn., hreyfði þessu máli hvað eftir annað, og vildi hann láta taka afstöðu til þess samtímis að því er kaupstaði og sveitir snertir. En hann gat þess, að ekki myndi þörf á jafnmiklum styrk í kaupstöðunum.

Ég skal ekki fara að deila við hv. 2. þm. Árn., en aðeins geta þess, að þó að nú væri lögfest, hvar skólar þessir ættu að standa, er engan veginn loku fyrir það skotið, að síðar kæmu upp deilur um það, hverjir væru heppilegustu staðirnir. Deilur um þetta verða tæplega útilokaðar, fyrr en skólarnir eru komnir hver á sinn stað.