23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 533 í B-deild Alþingistíðinda. (634)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Sigurður E. Hlíðar:

Herra forseti! Mér er það ljóst, eins og þeim tveim hv. þm., sem síðast töluðu, að með þessu frv. á þskj. 26 eru ekki leyst áhugamál kaupstaðanna að því er húsmæðrafræðslu snertir. Þar að auki tel ég líklegt, að liðhlaup myndu verða frá þessum sveitaskólum í kaupstaðina, því að ég geri ráð fyrir, að kaupstaðabúar muni sækja sér konur í sveitirnar hér eftir sem hingað til, sem og öfugt. Ég hefi orðið var við, að talsverður reipdráttur hefir átt sér stað milli sveita og kaupstaða um húsmæðrafræðsluna, og í þessu frv. hafa kaupstaðirnir orðið útundan. Ég mun þó ekki spyrna við því, að húsmæðrafræðsla geti komizt í gott horf í sveitunum, í þeirri von, að kaupstaðirnir komi þá á eftir. Mun ég því taka liðlega á málinu og veita því atkv. mitt.

Hér eru nú komnar fram nokkrar brtt. og sumar skrifl., sem ég hefi ekki enn náð til. Um brtt. á þskj. 112 er það að segja, að hún hefir sætt talsverðum andmælum, og það úr hörðustu átt, sem sé frá hv. landbn. Virðist það vera keppikefli þessarar hv. n. að láta ekki samþ. aðrar till. en sínar. Þó tel ég þessar brtt. á þskj. 12 talsvert miklu betri en brtt. hv. n. Í brtt. á þskj. 112 er sagt, að leiðbeina skuli nokkuð í garðrækt og húsdýrarækt. Virðist til ,þess ætlazt, að þetta séu að vísu aukanámsgreinar, en að í þeim skuli þó fara fram nokkur kennsla. Ég tel garðrækt a. m. k. sjálfsagða námsgrein, og ég skil ekki, hví hv. þm. A.-Húnv. er að stympast á móti henni. Hann taldi þessa námsgrein óeðlilega, af því að skólarnir myndu ekki starfa á sumrin. En er hv. landbn. ekki kunnugt um, að allur undirbúningur garðræktar fer fram að vorinu?

Um húsdýraræktina er það að segja, að ég býst ekki við, að hér sé átt við húsdýrarækt almennt, heldur eigi að kenna alifuglarækt og auk þess mjólkurmeðferð, mjaltir og slíkt, sem sérstaklega snertir verkahring húsmæðranna.

Viðaukatill. hv. þm. Mýr., að bæta skuli aftan við næstsíðustu málsgr. brtt. á þskj. 112 orðunum „eftir því, sem við verður komið“, tel ég óþarfa, því að í sjálfri gr. er nægilegur fyrirvari, þar sem sagt er, að leiðbeina skuli nokkuð í þessum námsgreinum.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu, að ég tel brtt. á þskj. 112 betri en brtt. hv. landbn.