23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 534 í B-deild Alþingistíðinda. (635)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Sveinbjörn Högnason:

Hér hafa orðið talsverðar deilur um þetta frv. til l. um húsmæðrafræðslu, að því er snertir viðhorfið til sveitanna annarsvegar og kaupstaðanna hinsvegar, og hv. þm. Ísaf. hefir jafnvel komið með till. um að einskorða frv. algerlega við sveitirnar og taka það fram í fyrirsögn þess. Mér finnst nú, eins og hv. þm. V.-Sk., að ekki sé svo mikill munur á því, sem húsmæður þurfa að kunna í sveitum og kaupstöðum. En mér finnst, að með þessu frv., sem gerir áætlun um a. m. k. 7 skóla í sveitum landsins, sé stigið svo stórt byrjunarspor, að ekki sé þörf á að ræða um húsmæðraskóla í kaupstöðum jafnframt. Ég sé ekki, að það sé neitt höfuðskilyrði, að skólarnir séu reistir á alveg ákveðnum stöðum, t. d. í tilteknum kaupstöðum. Fyrir mitt leyti tel ég það heppilegra, að uppeldisstofnanir sem þessar séu fluttar út úr þéttbýlinu, og hygg ég, að uppeldisáhrif þeirra muni yfirleitt verða því betri sem þær eru fjær kaupstöðunum. Mér er kunnugt um, að beztu húsmæðraskólar erlendis standa margir utan kaupstaðanna, þar sem strjálbýlið er meira. Ég sé enga ástæðu til, að jafnhliða því, sem Alþ. lögleiðir, að ríkið styrki 7 húsmæðraskóla í landinu, þá sé rætt um að koma upp öðrum sjö í kaupstöðunum. Það er sannarlega ekki allt undir því komið að sefja skólana á ákveðna staði, heldur að þeir geti fullnægt því, sem þeim er ætlað að vinna. Aðalatriðið er, að það sé hægt að fullnægja þörfinni á hverjum tíma.

Ég tel það stórt spor, sem stigið er með því að styrkja þessa 7 skóla af ríkinu, og tel sjálfsagt að sjá til, hversu mikil aðsókn verður að þeim og hversu vel þeir fullnægja þörfinni, áður en farið er að deila um að láta aðra sjö sigla í kjölfar þeirra. Ég held satt að segja, að þéttbýlið sé búið að fá til sín ef til vill meira af skólum en hollt er fyrir þjóðfélagið. Ég tel alls ekki sjálfsagt, að hver unglingaskóli eigi rætur sínar í þéttbýlinu.

Þetta eru almennar hugleiðingar, sem ég vildi koma með, því ég tel, að það eigi ekki við að koma hér upp almennri togstreitu milli sveita og kaupstaða um þetta efni, því fyrst er að sjá, hvaða gagn þessir skólar vinna.

Um brtt. frv. er það að segja, að það er aðeins ein, sem ég tel ástæðu til að minnast ofurlítið á, en það er brtt. á þskj. 11l, frá hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf., sem ég tel misráðið, að skuli vera fram komin hér á Alþ. við þetta mál. Það er ekki vegna þess, að ég telji miklu máli skipta, við hvaða héraðsskóla þessi húsmæðrakennaraskóli skuli reistur. Ég hygg, að það skipti ekki miklu máli, því það er sjálfsagt, að hann sé reistur þar, sem staðhættir eru beztir. En ég tel, að þeir, sem undirbjuggu þetta frv., og ekki sízt hv. landbn., hefðu átt að geta komið sér saman um þetta atriði, áður en málið var flutt inn í hv. d., því með því að flytja það í ágreiningi inn í hv. d., þá leggur hún mikinn þröskuld í veg fyrir það, að þessi húsmæðrakennaraskóli verði reistur sem fyrst hér á landi. Ef til vill er fáum kunnugra um, hversu hættulegt er að stofna til togstreitu um það, hvar skóli skuli standa, heldur en þeim, sem um nokkurt skeið hafa lifað á Suðurlandsundirlendinu, þar sem um 20 ár stóð á því, að við fengjum héraðsskóla eða unglingaskóla af þeirri ástæðu einni, að það var togazt á um það milli 2 sýslufélaga, hvar skólinn ætti að standa. Ég fullyrði, að eftir að þessi skóli, sem þessi togstrelta stóð um, hvar ætti að standa, er búinn að starfa í 8 ár, þá hafa héruð þau, sem hans eiga að njóta, ekki enn borið bætur þessarar togstreitu. Ég fullyrði, að það er mikið af fólki, sem ekki sækir skólann vegna þess, að það eimir eftir af þeirri harðvítugu deilu og togstreitu, sem var um það, hvar skólinn skyldi reistur. Ég harma þess vegna, að hv. landbn. skyldi ekki bera gæfu til þess að ákveða alveg samhuga, hvar skólinn skyldi reistur. Ég tel, að það skipti ekki öllu máli, hvar hann sé, heldur að það sé ákveðið og það sé útilokað, að togstreita um það, hvar hann eigi að standa, standi í vegi fyrir því, ef til vill um mörg ár, að hann verði reistur, en ég tel fulla þörf á því, að það verði sem fyrst.

Það er rétt hjá hv. form. landbn., þm. Mýr., að togstreita er ekki útilokuð með þessum l. Það er hægt að breyta l. En hún er síður útilokuð, ef gefið er svigrúm fyrir fleiri og fleiri staði.

Ég vil þess vegna eindregið ráða hv. þdm., ef þeir hafa áhuga fyrir því, að húsmæðrakennaraskóli komi upp sem fyrst, til þess að fella þessa till. frá hv. þm. Mýr. og hv. þm. Borgf., sem aðeins getur orðið til þess, eins og hv. þm. Mýr. réttilega minntist á, að togstreita verði um staðinn, sem verði svo til þess að fresta því um mörg ár, að þessi skóli komist upp.

Ég tel ekki máli skipta um aðrar brtt. Ég tel, að þær liggi nokkuð ljóst fyrir, því það er búið að ræða málið mikið. Ég vil þó lýsa því yfir, að ég er fylgjandi brtt. á þskj. 112, og tel ég þarna ganga nær því rétta en brtt. landbn.