23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 537 í B-deild Alþingistíðinda. (637)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Eiríkur Einarsson:

Ég ætlaði mér ekki að taka til máls, því það hafa nógu margir orðið til þess. En það voru nokkur orð, sem féllu hjá hv. 1. þm. Rang., sem hafa knúið mig til þess. Ég álít, að það sé ekki rétt að láta atriði, sem koma þar fram, ómótmælt. Þar var minnzt á togstreitu, sem hefði orðið við stofnun ákveðins héraðsskóla, Laugarvatnsskólans, og hvernig hún verkaði enn á nokkurn hluta á skólasvæðinu á þann hátt, ef ég hefi tekið rétt eftir, að menn sendu ekki nemendur til skólans. Ég álít, að það hafi verið óheppilegt og óviturlegt af hv. 1. þm. Rang., að fara að vekja máls á þessu hér á hv. Alþ. Mér finnst, þegar í svo víðtæku og viðkvæmu máli hefir verið togstreita og hiti í mönnum um skólastaðinn, að þeim, sem standa að skólanum, muni vera það kærast, að ekki sé minnzt meir á það, og sízt af öllu minnzt á það í þeim tón, þar sem álitamál er, hvort rétt sé frá skýrt um afleiðingar þess, sem orðið hefir. Ég held, að það, sem hv. þm. gat um, að menn létu skólann gjalda þess, að þeir voru á móti skólastaðnum í öndverðu, sé nokkuð ofsögum sagt. Ég hygg, og ég vil segja það fyrir munn þeirra foreldra, sem eru á því svæði, sem liggur einna næst skólanum, að þetta er ofsagt hjá hv. þm., og geri ég ráð fyrir, að það sé af því, að hann hyggur það vera eins og hann lýsir því, en ekki af því, að hann segi þetta á móti betri vitund. Ég veit, að það eru margir úr Árnessýslu, sem vildu í upphafi skólann á allt öðrum stað heldur en á Laugarvatni, sem senda börn sín þangað, eins og ekkert hefði í skorizt. Um það, hvort hægt sé að finna dæmi þess, að menn sendi síður börn sín þangað vegna þess, að þeir vildu hafa skólann annarsstaðar, get ég auðvitað ekki fullyrt neitt um frekar en hv. 1. þm. Rang. Það mætti kannske tilfæra önnur dæmi um menn, sem ekkert höfðu við þennan stað að athuga. en hafa átt börn, sem voru á því þroskaskeiði, að það svaraði til námstíma á Laugarvatni, en hafa þó ekki sent börn sín þangað, heldur á aðra skóla. Þetta gengur þannig á margan veg.

Ég vil fullyrða, að það kapp, sem einu sinni var um Laugarvatn, er dottið niður, og þá fyrst og fremst í Árnessýslu. Og ég vil segja þeim til lofs, sem eiga við slíka skóla að búa, hvort sem það er Laugarvatn eða aðrir héraðsskólar, að þeir senda börn sín í skólana eftir því, hvernig er að vera þar, og eftir því, hverjum þroska þeir álita, að börnin muni taka þar.

Fyrst ég stóð upp, þá vil ég segja það, að margir af þeim, sem voru upphaflega á móti því, að skólinn væri reistur á Laugarvatni, eru allra manna fúsastir til að viðurkenna það, sem ber að viðurkenna og má gott um skólann segja. Það má auðvitað eitthvað að öllu finna. Ég veit, að héraðsbúum er, eftir því sem reynslan hefir sagt þeim til vegar um það, ljúft að viðurkenna, að skólastjórinn á Laugarvatni hefir, þegar hann er heima og hans nýtur við, reynzt ágætur húsbóndi.

Hv. þm. mega vara sig á því, þó þeir í hita dagsins fái ef til vill blóðhita, sem er eitthvað fram yfir normalhita, að þeir komi þá ekki með ummæli, sem betra er að séu óhreyfð. Ég held, að Sunnlendingar séu yfirleitt þeir jafnvægismenn, að þeir séu yfirleitt búnir að ná sér eftir þann hita, sem var í mönnum út af því, hvar skólinn ætti að standa. Ég vil þess vegna mótmæla orðum hv. þm. um þetta, og tel ég þau ósanngjörn og óréttmæt.