23.03.1938
Neðri deild: 32. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 538 í B-deild Alþingistíðinda. (638)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Pétur Ottesen:

Ég ætla að segja nokkur orð út af því, að fram er komin brtt. frá hv. þm. Ísaf. um að breyta fyrirsögn þessa frv. Ég fyrir mitt leyti get ekki fallizt á, að það sé rétt að gera tilraun til þess að binda það í fyrirsögn þessa frv., hvaðan af landinu þær konur séu, sem gert er ráð fyrir, að sæki skólana. En mér virðist að hv. flm. þessarar till. vilji slá því föstu með henni, að þessir skólar séu eingöngu fyrir konur úr sveltum landsins. Hann var að vitna í það, að fyrirsögnin fyrir 1. kafla hljóðaði um húsmæðraskóla í sveit. En fyrirsögnin fyrir kaflanum segir ekkert annað en að skólarnir eigi að vera í sveit, eins og gr. bendir til, þar sem því er slegið föstu, hvar skólarnir eigi að vera. Þeir eigi allir að vera í sveit, að undanteknum einum, sem á að vera í sveitaþorpi, sem er svo nátengt sveit, að þar verður naumast skilið á milli. Þess vegna er ekkert ósamræmi í fyrirsögn frv. og fyrirsögn 1. kafla. Ég vil þess vegna mælast til þess, að hv. dm. greiði atkv. á móti þessari brtt.

Ég get vel fallizt á það, sem hv. 1. þm. Rang. sagði hér áðan, að með lausn þessa máls, þar sem gert er ráð fyrir að koma upp öllum þessum húsmæðraskólum, þá sé svo langt gengið í þessu efni, að ekki sé nauðsyn á að fara að lögbjóða, eins og sakir standa, frekari útfærslu á húsmæðrafræðslunni en hér er gert. Það er víst, að nú starfa í sumum kaupstöðum skólar, sem njóta nokkurs styrks frá ríkinu til þessara hluta, og að því leyti, sem aukning á héraðaskólunum leysir ekki þetta spursmál fyrir kaupstaðina, þá geri ég ráð fyrir, að haldið verði áfram á þeirri braut. Mér virðist, þegar á þetta er litið, þá sé það beinlínis til hins lakara og andstætt þeim tilgangi, sem liggur á bak við þetta frv., að slá því föstu í fyrirsögn þess, að gert sé ráð fyrir því, að skólarnir séu ekki sóttir nema af konum úr sveit. Ég vænti þess, að hv. dm. séu sammála um að láta fyrirsögn þessa frv. standa óbreytta.

Út af því, sem hv. 1. þm. Rang. fór að tala um brtt., sem við hv. þm. Mýr. flytjum og hefir komið á stað umr. um alveg óskylt efni því, sem hér liggur fyrir, þá vil ég segja það, að ég er dálítið undrandi yfir því, að hann getur ekki verið okkur sammála um, að eins og þetta mál horfir nú við, þá sé það ekki aðeins rétt, heldur líka sjálfsagt, að vera ekki neitt að ákveða um það í l., hvar þessi væntanlegi húsmæðrakennaraskóli skuli reistur. Það má því miður gera ráð fyrir, að þess verði ekki kostur að reisa skólann nú þegar, og þess vegna gæti á þeim tíma, sem kann að líða frá því að frv. verður að l., ef það verður samþ., og þar til að því kemur að fara að reisa þennan skóla, þá gæti ýmislegt komið fram, sem benti til þess, að hyggilegra væri að hafa skólann frekar á einhverjum öðrum stað heldur en þeim, sem ákveðinn hefði verið í l., og þess vegna er það miklu eðlilegra, að þetta standi opið heldur en að vera að slá einhverju föstu um það fyrirfram.

Ég held, að það þurfi ekki að vera að hræða menn með dæminu, sem dregið hefir verið inn í þessar umr. Þar var eingöngu að ræða um héraðskryt, sem sérstaklega snerti 2 sýslur, sem skólinn er sérstaklega reistur fyrir, þó hans leiti menn víðsvegar að. En hér er um það að ræða að reisa einn skóla, sem á að taka að sér þetta hlutverk fyrir allt landið. Þess vegna held ég, að það þurfi ekki að hræða með héraðskryt í þessu efni. Það tryggir líka í sjálfu sér ekkert, þó þetta sé ákveðið í l., því viðhorfið getur orðið allt annað, þegar á að fara að reisa skólann. Það er því réttara, að það sé látið standa opið, hvar þessi skóli verður reistur.

Það má ráða af líkum, að það er ekki af neinum illvilja til þessa máls, að við hv. þm. Mýr. flytjum þessa brtt. Við höfum unnið að því að greiða götu þessa máls og átt þátt í því að semja þetta frv. gersamlega um, því frv. var þannig úr garði gert, þegar það barst n., að þess var þörf. Þessi þörf hefir verið viðurkennd af hv. dm. með því að fallast á allar þær brtt., sem n. hefir flutt, að undanteknum þeim, sem snerta eitt eða tvö atriði frv., sem ágreiningur hefir risið upp um. En það snertir ekki frágang málsins. Af þessu má það vera ljóst, að fyrir okkur vakir ekkert annað en að leggja það til, sem sé endanlegri lausn þessa máls fyrir beztu