06.05.1938
Sameinað þing: 27. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 116 í B-deild Alþingistíðinda. (64)

1. mál, fjárlög 1939

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Ég á hér eina brtt. á þskj. 423, XXIIl, við 15. gr., sem er á þá leið, að í stað 500 kr. komi 750 kr. til Helga Guðmundssonar. Og skal ég færa örlitla grg. fyrir þessari till. minni.

Þessi maður, sem er þjóðsagnasafnari, hefir undanfarin ár fengið 500 kr. styrk til starfsemi sinnar. Hefir hann sérstaklega lagt ræki við Vestfirðingafjórðung, og grafið upp úr gleymskunnar djúpi ýmsar sögur, sem snerta sérstaklega þann landsfjórðung, og hefir hann til þess lagt á sig mikið starf. Þessi maður hefir sem sagt fengið þá hugsjón, að verja starfi sínu eingöngu í þágu þessara fræða. Leggur hann því land undir fót á sumrin, ferðast frá einu bý1inu til annars, alla leið frá Breiðafirði og vestur að Hornströndum. Og sýnir þetta, hvílíkan áhuga hann hefir á sínu starfi. — Hann er bláfátækur, og tekjur hans eru aðeins þessi styrkur, sem hann hefir fengið á fjárl., og þau litlu ritlaun, sem hann fær fyrir þær sögur og sagnir, er hann lætur á þrykk út ganga. En það er vitanlegt, að honum nægja ekki þessar tekjur til lífsframfæris, þrátt fyrir allan þann sparnað, sem ég veit, að hann hefir um hönd í sínum lifnaðarháttum. Og ég veit, að hann myndi harma það mjög, ef hann einhverra hluta vegna, t.d. fjárskorts, yrði að leggja niður þetta áhugamál sitt. Þess vegna hefi ég gert það að till. minni, að styrkur hans verði hækkaður upp í 750 kr. Að vísu fór hann sjálfur í umsókn til fjvn. fram á eitt þúsund kr., en n. mun ekki hafa séð sér fært að taka til greina. Þeirri umsókn hans fylgdu umsagnir frá ýmsum kunnum mönnum, m. a. frá Sigurði Nordal, sem hefir mælt eindregið með því, að þessi maður fái að halda áfram starfi sínu. Eins munu margir fleiri líta velþóknunaraugum á þetta starf hans og unna honum þess að geta óhindrað haldið áfram starfi sínu, meðan heilsa og kraftar leyfa.

Ég vil svo leyfa mér að minnast á þá brtt., sem ég, ásamt hv. þm. Seyðf., flyt á þskj. 444, XIV, við 17. gr. fjárl., um það, að mæðrastyrksnefndinni verði veittar 2 þús. kr. til sumarheimilís mæðra í Hveragerði. Það mun hafa legið fyrir fjvn. erindi, þar sem farið var fram á 2 þús. kr. til þessarar starfsemi. Hér er nú farið fram á sömu upphæð, en til vara 1500 kr. — Fyrir þinginu 1937 lá mjög ýtarleg grg. frá mæðrastyrksnefndinni um hennar starf, og m. a. um þá starfsemi, sem nefndin hefir haft með höndum, að veita fátækum mæðrum sumardvöl á góðum og heppilegum stað, eins t. d. á Laugarvatni. Nú hefir nefndin ráðizt í það að leigja sér hús í Hveragerði í Ölfusi í þessu augnamiði. — Í umsókn mæðrastyrksnefndarinnar til þingsins 1937, var þess getið, að um 120 konur hefðu þá notið þessarar dvalar. Kostnaðurinn við slíkt er að sjálfsögðu mjög tilfinnanlegur, en eins og kunnugt er, þá hefir mæðrastyrksnefndin einungis það fé til umráða, sem hún getur aflað sér með samskotum, auk þess sem bæjarstjórn Reykjavikur hefir veitt henni nokkra upphæð, og á fjárl. hefir einnig, að mig minnir, verið veittur til hennar nokkur styrkur.

Það er án efa hið þarfasta verk, sem mæðrastyrksnefndin vinnur með því að koma fátækum barnamæðrum til dvalar uppi í sveit yfir sumartímann, þótt ekki sé nema viku- eða hálfsmánaðartíma, því að flestar þeirra eiga þess engan kost að lyfta sér upp frá barnaargi og bæjarryki til þess að njóta þeirrar hollustu, sem sveitaveran getur veitt fólki, sérstaklega þegar svo tekst til, að veðráttan er góð. Eg vænti því, að hv. þm. geti greitt till. eins og þessari atkv. sitt.

Þá á ég hér aðra brtt. á þskj. 444, .XlI, við 16. gr. Þær till., sem þar er um að ræða, snerta svo sem sjá má eina stofnun, sem ríkið hefir með höndum, skipaeftirlit ríkisins. Í fjárl.frv. er nú gert ráð fyrir því, að allur kostnaður, sem ríkið greiði við skipaskoðun og eftirlit, sé um 18 þús. kr., og er það sundurliðað, eins og sjá má í fjárl.frv. — Nú liggur fyrir Alþ. frv. um ýmsar endurbætur á lögunum um eftirlit með skipum, og er það komið svo langt áleiðis, að það mun aðeins eiga eftir eina umr. í hv. Nd. Ég vænti nú þess, að þetta mál, sem ég hefi verið nokkuð við riðinn á undanförnum þingum. verði samþ., en í frv. er gert ráð fyrir því, að kostnaður við skipaeftirlit aukist nokkuð, frá því sem nú er, og svo er einnig gert ráð fyrir því, að ákveðin skuli vera á fjárl. öll aðstoð við skipaeftirlitið og ferðakostnaður. Sá aukni kostnaður, sem hér er um að ræða, er eiginlega þrennskonar. Í fyrsta lagi er gert ráð fyrir því, að á skrifstofu skipaskoðunarstjóra komi nýr aðstoðarmaður, sem á að hafa í byrjunarlaun 4800 kr., og er það mín fyrsta till. við þennan lið. Ég æta ekki að fara að ræða það þér, hve nauðsynlegt það sé að hafa við hlið skipaskoðunarstjóra mann, sem geti í hans forföllum gegnt hans störfum og tekið við, ef hann kynni að falla frá. — Þá legg ég til, að skrifstofukostnaðurinn verði hækkaður um 600 kr., og er það samkvæmt þeim till., sem mþn. um þetta mál lagði til. Getur þó komið til athugunar, hvort ekki mætti eitthvað úr honum draga. Ég skal ekkert um það fullyrða, hvort hægt væri að fækka þarna eitthvað mönnum, en líklegt er það nú ekki.

Þá er gert ráð fyrir því í þessu sama frv., að einn maður í hverjum landsfjórðungi hafi sérstakt eftirlit með framkvæmd laganna um eftirlit með skipum. Samkvæmt till. mþn. var gert ráð fyrir því, að 3000 kr. væri varið til þóknunar handa þessum mönnum. Og ég fer fram á, að sú upphæð verði einnig selt inn á fjárl.

Þá gerði sama mþn. ráð fyrir því, að ferðakostnaður skipaskoðunarstjóra og eftirlitsmanna samanlagt yrði hækkaður úr 3000 kr. upp í 4600 kr. Virðist þar ekki vera of djúpt í árina tekið, því að vitanlega þurfa eftirlitsmennirnir að ferðast milli hinna ýmsu útgerðarstaða á landinn, og að sjálfsögðu eiga þeir að fá þann ferðakostnað greiddan, til þess að geta fullnægt því starfi, sem þeim er lagt á herðar.

Ég hefi nú gert nokkra grein fyrir þessum brtt., sem ég flyt beinlínis af því, að ég vænti þess fastlega, að frv. verði að lögum, og eiga þau þá að ganga í gildi í ársbyrjun 1939. Og kemur því tvímælalaust til útgjalda ríkissjóðs sá kostnaður, sem af hinu aukna eftirliti leiðir. Ég vænti því, að hv. Alþ. geti fallizt á, að ekki megi draga úr þeim upphæðum, sem hér er farið fram á, því að eins og ég hefi gert grein fyrir í umr. um þetta mál í hv. Ed., þá er verið að tryggja með fullkomnara skipulagi heldur en verið hefir líf allra þeirra manna, sem sjóinn stunda, og sem munu vera um 7000 í allt, þegar flest er. Það er mikið í húfi, hvernig um skipastólinn er búið og eftir honum litið á hverjum tíma, og ég verð að segja það sem mína skoðun, að þótt hér sé varið 27000 kr. af hálfu ríkisins, þá sé þar ekki of miklu fórnað.

Ég ætla svo ekki að þessu sinni að ræða fleiri brtt. Ég er að vísu við fleiri riðinn, en þeim hefir enn ekki verið útbýtt, svo að ég geymi mér að ræða um þær þangað til síðar.