06.05.1938
Sameinað þing: 27. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 118 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1939

*Guðrún Lárusdóttir:

Herra forseti! Ég á hér við þessa umr. 2 brtt., við fjárlfrv., sem mig langar til að fara um örfáum orðum.

Það er þá fyrst brtt. á þskj. 425,XXIX, við 16. gr. 39., nýr liður. Þar er farið fram á að styrkja konu hér í bænum til þess að undirbúa matreiðslubók, til leiðbeiningar um meðferð og matreiðslu íslenzkra jurta. Starfsemi þessarar konu, Helgu Thorlacius, er löngu þekkt og viðurkennd, þar sem Alþ. hefir áður verðlaunað hana að nokkru. Á ríkisreikningnum fyrir árið 1936 getur að líta nokkur hundruð krónur til hennar sem viðurkenning fyrir hennar nýta starf að því að kynna íslenzkum húsmæðrum meðferð og matreiðslu þeirra jurta, sem vaxa á okkar eigin jörð, svo að segja fyrir fótum okkar. Það má vænta mikils fróðleiks og gagns af matreiðslubók frá þessari konu. Hún hefir til þessa ekki gefið út neinn leiðarvísi í þessum efnum, en starfsemi hennar hefir verið háttað á þann veg, eins og flestir hér munu vita, að hún hefir haldið námskeið víðsvegar um landið. Hér í Reykjavík hefir hún haldið hvert námskeiðið á fætur öðru og kennt þessa íþrótt, sem er tiltölulega ný á voru landi. Það hefir til skamms tíma ekki verið mikið að því gert að notfæra sér íslenzkar jurtir. Ég tel því, að hér sé um mikið framfaraspor að ræða, sem sé þess virði, að það sé styrkt. Ég held líka, að þessi kona hafi aflað sér svo staðgóðrar þekkingar á þessum málum, að tryggt sé, að ráðleggingar hennar komi að miklum notum, og að Alþ. muni gera þjóð sinni greiða með því að styrkja starfsemi þessarar konu. Nú hafa að vísu verið gefnar út smámatreiðslubækur um meðferð íslenzkra jurta, þar á meðal „150 jurtaréttir“, eftir Helgu Sigurðardóttur, sem er ágæt bók í alla staði. En sú bók, sem Helga Thorlacius hefir í undirbúningi, kemur ennþá víðar við og er á allan hátt öðruvísi, og ég held, að enda þótt bók Helgu Sigurðardóttur sé til fyrir, þá sé ekki ofgert að bæta þar við. Nú er það svo með þessa konu, Helgu Thorlacius, að hún er algerlega eignalaus manneskja, svo að af eigin rammleik er henni ókleift að inna þetta starf af hendi, og þessar 500 kr. eru vitanlega ekki nægar til þess, að kosta útgáfu bókarinnar, þótt lítil sé, þar sem slíkt er afardýrt nú á dögum. En til undirbúnings þessa starfs, svo að hún geti dregið að sér það, sem hana vantar til að geta fullgert handritið, tel ég, að þessar 500 kr. geti komið í góðar þarfir fyrir hana.

Ég vænti sem sagt, að Alþ. sjái ástæðu til þess að sinna þessari smáupphæð, því að ég hygg, að hún endurgreiðist nokkurnveginn gegnum aukna þekkingu og bætt fæði og meiri notkun á því, sem fyrir er í okkar eigin landi. Nú keppast þjóðirnar um að búa sem mest að sínu og gera það sem notadrýgst heima fyrir, og okkur Íslendingum veitir sannarlega ekki af því að nota þær jurtir, sem í kringum okkur vaxa, enda hefir maður verið hvattur til þess nú á síðari árum, með þeim árangri, að garðrækt hefir farið mjög í vöxt, þótt ekki sé þar komið eins vel á veg og vera þyrfti.

Ég ætla svo ekki að orðlengja frekar um þessa till. Ég afhendi hana til dóms og úrslita Alþ., í þeirri von, að það líti með skilningi á það, sem þessi aldraða merkiskona er að reyna að koma í framkvæmd á sínum efri árum.

Hin brtt. mín er á sama þskj.,XII, við 22. gr. XVII, um það, að þar komi nýr liður, á þá leið, að ríkisstj. sé heimilt að verja a. m. k. 30 þús. kr. af tekjum áfengisverzlunarinnar til stofnunar sjúkrahælis handa áfengissjúklingum. — Eins og hv. þm. vita, þá hefi ég þing eftir þing borið hér fram frv. til laga um stofnun drykkjumannahælis, en ég hefi ekki átt því láni að fagna, að það frv. næði fram að ganga. Ég hefi einnig borið fram þáltill. um samskonar efni, en hún hefir ekki heldur náð afgreiðslu. Þá hefi ég einnig við fjárl.umr. borið fram till. um það, að veittar yrðu 10 þús. kr. úr ríkissjóði til þess að undirbúa stofnun drykkjumannahælis, og benti ég þá jafnframt á það, að nauðsynlegt væri að senda mann út úr landinu til þess að kynna sér erlendis starfrækslu og fyrirkomulag slíkra stofnana. En till. var felld, og frv. um þetta efni hefir dagað uppi þing eftir þing. En á síðasta Alþ. skilaði allshn. Ed. áliti sínu um málið og lagði til, að það yrði afgr. með dagskrártill., en undir umr. hét frsm. því f. h. n., að hún skyldi bera fram fjárbeiðni til fjvn. Alþ. um nokkurn styrk, 25–30 þús. kr., til þess að koma á fót heilsuhæli handa drykkjumönnum í sambandi við sjúkrahús og samráði við lækna. Mér vitanlega hefir þessi umsókn aldrei verið rituð, og veldur þar líklega eitthvað um, að frsm. n., Magnús heitinn Guðmundsson, veiktist um það leyti og dó. Nú veit ég það, að enginn, hvorki utan þings né innan, mun hreyfa mótmælum gegn því, að þörf sé fyrir slíkt hæli, sem hér er um að ræða. Til eru tölur, sem sanna hina óhóflegu áfengisnautn hér í landinn. Má t. d. benda á grg. þá, sem nýlega var lesin upp í útvarpinu og síðan útbýtt hér á Alþingi, um hið ægilega ástand í áfengismálum, sem ríkir meðal þjóðarinnar. Ástandið er orðið svo geigvænlegt, að ekki er lengur hægt á það að horfa án þess að grípa til varnarráðstafana. Það eru að vísu til tölur, er sýna þetta, en engar skýrslur eru þó til um áhrif áfengisbölsins á hinn einstaka mann og hið einstaka heimili. En þó þekkjum við þetta öll að meira eða minna leyti. Og ef við íhugum, að við erum hingað kosin til að koma í veg fyrir hverskonar böl, er steðjar að þessari þjóð, sem við elskum eflaust öll mjög heitt, þá hljótum við að spyrja: Hvað getum við gert í þessu efni? Og frá þessu sjónarmiði séð væri það ekki mikið, þó að nokkuð væri tekið af þeirri fjárfúlgu, sem áfengisflóðið nemur, til að leggja lítinn plástur á það böl, sem þjóðin verður fyrir af viðskiptunum við Bakkus og áfengisverzlunina. Hér er nú borin fram till. um 30 þús. kr. tillag til að reisa hæli handa þessum vesalings mönnum. Þetta er lítil upphæð, samanborið við þær milljónir, sem ríkissjóður fær árlega fyrir þetta eitur. Það er ekki nema 2½% af hinum hreina áfengisgróða. Ég tel, að ég eigi hér tal við ábyrgðarríka og hugsandi menn, þó að þeir sitji ekki margir í stólunum þessa stundina. Ég vona, að ég þurfi ekki að skýra það, hver sé skylda hv. þm., þegar þeir standa andspænis því versta böli, sem þekkist.

Þá vil ég fara nokkrum orðum um brtt. hv. 3. landsk. og hv. þm. Seyðf. Af því að ég tel mig kunnuga þeirri starfsemi, sem hér er um að ræða, er mér ánægja að verða við tilmælum form. n. og greina frá starfsemi þessari.

Starfsemi mæðrastyrksn. í Hveragerði hefir verið hin nýtasta. Í hitteðfyrra tók n. á leigu húsið í Hveragerði, sem afmælisfélagið notaði á sínum tíma sem sumarheimili fyrir veikluð börn. Undanfarin 2 sumur hefir stór hópur mæðra og barna notið þarna hressingar. 1936 dvöldu þarna 120 manns, sem skipt var niður í hópa. Hver hópur var þarna 3 vikur. Var ráðin ráðskona að heimilinu, mæðurnar skiptust á um uppþvott, hreingerningar og hirðingu fatnaðar, 3 og 4 í senn. En mest af tímanum fór til útiveru og til hvíldar. Var vel vandað til fæðisins, börnin fengu mikla mjólk og íslenzkt smjör. 1937 var haft sama fyrirkomulag, en þá voru þó fleiri í vist í Hveragerði, eða um 200 manns, mæður og börn. Varð því að bæta við húsrúmi, og var það gert þannig, að höfð voru 16 tjöld. Og það er einkennilegt, að litlu tjaldbúunum fór ekki síður fram en þeim, sem í húsinn voru.

Svona starf kostar auðvitað talsvert fé, og styrkurinn, sem starfseminni hefir hlotnazt, hefir ekki hrokkið til, svo að notuð hafa verið ýms önnur ráð til að afla fjár. Bifreiðastöðvar hafa oft gefið flutninga, matvörukaupmenn hafa gefið matvöru o. fl. Starfið nýtur því mikils trausts, en þeir, sem fyrir því standa, hafa hinsvegar ekki viljað níðast á því opinbera meira en þörf gerðist.

Þá má minnast á það, að hvert brauð hefir verið bakað þarna við hverahitann, og hefir það sparað marga krónuna. Þarna hafa fengið ókeypis máltíðir dvalargestir, sem óska. Ég nefni líka, að um helgar hafa margir heimilisfeður komið austur í heimsókn til fjölskyldna sinna, og hafa þeir að vísu greitt nokkuð fyrir greiða, er þeir hafa hlotið. Og þegar um hefir verið að ræða óreglumenn, hefir kaup þeirra þann tímann ekki farið í það að kaupa „sprútt“, heldur til að njóta frísins þarna á fallegum stað. Kostnaður fyrir mann var um 2 kr. á dag. Húsaleiga var nokkuð há, um 70 kr. yfir tímabilið. Nú hafa konurnar orðið að leggja sér til rúmföt, þær sem gátu, en það var ekki alltaf, svo að n. hefir stundum orðið að sjá fyrir því.

Ég hefi þá stuttlega drepið á aðalatriði þessa starfs. Áformað er að reyna líka að halda uppi nokkru fræðslustarfi fyrir börnin. En þetta er byrjunarstarf, sem aðeins hefir staðið í tvö sumur. Framhaldið fer eftir því, hvernig til tekst um fjárhaginn. Og ég vænti þess, að hv. þm. sjái, að ábyrgðarhluti er að hjálpa ekki til þess, að starfið geti haldið áfram, og hvar í málum, sem menn standa, ættu allir að vera sammála um, að þetta beri að styrkja.

Hv. 5. þm. Reykv. fór nokkrum orðum um brtt. á þskj. 400, frá hv. fjhn.brtt. er um barnaheimili, og eru þar sameinaðir tveir liðir á fjárhagsáætluninni, og báðir um barnavernd. Hv. þm. fór um þetta velvildarorðum og taldi nauðsyn á að styrkja þessa starfsemi í kaupstöðum landsins. Ég er fyllilega á hans máli um það. En í því sambandi vil ég minna á frv. til l., er nú liggur fyrir hv. Ed. um uppeldisstofnun fyrir vangæf börn og unglinga, en þeim fer nú fjölgandi með þjóðinni. Verður sífellt örðugra að ráðstafa þeim, ekki aðeins að því er snertir fæði og klæði, heldur og hitt, að þannig sé að þeim hlúð, að þau geti orðið að nýtum mönnum. Vil ég beina því til hæstv. ráðh., sem fær væntanlega þessa peninga til umráða, þó að upphæðin sé lág, að hann leggi sérstaka rækt við þessi börn. En það er kunnugt, að erfiðara er að ráðstafa þessum börnum, sem enginn vill hafa, en öðrum. Ættu þau verulegt heimili, væru þau betur farin. Ég vík aðeins að þessu, því að þetta er mál, sem ég tel, að varði þjóðfélagið miklu, enda er það eitt þeirra, sem verið hafa mín hugar og hjartans mál á þingi.

Í sambandi við brtt. hv. fjvn. legg ég til, að tekin séu til athugunar nokkur atriði. Er hér um að ræða nokkra nýja liði, sem hv. frsm. n. talaði fyrir um daginn. Ég verð að segja, að mér þótti hv. frsm. fara nokkuð fljótt yfir sögu. Að vísu þykir mörgum óskemmtilegt að sitja og hlusta á langar skýringar á þessum málum. En þau varða þó þjóðina miklu, og það er skylda hv. þm. að hlusta á það, sem um þau er rætt, ekki síður en annað. En ég sakna þess sérstaklega, að hv. frsm. gerði grein fyrir einum nýjum lið, en það er 2000 kr. byggingarstyrkur til Höskuldar Björnss. málara. Það er reyndar vorkunnar mál, þó að menn trénist upp á að tala hér fyrir sínum till. yfir tómum stólum, í klið og hávaða stundum. Ég verð að segja, að mér finnst vera losaralegri bragur á frágangi og meðferð fjárl. síðan Sþ. tók við þeim málum. Og sérstaklega verð ég að víkja að þeim losarabrag, sem mér virðist yfirleitt vera ríkjandi á þessu þingi. Það verður sízt til að auka hróður Alþingis, þó að rápið aukist og tómu stólunum fjölgi, þó að ysinn og þysinn fari vaxandi. Ég tel, að það hljóti að verða til að varpa rýrð á þessa stofnun, sem á að halda uppi hróðri íslenzku þjóðarinnar og sitja á sínum stað, meðan mál eru afgreidd.

Þá vil ég víkja að nokkru ósamræmi í fjárveitingum til einstakra manna, sem ég hefi veitt eftirtekt. Hv. fjvn. hefir lagt til, að hækkaður verði styrkurinn til eins af yngstu skáldum þjóðarinnar, Jóhannesar úr Kötlum, úr 1000 kr. upp í 2000 kr. Ég sé enga ástæðu til að rjúka nú í að hækka þennan styrk, nema ef vera skyldi til að launa honum kvæðið um hvítu rollurnar, sem kom í Iðunni nýlega. Það er að vísu gott kvæði, þó að það sé kannske ekki 1000 kr. virði. En ég vil benda á það í þessu sambandi, að við eigum líka annan mann, sem unnið hefir þjóðinni ómetanlegt gagn með sinni óviðjafnanlegu kirkjumúsík, en það er séra Bjarni Þorsteinsson. Hann er enn með 800 kr. styrk. Ég er ekki að segja, að hann þurfi á hækkun að halda. En mér fyndist það ekki óviðeigandi, þegar verið er að hækka við þessa unglinga, að jafnframt væri munað eftir þessum öldungi, sem setið hefir með hörpuna og knúið hana, svo að hljómarnir hafa borizt um víðan heim.

Ég vil ekki eyða fleiri orðum að þessum málum og læt því hér staðar numið.