25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 547 í B-deild Alþingistíðinda. (654)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Guðrún Lárusdóttir:

Ég vil láta í ljós gleði mína yfir því, að húsmæðrafræðslunni í sveit­um landsins er svo komið sem frv. þetta gefur til kynna, því einmitt fræðsla húsmæðranna í sveitunum er undirstaða fyrir frekari fræðslu margra ungra stúlkna, bæði þeirra, sem koma til kaupstaða frá sveitunum, og þeirra, sem eftir eru í sveitunum. Tel ég þetta stórt spor í fram­faraátt. Það er ekki vegna þess, að ég sé ó­ánægð með frv., að ég ber fram tvær lítilfjör­legar brtt., en ég tel það frv. til bóta, og því áleit ég rétt að bera þær fram.

Hv. form. menntmn. hefir skýrt allgreinilega afstöðu okkar beggja til þessa máls, og tek ég því aðeins stærstu atriðin. Það er fyrri brtt. við 11. gr. frv., þar sem talað er um, að heimilt sé að taka af námsmeyjum húsaleigugjald, allt að 40 kr. yfir skólaárið. Þegar frv. kom upp­haflega frá hv. flm. var þetta ákvæði ekki í því, né heldur skylda til að greiða skólagjald. Þessi viðbót komst inn í frv. í hv. Nd. Ég var við­stödd þegar málið var rætt þar, og voru menn ekki á einni skoðun um, hvort taka ætti gjald af námsmeyjunum, sem verða á þessum skól­um. Ég hygg, að þær séu flestar félitlar og munu ekki hafa upp á annað að hlaupa en sumar­kaup sitt eða þá stuðning foreldra sinna eða annara aðstandenda. Þótt svo megi segja, að 40 kr. gjald muni ekki miklu, þá álít ég, að óhægt geti orðið fyrir efnalitlar stúlkur að greiða það, enda hygg ég, að það hafi aldrei verið meining hv. flm. að leggja þetta gjald á stúlkurnar.

Hin brtt. við 13. gr. fjallar um húsmæðra­kennaraskólann. Eins og hv. form. n. drap á, lágu fyrir n. 2 frv. um húsmæðrafræðslu; ann­að var það, sem hér er á dagskrá í dag, hitt er um húsmæðrakennaraskóla Íslands og húsmæðraskóla í Reykjavík. Það frv. var lagt til hliðar í bili, en n. samþ. að leggja fram till. til þál., sem hv. form. menntmn. hefir skýrt frá. Er þar óskað, að gert verði ráð fyrir, að stofnaður verði kennaraskóli í sambandi við stærsta skólann á landinu. Því þótti mér til hlýða, að það kæmi fram í því frv., sem hér er í upp­siglingu, að þessi skólastofnun yrði ekki fast bundin við einn stað á landinu, heldur væri það aðeins bráðabirgðastofnun, þar til öðruvísi verð­ur skipað. Þess vegna bar ég fram þessa brtt., sem ekki haggar frv. neitt, en heldur áfram þeirri stefnu, sem gert er ráð fyrir í 13. gr., á þann hátt, að þessi skóli verði starfræktur þar til húsmæðrakennaraskóli Íslands verður stofn­aður, hvar sem það svo verður.

Eins og ég sagði áðan, er það ekki meining mín að tefja fyrir frv., en taldi mér bera að koma fram með þessar brtt., þar sem ég áleit, að hv. Nd. hafi ekki öll verið sammála um, að taka ætti húsaleigugjald af námsmeyjunum.

Ég læt nægja að gera grein fyrir, hvað fyrir mér vakti með því að bera fram brtt., og skal ekki tefja frekar fyrir hv. d.