25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 548 í B-deild Alþingistíðinda. (655)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

*Frsm. (Jónas Jónsson):

Ég ætla að bæta við örfáum orðum út af ræðu hv. síðasta ræðumanns. Í sjálfu sér má segja, að brtt. um að fella niður heimild til að krefja stúlkurnar um húsaleigu fari í frelsisáttina, en þó held ég, að þetta sé ekki til bóta. Þessir skólar, nema Staðarfellsskólinn. eru yfirleitt byggðir með fjárframlögum úr héruðunum, og margir þeirra eru í verulegum skuldum. Ég vil taka t. d. skólann á Hallormsstað, sem er einn stærsti skólinn. Hann er í miklum skuldum. Aftur á móti býst ég ekki við, að Eyjafjarðarskólinn sé í miklum skuldum. En einmitt vegna þessa er heppilegt að orða þetta eins og það er gert í frv. Sumir þessir skólar mega til með að fá húsaleigu til að hafa sig upp úr skuldunum, en munu fella hana niður þegar það er búið. Ég vona, að hv. flm. brtt. muni, einmitt m. a. vegna Hallormsstaðaskólans, sem ég veit, að hv. flm. ann alls góðs, bæði af fjórðungsástæðum og öðru, sjá, að ef brtt. þessar eru samþ., þá er það stórum verra fyrir þessa ágætu skóla. En enginn skóli mun halda þessu gjaldi lengur en þörf gerist. Samt sem áður fæst mikil réttarbót fyrir námsmeyjarnar með þessu frv.; áður hafa skólarnir nefnilega orðið að krefja stúlkur um skólagjald.

Um hinn lið brtt., um að setja nú þegar í l., hvar þessi framtíðar húsmæðrakennaraskóli skuli vera, þá er það að segja, að nokkur ár geta liðið enn þar til byggt verður í þessari sveit, og aftur geta liðið nokkur ár frá því að það var gert, þar til farið verður að tala um að flytja hann, en á þeim tíma er eðlilegast, að þeir menn, sem þá lifa, taki ákvörðun um, hvar hann skuli vera. Stúlkur hafa því miður enn lægra kaup en karlar og hafa því minni efni til að kosta sig á þessa skóla. Þá munar ekki litlu, hvað þeim verður ódýrara að vera á skóla eins og á Laugarvatni eða Reykholti, eða þeim öðrum stöðum, sem hafa hverahita, og fyrir stúlkurnar, sem eru að reyna að brjótast sjálfar áfram, er þetta ekki litið atriði. Fyrir stúlkur á kennslukvennaskólunum verður þetta þriggja ára nám, þar sem gert verður ráð fyrir eins vetrar námi í einhverri undirbúningsdeild; þær munar því mikið um þessa verðlækkun.

Þar að auki er það ekki einungís kostnaðurinn, sem um er að ræða. Það er kunnugt, að fólki líður betur á þeim stöðum, sem náttúrugæði eru meiri. Það eru t. d. ekki lítil hlunnindi fyrir þessar tilvonandi kennslukonur að hafa sundlaug svo að segja innanhúss, og sömuleiðis eru þar tækifæri til að iðka gufuböð þau, sem við vitum, að forfeður okkar notuðu, svo ég taki ekki fleira. Þá er og kostur að eiga völ á ágætu íþróttahúsi rétt við skólann, sem ekki þarf að kosta til sérstaklega. Það er ekki stórt atriði, hvort þessar brtt. verða samþ. eða ekki, vegna þess, að það yrði alltaf umhugsunaratriði hér á Alþ., hvort ætti að flytja skólann þegar búið væri að byggja á einum stað. Sumir skólar verða að vera í Reykjavík. Ég hefi lagt fram till. um að reistur verði stór og góður stýrimannaskóli í nágrenni Reykjavíkur, og við erum að byggja hér vandaðan háskóla. Hvorugur þessara skóla getur verið upp í sveit. En ég álit ekki að hægt sé að færa rök fyrir því, að ekki sé heppilegt, að þessi fræðsla stúlknanna fari fram upp í sveit.