25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 549 í B-deild Alþingistíðinda. (656)

25. mál, húsmæðrafræðsla í sveitum

Þorsteinn Þorsteinsson:

Ég ætla ekki að lengja umr. um þetta mál, en það er eitt atriði, sem ég vildi minnast á og heyra álit hv. frsm. um. Með leyfi hæstv. forseta ætla ég að lesa fyrri hl. 8. gr. frv.: „Skólaráð hvers skóla sé skipað fimm mönnum, til 4 ára í senn. Ráðherra tilnefnir einn mann, og er hann formaður. Hina fjóra tilnefna þeir aðiljar, er teljast stofnendur skólans“. — Það er svo um skóla þann, sem ég þekki bezt til, Staðarfellsskólann, að ekki mun leika á tveim tungum, að aðalstofnandi skólans er frá Herdís Benediktsen, sem í arfleiðsluskrá sinni gaf fé til að reisa hann. Nú er hvorki hún né hennar hér til að nefna menn í skólaráð. Ég get tekið fram, að líta má svo á, að Magnús Friðríksson, sem enn lifir, eigi einnig hlut í stofnun þessa skóla, en ekki er vafi á, hvort er aðalstofnandinn. Raunar get ég gert mér í hugarlund, að í stað aðalstofnandans kæmi sá aðilji, sem hefir yfirráð yfir sjóðnum.

Ég vildi satt að segja fá það skýrt fram tekið, hvaða aðili það væri, sem ætti að velja mann í þetta skólaráð. Ég er ekki að heimta, að því verði lýst yfir nú, ef hv. frsm. þykir ekki tími til þess, en ég vildi fá að vita þetta áður en frv. kemur til 3. umr., því að annars mun ég koma með brtt. við þetta atriði.