19.03.1938
Neðri deild: 29. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 555 í B-deild Alþingistíðinda. (672)

12. mál, skemmtanaskattur

*Bjarni Ásgeirsson:

Ég get að nokkru leyti sparað mér að tala, því að frsm. n. tók að mestu leyti fram það, sem ég vildi segja.

Ég vil aðeins benda á þann reginmisskilning, sem komið hefir fram hjá þeim hv. þm., sem andmælt hafa frv. Þeir halda, að með þessu sé verið að undanþiggja ungmennafélögin öllum skemmtanaskatti. Þetta er hreinasta fjarstæða. Ungmennfélögin verða eins og aðrir að borga skemmtanaskatt af öllum venjulegum skemmtunum, sem þau halda, þó að þetta verði samþ. En það er aðeins í því eina tilfelli, að farið er fram á undanþágu á skemmtanaskatti, þegar margir hreppar eða sýslur koma saman til að halda sín héraðsmót, og það með því skilyrði, að allur ágóðinn renni til opinberrar menningstarfsemi. En það sem gerist, ef þetta er ekki lögfest, er það í þessu tilfelli, að einn hreppur innan tveggja sýslna nýtur skemmtanaskatts af skemmtun, sem nær yfir báðar sýslurnar, og það er engin ástæða til þess, að einn einasti hreppur njóti sérstakra tekna í gegnum skattálagningu af starfsemi fjölda fólks í öllum hreppum tveggja sýslna, þó að það einu sinni á ári þurfi að koma saman á þeim stað, sem mótið er haldið á í þessum eina hreppi. Þess vegna er það alveg út í loftið, þegar hv. 3. þm. Reykv. fer fram á það, að í kjölfar þessa frv. komi almennt skattfrelsi á skemmtunum verklýðsfélaganna, og væntanlega á skemmtunum annara félaga og annara flokka, því að væntanlega yrðu verklýðsfélögin að sætta sig við, að önnur félög og aðrir flokkar kæmu þar í kjölfarið. Ungmennafélögin eru, eins og vitað er, algerlega ópólitísk starfsemi, og það er sú eina umfangsmikla menningarstarfsemi, sem haldið er uppi í sveitum þessa lands, með öllum þeim erfiðleikum, sem því fylgir, að halda þar uppi heilbrigðu félagslífi, og þar sem allur ágóðinn af þessum mótum fer í menningarstarfsemi þeirra héraða, sem félögin starfa í, þá er það hart að veita einni sveit innan þessara héraða heimild til að skattleggja þessa starfsemi.