25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 566 í B-deild Alþingistíðinda. (692)

12. mál, skemmtanaskattur

*Bjarni Snæbjörnsson:

Það voru þessi ummæli hv. þm. Vestm. um tilmæli til n. um að taka til athugunar, hvort ekki væri hægt að ívilna félögum, sem talað er um í framkomnum brtt., sem komu mér til að kveð,ja mér hljóðs.

Ég hefi ekki gert brtt. við þetta frv. nú, þó að ég hefði gjarnan viljað það, því að ég vildi sjá, hvernig þeim reiddi af, sem þegar eru komnar fram. En ýms önnur félög koma hér til greina, sem ekki hefir verið minnzt á, t. d. félagið Magni í Hafnarfirði, sem hefir séð um Hellisgerði, sem nú er frægt orðið. Það hefir verið miklazt af því af hv. þm. S.-Þ., að Ungmennafélög Borgfirðinga hafi lagt fram allt að 20 þús. kr. til byggingar skólans í Reykholti. En það má segja um félagið Magna, að það hefir óbeint lagt fram meira en 20 þús. kr. til ræktunar Gerðisins. Ef það yrði að ráði, að hv. n. tæki þetta mál til athugunar á milli 2. og 3. umr., vildi ég beina þeim tilmælum til n., að hún athugaði líka, hvort félagið Magni gæti ekki komið til greina í þessu sambandi. Ég veit, að öllum þdm. er kunnugt um, að það er ekki síður ástæða til að hjálpa þessu félagi en öðrum, sem nefnd hafa verið.