25.04.1938
Efri deild: 53. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 567 í B-deild Alþingistíðinda. (695)

12. mál, skemmtanaskattur

Páll Zóphóníasson:

Herra forseti! Ég vil láta koma fram mína skoðun á þessu máli. Það eru til ungmennafélög í hverri sveit og mörgum kaupstöðum, en svo eru til 10–11 héraðasambönd ungmennafélaga. Það, sem þetta frv. felur í sér, er, að mót, sem sum þeirra halda árlega, séu undanþegin skemmtanaskatti. Það nær því eingöngu til skemmtana, sem sambönd ungmennafélaga halda, en ekki til skemmtana, sem einstök félög halda. Brtt., sem fram eru komnar, miða að því að láta einstök félög njóta þessarar sömu undanþágu. Hér hefir t. d. verið nefnt félagið Magni í Hafnarfirði. Mér dettur ekki í hug að neita því, að það hefir unnið þarft og fallegt verk, og svo er og um mörg önnur félög, þó að ekki hafi þau verið nefnd hér. Þau eru eins og hvert einstakt ungmennafélag og eiga ekki að njóta hér hlunninda, ef hreppsnefnd finnur ástæðu til að leggja á þau skemmtanaskatt í hreppssjóð. Eins eru kvenfélögin allsstaðar og halda skemmtanir í líknarskyni, en engum dettur í hug að veita þessum einstöku félögum undanþágu frá skemmtanaskatti í ríkissjóð, þótt þau muni sjaldnast vera látin greiða hann í hreppssjóð. Lögreglustjóra mundi ætlað að úrskurða í hverju tilfelli, hvort viðkomandi félag skuli fá undanþágu frá skemmtanaskatti, ef samþ. verða brtt. Þann úrskurð er ég hræddur við og er því á móti brtt., en með frv. óbreyttu.