29.04.1938
Efri deild: 57. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 569 í B-deild Alþingistíðinda. (700)

12. mál, skemmtanaskattur

*Sigurjón Á. Ólafsson:

Herra forseti! Við 2. umr. voru felldar hér brtt. frá okkur hv. þm. Vestm., og verða ekki teknar hér upp aftur í neinni mynd. Ég vil geta þess, að menntmn. hefir alls ekki komið saman til þess að ræða möguleikana á því að gera fleiri breytingar á lögunum en frv. leggur til, þótt ekki væri nema um einhverja linun að ræða á skatti, sem t. d. verklýðsfélög og líknarfélög, sem halda uppi þjóðnytjastarfsemi, verða að greiða. En nú hefir hæstv. fjmrh. lýst yfir því við okkur hv. þm. Vestm., að hann muni bera fram brtt. í sambandi við fjárlögin um að lækka skemmtanaskatt, sem liggur á slíkum félögum samkv. lögum frá 1932, þegar hann var hækkaður um 80%. En nú er gert ráð fyrir að lækka aftur niður í 20%. Ég hefi ekki reiknað út hvað miklu það munar í heild, en veit, að það er ekki lítið.

Skatturinn samkv. þessum lögum frá 1922, sem hér er lagt til að breyta, rennur ekki í ríkissjóð, eins og skatturinn, sem yngri lögin ánöfnuðu þjóðleikhúsinu. Hann er fundið fé fyrir þá hreppa, sem njóta hans. — Ég geri ráð fyrir, að frv. verði samþ. hér í d. og mun ekki setja mig upp á móti því, en get með tilvísun til loforðs hæstv. fjmrh. látið allar brtt. niður falla.