28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 571 í B-deild Alþingistíðinda. (713)

19. mál, bókhald

*Thor Thors:

Við 2. umr. þessa máls hér í d. var enginn ágreiningur um það, því að n. var öll sammála um, að rétt væri að setja nýja löggjöf um bókhald. Gildandi l. um þetta efni eru frá 1911. En á þeim tíma, sem síðan er liðinn, hafa orðið miklar breyt. á sviði atvinnu- og viðskiptalífs þjóðarinnar. Það þarf að færa bókhaldsskylduna í samræmi við þær breyt., sem á þessum tíma hafa orðið. Og það þarf að láta hana ná til fleiri aðilja en verið hefir. Það er nauðsynlegt fyrir aðiljana sjálfa, að geta jafnan gefið sem gleggst yfirlit yfir afkomu atvinnurekstrar sins. Og það er nauðsynlegt vegna lánsstofnana og hins opinbera yfirleitt, að bókhaldsskyldan sé látin ná til sem flestra aðilja. Ágreiningurinn í allshn. er því ekki fólginn í því, til hversu margra aðilja bókhaldsskyldan skuli ná, heldur hvort ástæða sé fyrir löggjafarvaldið að fyrirskipa eina ákveðna tegund bókhalds.

Hv. 8. landsk. þm. og ég erum þeirrar skoðunar, að það sé ekki nauðsynlegt, að löggjafarvaldið gripi fram fyrir hendur manna og fyrirskipi sérstaka tegund bókhalds. En meiri hl. allshn. vill hinsvegar fallazt á till. fim. frv., hv. þm.

V.-Húnv., um það, að lögbjóða tvöfalda bókfærslu. Þetta bókfærsluform ryður sér nú mjög til rúms, og býst ég við, að innan fárra ára verði það hið eina bókhald, sem tíðkað verður. En það er engin ástæða til að gera ráð fyrir því enn sem komið er, að allir aðiljar myndu heldur kjósa þetta bókhald. Og það er vitanlegt, að kunnátta á þessari tegund bókhalds er ekki alstaðar þar fyrir hendi, sem frv. gerir ráð fyrir, að það verði lögboðið. Að vísu er nokkur undanþáguheimild í frv. sjálfu frá þessari bókhaldsskyldu, en það er á valdi lögreglustjóra á hverjum tíma, hvort sú undanþága skuli veitt. Ég hygg, að það myndi fyrir ýmsa aðilja geta haft talsverðan kostnaðarauka í för með sér, að lögbjóða þessa einn tegund bókfærslu. Og það getur verið vafamál, hvort það sé á sumum stöðum hér á landi völ á mönnum, sem kunna þetta form bókhalds. — Það má geta þess, að í nágrannalöndunum, eins og Danmörku og Svíþjóð, er tvöfalt bókhald ekki lögboðið. Hygg ég þó, að það sé meiri verzlunarþekking þar en hjá okkur. En löggjafarvaldið hjá þessum þjóðum leitast við að gefa mönnum sem frjálsastar hendur um það, hvaða bókhaldsform þeir nota. Og það verður að teljast óeðlilegt, að við setjum strangari reglur fyrir þessu en nágrannaþjóðirnar. Og það er því síður ástæða til að setja löggjöf eins og þessa, þar sem það getur ekki talizt nauðsynlegt vegna hagsmuna hins opinbera.

Við höfum fengið umsagnir verzlunarráðs Íslands og Félags löggiltra endurskoðenda í allshn., og báðir þessir aðiljar eru sammála um það, að ekki sé rétt að lögbjóða tvöfalt bókhald, en fella sig að öðru leyti við ákvæði frv. Félag löggiltra endurskoðenda hefir sent n. rökstutt samhljóða álit um frv., þar sem það er einmitt fært fram gegn þessu máli, að engin ástæða sé til að lögbjóða tvöfalt bókhald. Þetta er undirrítað af stjórn félagsins: Birni Árnasyni, Ara Thorlacius og Jóni Guðmundssyni ríkisendurskoðanda. Við minni hl. allshn., sniðum okkar brtt. eftir umsögn þessara aðilja, þar sem við getum að öllu leyti fallizt á hana. En brtt. á þskj. 121 miða allar að því, að láta aðilja sjálfráða um það, hvort þeir nota tvöfalt bókhald eða eitthvert annað bókhald, sem verður að teljast fullnægja kröfum hins opinbera. Yfirlit yfir rekstur fyrirtækja ætti að fást eins glöggt, þótt ekki væri um tvöfalt bókhald að ræða, því að í 8. gr. eru menn skyldaðir til þess að færa ýmsa yfirlitsreikninga, sem gefa til kynna afkomu fyrirtækja. Ætti því á hverjum tíma að vera hægt að fá hugmynd um afkomuna við athugun þessara reikninga. En af því að við viljum feila niður þessa skyldu til tvöfalds bókhalds, fellur vitanlega niður af sjálfu sér 2. málsgr. 4. gr. frv., sem fjallar um undanþáguheimildina.

2. og 3. brtt. eru í beinu samræmi við 1. brtt. og leiða af henni. Sama má segja um 4. brtt. Það skal þó tekið fram, að þar er aðalbók ætíð lögboðin.

Loks er það 5. brtt., sem miðar að því að heimila þeim, sem færa tvöfalt bókhald, að færa bækur þær, sem um ræðir í 5.–8. gr., sem lausblaðabækur.

Eins og hv. þdm. munu heyra af þessu, er ágreiningurinn milli minni hl. og meiri hl. allshn. ekki verulegur. Hann er byggður á því einu, hvort þetta ákveðna form bókhaldsskyldu skuli lögleitt eða ekki. Við í minni hl. allshn. teljum, að það sé ekki hlutskipti Alþingis að torvelda atvinnu- og viðskiptalífið meira en fyllsta nauðsyn er til. Og við teljum alveg ástæðulaust að lögbjóða þetta eina form bókfærslu, þar sem hagsmunir almennings eru á engan veg betur tryggðir eftir en áður. Við álitum, að það sé miklu frekar hlutskipti Alþingis, að reyna að greiða fyrir viðskiptalífinu, heldur en setja óeðlilegar og ónauðsynlegar hömlur, eins og við teljum, að hér sé gert, með því að rígbinda bókhaldsskylduna við þetta eina form.