28.03.1938
Neðri deild: 35. fundur, 53. löggjafarþing.
Sjá dálk 576 í B-deild Alþingistíðinda. (720)

19. mál, bókhald

*Frsm. (Gísli Guðmundsson):

Ég skal ekki lengja þessar umr., en vil aðeins benda á það, að í 4. gr. frv. er ákvæði um heimild fyrir lögreglustjóra til að veita undir vissum skilyrðum undanþágu frá tvöföldu bókhaldi, og ég vildi lesa upp það ákvæði, til þess að það sé ljóst fyrir hv. dm., hvernig þetta er í raun og veru í frv. Þar stendur svo með leyfi hæstv. forseta:

„Lögreglustjórum er þó heimilt að veita smáatvinnurekendum, sem ekki falla undir ákvæði 3. gr. þessara laga, undanþágu til allt að 5 ára í senn frá því, að færa bækur sínar eftir reglum tvöfaldrar bókfærslu. Þeir, sem undanþágu beiðast, skulu færa gild rök fyrir því, að það sé þeim, einhverra hluta vegna, um megn að færa tvöfalt bókhald. Einkum á þetta ákvæði við um þá, sem þegar hafa byrjað atvinnurekstur, er lög þessi öðlast gildi. Bókhaldi þeirra, sem undanþágu fá, skal þó vera þannig fyrir komið, að það gefi greinilegar upplýsingar um fjárhag þeirra“.

Meiri hl. n. telur þetta undanþáguákvæði frv. vera nægilegt til að tryggja það, að menn séu ekki látnir auka sér erfiðleika að óþörfu. Hér er gert ráð fyrir að veita smáatvinnurekendum undanþágu, sérstaklega þeim, sem ennþá eiga erfitt með að fullnægja þessum skilyrðum, af því að þeir hafi ekki lært til þessara hluta. En eins og hér hefir verið tekið fram, er það mikill fjöldi manna í landinu, sem nú orðið kann þetta tvöfalda bókhald, þar sem um langt skeið hefir verið haldið uppi tveimur skólum, sem veita menntun í þessari bókhaldsaðferð, og það er ólíklegt, að það verði margir, sem verði bókhaldsskyldir samkv. þessum l., sem ekki hefðu aðstöðu til að færa sínar bækur þannig. En meiri hl. n. fannst engin ástæða til, að gert væri ráð fyrir því í l., að undanþiggja þá menn, sem hefðu aðstöðu og þekkingu til að geta fært tvöfalt bókhald. Meiri hl. n. telur nægilegt að hafa þau undantekningarákvæði, sem eru í frv., og leggur því á móti því, að brtt. á þskj. 121 verði samþ.